19.02.1969
Sameinað þing: 29. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 770 í D-deild Alþingistíðinda. (3815)

133. mál, efnahagssamvinna Norðurlanda

Fyrirspyrjandi (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. viðskrh. og hæstv. forsrh. fyrir þau svör, sem þeir gáfu við fsp. mínum. Svörin báru með sér, að hv. ríkisstj. stendur enn þá algjörlega álengdar og hefur ekki mótað neina sérstaka skoðun á því, hvernig við eigum að bregðast við þeim nýjustu upplýsingum, sem fyrir liggja um horfurnar á aukinni efnahagssamvinnu Norðurlanda.

Hæstv. forsrh. taldi, að við hefðum einskis misst þrátt fyrir þetta og ég skal ekki draga það í efa, vonandi stenzt það. Hann taldi líka, að við hefðum ekki getað haft mikil áhrif, þótt við hefðum tekið þátt í þeirri könnun, er framkvæmd hefur verið, vegna þess að fjöldi okkar sé svo litill, við séum aðeins 1 á móti 100 á öðrum Norðurlöndum. Nú er það að sjálfsögðu ekki svo, að í þessari samvinnu gildi nein höfðatöluregla, það eru til svið, þar sem við erum býsna fyrirferðarmiklir, einnig á þessu stóra svæði. Þar á ég við fiskveiðarnar og fiskiðnaðinn. Á þeim vettvangi mundi að sjálfsögðu vera tekið tillit til okkar sjónarmiða, ef við værum þátttakendur í slíkri könnun. Ég vil einnig minna á, að forsenda þessara viðræðna, sú grundvallarregla, sem átti að fylgja, ef unnt yrði að koma á þessari norrænu samvinnu, var sú að öll aðildarríki mundu hafa hag af henni. Það var meginregla, sem mönnum bar að fylgja í þessari athugun. Ef eitthvert ríki tæki á sig einhvern aukinn vanda, þá yrðu að koma á móti hagsbætur, sem ekki aðeins ynnu upp þennan vanda, heldur meira en það. Það áttu öll ríki að hafa hag af samvinnunni.

Ég dreg ekki í efa, að það yrði erfitt fyrir okkur Íslendinga að gerast fullir aðilar að allsherjar efnahagsbandalagi Norðurlanda, ef það kynni að verða stofnað, en það eru náttúrlega til mörg fyrirkomulagsatriði. Það er alkunnugt, að ráðamenn Norðurlanda hafa fullan hug á því að sýna Íslendingum fulla vinsemd og það ber okkur að hafa í huga. Þarna getur eflaust komið til greina einhvers konar takmörkuð samvinna af okkar hálfu, einhvers konar aukaaðild. Að minnsta kosti tel ég víst, að ef við tækjum slík mál upp, yrði því vel tekið.

Ég hef ekki þá vitneskju um þetta mál, að ég geti farið að ræða það í einstökum atriðum. Hæstv. ríkisstj. hefur að sjálfsögðu mun meiri vitneskju. Það sem mér lá á hjarta, var að mælast til þess, að hæstv. ríkisstj. færi að gera frekari grein fyrir þessu máli en hún hefur gert.

Það er auðvitað rétt hjá hv. forsrh., að þarna geta komið upp margs konar vandamál og við kynnum að þurfa að breyta stefnu okkar á ýmsum sviðum. Hann nefndi m.a. sem algjöra forsendu sameiginlegan vinnumarkað. En eins og bent var á áðan af hv. 12. þm. Reykv., mundi sameiginlegur vinnumarkaður ekki leiða til þess um þessar mundir, að hingað færi að streyma verkafólk annars staðar frá Norðurlöndum, vegna þess að kaupgjald er hér um þessar mundir svo sem helmingur af því kaupi, sem greitt er annars staðar. En hitt er alveg rétt, að við yrðum vafalaust að breyta stefnu okkar á mörgum sviðum. En til þess að við getum rætt þá hluti, þarf að liggja fyrir um það miklu meiri vitneskja en nú er.

Hv. 12. þm. Reykv. hafði hér smátilhlaup til þess að flytja ámóta skemmtilega ræðu og hann flutti í vetur, þegar við ræddum um EFTA, þótt honum ynnist því miður ekki tími í þessum stutta tíma, sem nú er, til að segja gamansögur af þátttöku sinni í hafta– og nefndafargani, sem tíðkaðist áður fyrr. Hitt held ég, að sé algjör misskilningur hjá þessum hv. þm., ef hann ímyndar sér, að forsenda þess, að við getum tekið þátt í samstarfi, t.d. norrænu efnahagsbandalagi, væri, að við héldum áfram þeirri viðreisnarstefnu, sem nú að undanförnu hefur leitt þjóðina út í þá ófæru, sem blasir við öllum. Ég held þvert á móti, að alger forsenda þess, að við getum tekið þátt í þessu samstarfi eða nokkru öðru alþjóðlegu samstarfi sé, að við breytum algjörlega um vissa þætti í þeirri stefnu og þar á ég við, að við verðum að taka upp áætlunarbúskap. Við verðum að taka upp áætlunarstjórn á meginþáttunum í efnahagsmálum okkar og atvinnulífi. Þetta er algjör forsenda þess, að við séum menn til þess að taka þátt í nokkru alþjóðlegu samstarfi á sviði viðskipta og verzlunar. Ef við gerum það ekki, eru fyrirtæki okkar allt of vanmegnug til þess að heyja nokkra samkeppni við aðra. Ef við ættum að geta mætt öðrum mönnum á jafnréttisgrundvelli, verðum við að vera menn til þess að sameina krafta okkar á miklu algjörari hátt, en okkur hefur tekizt hingað til. Ég held, að það sé algjör forsenda, að við tökum upp áætlunarstjórn á meginþáttunum í efnahagslífi okkar. Án þess er tómt mál að tala um það, að við getum gengið í eitthvert víðtækara bandalag.

Ég vil benda þessum hv. þm. á, að slík áætlunarstjórn tíðkast víða í löndum, sem taka þátt í mjög nánu efnahagsbandalagi. T.d. er hún mjög veigamikill þáttur í efnahagskerfi Frakka og hefur verið það um skeið. Slík áætlunarstjórn þarf ekki að fela í sér neins konar þjóðnýtingu. Í slíkri áætlunarstjórn taka sameiginlegan þátt einkaaðilar og opinberir aðilar. Þetta er aðferð til þess að styrkja aðstöðu viðkomandi ríkis og efla þróun atvinnuveganna. Ef okkur tekst ekki að taka upp slíka stjórn á efnahagsmálum okkar, verðum við aldrei menn til þess að taka þátt í víðtækara samstarfi og þá má vel vera, að okkur verði nauðugur einn kostur að vera með innilokunarstefnu, en hún leiðir sannarlega ekki fram á við. Okkur er óhjákvæmilegt, ef við ætlum að taka hér upp iðnvæðingu, að tryggja okkur aðgang að víðtækari mörkuðum, það gefur auga leið. En til þess að við getum það, verðum við að koma hér upp sterkum fyrirtækjum eftir okkar mælikvarða og það getum við aðeins gert með áætlanastjórn. Þetta er algjör forsenda af okkar hálfu.