19.02.1969
Sameinað þing: 29. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 775 í D-deild Alþingistíðinda. (3818)

133. mál, efnahagssamvinna Norðurlanda

Fyrirspyrjandi (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Ekki skal ég blanda mér frekar í þær sérkennilegu umr., sem hv. 12. þm. Reykv. er farinn að hafa uppi hér af hinum undarlegustu tilefnum aftur og aftur. Ástæðan til þess, að ég kvaddi mér hljóðs aftur, er aðeins eitt atriði, sem ég gleymdi að minnast á áðan, en mig langaði til að gera nokkur skil.

Hæstv. forsrh. sagði, að efnahagssamvinna Norðurlanda, sem fyrirhuguð væri, væri aðeins hluti af samstarfi þeirra innan EFTA og hæstv. viðskrh. sagði, að aðild Íslands að EFTA væri skilyrði þess, að við gætum orðið aðilar að þessu norræna samstarfi. Þetta mál er engan veginn svona einfalt. Staðreyndin er sú, að samstarf EFTA er í rauninni strandað. Það er strandað vegna þess, að því verkefni, sem EFTA átti að leysa, er lokið og það hefur ekki tekizt að koma á frekari efnahagsþróun innan þess bandalags. Einnig hefur það gerzt, að Bretar hafa reynzt mjög fyrirferðarmiklir innan bandalagsins og hafa aftur og aftur gengið á skýlaus ákvæði EFTA–sáttmálans. Þetta er ástæðan til þess, að Norðurlönd hafa ákveðið að stefna að því að athuga gaumgæfilega, hvort ekki væri unnt að koma á efnahagsbandalagi Norðurlanda. Þeir vilja m.a. styrkja sig gagnvart Bretum, en fyrst og fremst vilja þeir koma á stofnun, sem geti tryggt þeim frekari efnahagsþróun. Ef af slíku norrænu efnahagsbandalagi verður, er augljóst mál, að það, sem í raun og veru er að gerast er, að EFTA er að klofna í tvennt. Það kann að halda áfram að forminu til, en í raun skiptist það í sundur. Þess vegna finnst mér, að við verðum að athuga þetta mál, sérstaklega í sambandi við athuganir á því, hvort Íslendingar eigi að gerast aðilar að EFTA eða ekki. Því hvað gerist, ef myndað verður bandalag Norðurlanda, efnahagshandalag Norðurlanda, sem við gerumst ekki aðilar að, en við ákveðum hins vegar að ganga í EFTA? Þá erum við komnir í félagsskap við annan partinn af EFTA og þá einmitt þann hluta þess bandalags, sem við höfum engan sérstakan áhuga á, þegar Bretland er undanskilið.

Ég lít þannig á, að þessi norræna efnahagssamvinna sé svo mikilvæg, að við þurfum að athuga hana alveg sérstaklega og ef það liggur fyrir, að við teljum okkur ekki geta gerzt aðilar á neinn hátt, sé það í sjálfu sér fjarskalega langsótt að gerast aðilar að hinum hluta EFTA. Ég held, að forsenda þess, að menn ákveði að ganga í EFTA, ef myndað verður norrænt efnahagsbandalag, sé sú, að við teljum okkur kleift að taka þátt í þessu norræna efnahagsbandalagi, því ef það verður ekki, finnst mér EFTA–hugmyndin gjörsamlega runnin út í sandinn.