19.02.1969
Sameinað þing: 29. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 778 í D-deild Alþingistíðinda. (3820)

133. mál, efnahagssamvinna Norðurlanda

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hef aldrei haldið því fram, að það væri sjálfsagt að kaupa vörur af einstökum þjóðum fyrir nákvæmlega jafnmargar krónur og við seljum þeim vörur fyrir, en ég tók þarna dæmi af viðskiptunum við Danmörku og Noreg. Og þetta er ekkert nýtt. Svipað þessu hefur þetta verið undanfarin ár. Ég fæ ekki séð, hvernig hægt er að halda áfram að kaupa vörur af Dönum fyrir rúmlega 5 sinnum hærri upphæð, en því nemur, sem þeir kaupa af okkur og 8 sinnum meira af Norðmönnum, en þeir kaupa af okkur. Hvar er öruggur markaður í öðrum löndum fyrir íslenzkar útflutningsvörur til þess að jafna þennan halla í framtíðinni? Þetta eru líka mjög misjafnlega þarfar vörur, sem við kaupum frá þeim. Mikið af þessu, sem flutt hefur verið inn frá þessum grönnum okkar árið sem leið, eru vörur, sem vel mátti framleiða hér á landi. Þarna hefur verið tekin vinna frá íslenzkum iðnaðarmönnum og flutt út til Danmerkur og Noregs og ég sé enga framtíð í slíku. Ég tel ekki heldur heppilegt fyrir Íslendinga eða heillavænlega stefnu, sem núverandi stjórn fylgir, að skipta sér ekkert af því, eða láta það gott heita, að billjóna halli sé á vöruskiptajöfnuði við önnur lönd, en svo séu sendir út menn um alla jarðarkringluna til þess að leita eftir styrkjum til þess að halda uppi slíkum viðskiptaháttum. Við höldum ekki lengi okkar frelsi og sjálfstæði með slíku háttalagi.