19.02.1969
Sameinað þing: 29. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 783 í D-deild Alþingistíðinda. (3823)

133. mál, efnahagssamvinna Norðurlanda

Fyrirspyrjandi (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Fyrr í vetur hef ég einu sinni hlustað á hæstv. forsrh. halda ávíturæðu yfir þm. úr þessum ræðustóli fyrir það, hvernig þeir misnotuðu fsp.—tímana. Ég hlustaði áðan á hæstv. ráðh. flytja ræðu, sem var dæmigerð um það, sem hann var að áfellast aðra fyrir í vetur. Það vill oft verða svo um þennan hæstv. ráðh., að skapsmunirnir bera dómgreindina ofurliði og skapsmunum hans virðist vera þannig háttað núna, að hann hafi sérstaka þörf til þess að reyna að sparka úr klaufum sér, og skal ég svo sem ekki áfellast ráðh. fyrir það. Ég skil það ofur vel. Hæstv. ráðh. bar saman vitsmuni mína og hv. 1. þm. Norðurl. v. og ekki skal ég hafa á móti því að vera borinn saman við þann ágæta mann, Skúla Guðmundsson. Við þekkjum allir, að vitsmunir hans eru miklir. Hins vegar dreg ég það mjög í efa, að hæstv. ráðh. hafi mikla dómgreind til að kveða upp úr um það, hvort skoðanir manna um efnahagsmál séu skynsamlegar eða ekki. Reynsla undanfarinna ára hefur sannað það ákaflega vel, að þessum hæstv. ráðh. lætur flest annað betur, en að fjalla um efnahagsmál. Það kom til að mynda fram í ræðu hans áðan, að hann virðist ekki gera sér þess nokkra grein, að það er alger munur á áætlunarstefnu í efnahagsmálum og haftastefnu. Þetta er síður en svo sama stefnan. Þetta eru andstæðar stefnur. Ég var að mæla fyrir því, að við tækjum upp áætlunarbúskap, eins og tíðkast alls staðar í nútímaþjóðfélögum um þessar mundir. Og þetta er tvímælalaust alger meginnauðsyn fyrir okkur Íslendinga, ef við ætlum að reyna að stunda einhvers konar samvinnu við aðrar þjóðir. Það er fráleitt með öllu, að við getum stundað svokallaða frjálsa samkeppni við aðra, meðan atvinnuvegir okkar eru eins á sig komnir og þeir eru nú. Með örfáum, litlum og magnþrota fyrirtækjum yrðum við strax undir í slíkri samkeppni. Forsenda þess, að við getum tekið þátt í nokkurri efnahagssamvinnu er, að við tökum upp áætlunarbúskap, sameinum krafta okkar og reynum að koma upp þannig fyrirtækjum, að þau standist í slíkri samkeppni. Þetta hafa allar þjóðir gert á undanförnum árum nema Íslendingar. Um það er hægt að nefna fjölmörg dæmi. Það má t.d. minna á, að í lok stríðsins tóku tvær stórar þjóðir upp áætlunarbúskap á tilteknu sviði, — um aukningu fiskveiða og fiskiðnaðar. Þessar þjóðir voru Sovétríkin og Japanir. Þetta var gert með áætlunarbúskap í báðum löndunum. Bæði löndin gerðu 5 ára áætlun um slíka þróun, í Sovétríkjunum með ríkisfyrirtækjum, en í Japan með samvinnu ríkisins og einkafyrirtækja. Þessar áætlanir hafa staðizt gersamlega hjá þessum tveimur forustuþjóðum í sjávarútvegi. Þó að þarna sé um að ræða sjávarútveg, sem talinn er valtur, hafa þessar áætlanir staðizt til þessa dags og þessar þjóðir hafa algera forustu á þessu sviði. Slík áætlunarstefna tíðkast hvarvetna í Evrópuríkjum. Hún er til að mynda mjög sterk í Frakklandi, eins og ég hef minnzt á. Stórfyrirtæki þau, sem hæstv. ráðh. hafa sérstakt dálæti á, vinna öll samkvæmt reglum áætlunarbúskapar, hvert eitt einasta þeirra. Og þessi áætlunarbúskapur er alls staðar að þróast. Hin nýja tækni, sem komið hefur til síðustu árin, tölvutæknin, gerir það kleift að beita áætlunarvinnubrögðum á miklu öflugri hátt, en nokkurn tíma áður hefur verið gert. Forsrh., sem hefur ekki hugmynd um svona hluti, ætti að fara sér hægt í að tala um þekkingu og vitsmuni þm. Áætlunarbúskapur og haftabúskapur eru algerar andstæður og ég held, að hæstv. ráðh. ætti að reyna að gera sér þessa einföldu staðreynd ljósa.

Hæstv. ráðh. spurði, hvort ég vildi svara því umyrðalaust, hvort ég væri reiðubúinn til að fallast á sameiginlegan, norrænan vinnumarkað. Hæstv. ráðh. hefur enga aðstöðu til þess að spyrja mig nokkurra spurninga í því sambandi. Það liggur ekkert fyrir um það, með hvaða kostum við ættum möguleika á því að taka þátt í norrænni samvinnu.

Það átti að vera eitt af verkefnum hæstv. ríkisstj. að kanna það mál og ég bar fram þá fsp., sem ég flutti í dag, til að fá einhver svör við því. En þau svör liggja ekki fyrir. Þegar það liggur fyrir, á hvaða grundvelli hugsanlegt er, að við tökum þátt í norrænni samvinnu og hvaða valkosti þar kann að vera um að ræða, þá skal ég svara öllum spurningum um það efni. En hæstv. forsrh. hefur enga möguleika til þess að yfirheyra mig eða nokkurn annan þm. um nokkurt atriði í þessu sambandi. Ég held, að það sé algerlega ástæðulaust að rjúka hér upp í þykkjuræðu, eins og þessi hæstv. ráðh. gerði í sambandi við umr., sem hófust á málefnalegan og eðlilegan hátt. Hér er um að ræða afar fróðlegt mál, sem ég tel, að allir þm. ættu að kynna sér gaumgæfilega og ég vildi leggja áherzlu á, að mér finnst, að hæstv. ríkisstj. ætti að gera ráðstafanir til þess, að þingflokkarnir og almannasamtök, bæði atvinnurekendur og Alþýðusamband Íslands, ættu kost á að fylgjast sem bezt með þeirri athugun, sem nú er verið að framkvæma á Norðurlöndum, til þess að hægt sé að taka afstöðu til mála á málefnalegan hátt og á skömmum tíma.