05.03.1969
Sameinað þing: 34. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 789 í D-deild Alþingistíðinda. (3833)

152. mál, radíóstaðsetningarkerfi fyrir siglingar

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Þál. sú, sem vitnað er til í umræddri fsp. og samþ. var á Alþ. 18. apríl 1967, var svo hljóðandi:

Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að skipa n. sérfræðinga til að gera athugun og till. um radíóstaðsetningarkerfi fyrir siglingar við Ísland með sérstöku tilliti til fiskveiða.“

Hinn 22. maí sama ár skipaði siglingamálarh. þriggja manna n. til að gera athugun þá, sem um ræðir í þál. Í n. voru skipaðir Aðalsteinn Júlíusson vitamálastjóri, formaður, Leifur Magnússon framkvstj. flugöryggisþjónustunnar og Birgir Frímannsson verkfræðingur. Störfum n. er nú langt komið og álit hennar væntanlegt innan tveggja mánaða að sögn formannsins. N. hefur athugað, hvaða kosta sé völ varðandi radíóstaðsetningarkerfi, sem nú eru í almennri notkun svo og þróun þeirra mála erlendis. Þá hefur n. leitað álits ýmissa aðila, er málið varðar. Frá flestum hafa borizt svör með jákvæðum undirtektum um gagnsemi betri staðsetningarkerfa en nú eru starfrækt, en hins vegar skortir enn forsendur til þess, að hægt sé að gera sér grein fyrir fjárhagsþýðingu hinna mismunandi valkosta. N. vinnur nú að athugun á kostnaðarhlið málsins og gerir ráð fyrir í því sambandi að geta haft gagn af reynslu Norðmanna, sem á s.l. ári komu upp Dekkakerfi með allri strönd Noregs. Hefur n. notið sérstakrar velvildar þeirra aðila, er að þessum málum vinna í Noregi. En eins og fyrr er sagt, væntir n. þess að geta gengið frá frumskýrslu sinni innan tveggja mánaða.