12.03.1969
Sameinað þing: 35. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 800 í D-deild Alþingistíðinda. (3850)

163. mál, skuldir Íslendinga við aðrar þjóðir

Fyrirspyrjandi (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Það er mitt álit, að ekki ættu að fara fram umr. um fsp. umfram það, sem er bráðnauðsynlegt til þess að fá þeim svarað. Ég hef sýnt þessa skoðun mína í verki að undanförnu, þegar ég hef flutt hér fsp. En úr því að farið er að ræða um mál í sambandi við þessa spurningu mína, get ég ekki stillt mig um að nota rétt minn til að segja örfá orð.

Samkvæmt því, sem segir í aths. með efnahagsmálafrv. ríkisstj. í febr. 1960, voru vextir og afborganir erlendra lána árið 1958 8.2% af tekjum fyrir útfluttar vörur það ár. Í janúarhefti Hagtíðinda 1969 segir, að ef allur útflutningur ársins 1968 sé reiknaður á hinu nýja gengi, sem nú gildir, hafi hann numið 7.227 millj. kr. Nú veit auðvitað enginn, hvað útflutningurinn verður mikill á þessu ári, en ef við göngum út frá því, að hann verði jafnmikill að verðmæti og árið sem leið, sýnist mér á fram komnum upplýsingum, að það muni fara dálítið yfir 30% af tekjunum fyrir útfluttar vörur í ár til að greiða vexti og afborganir af erlendum lánum. Hæstv. fjmrh. gaf upp áðan, að til þess mundi þurfa 2.260 millj. og það eru rúmlega 30% af tekjunum fyrir útfluttar vörur, ef þær verða þær sömu í ár og árið sem leið. En þegar þeir gáfu þetta út, sem ég nefndi áðan, árið 1960, þeir sem þá voru að taka við stjórn landsins og hafa hana enn, þ.e. þeir sömu flokkar, skildist manni á þeim góðu mönnum, að allt væri að ganga af göflunum í okkar þjóðfélagi, vegna þess að greiðslubyrðin væri 8.2% af verðmæti útfluttra vara, en nú eru þeir sömu karlar búnir að koma þessu í rúmlega 30%.