12.03.1969
Sameinað þing: 35. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 801 í D-deild Alþingistíðinda. (3852)

163. mál, skuldir Íslendinga við aðrar þjóðir

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfáar setningar til að gera þessa mynd skýrari, fyrst farið er að ræða þetta nánar.

Samkvæmt þeim skýrslum, sem er að finna í Fjármálatíðindum, var greiðslubyrðin 5.l% af gjaldeyristekjunum 1958, 8.7% 1959 og 9.9% 1960 og 11% 1961. Og það eru þessi 11%, sem hér er verið að ræða um. Það var sem sé áætlað 1959, að gjaldeyrisbyrðin færi mest upp í 11% og stæði í því 1961, 1962 færi hún niður í 10.2% og síðan nokkuð lækkandi. Hún átti því að fara á tveggja ára bili upp í 11%, sem þótti þá geigvænleg tala. Síðan átti hún að fara lækkandi, ef ekki bættust við nýjar skuldbindingar. Þetta vildi ég, að kæmi fram, fyrst farið er að ræða þessi atriði.

Ennfremur vil ég segja við hæstv. fjmrh., að það er engin nýlunda, að erlend lán séu tekin til framkvæmda, sem hafa gjaldeyrisöflun í för með sér. Yfirleitt hefur verið reynt að haga þannig til, að erlendar lántökur kæmu ekki til nema þá helzt til þeirra framkvæmda, sem gæfu af sér erlendan gjaldeyri, þangað til á síðustu árum, einmitt á þessu tímabili, sem við erum að ræða hér um. Nú hefur verið tekið mjög mikið af erlendum lánum, sem ekki hafa gengið beint til gjaldeyrisaflandi framkvæmda og meira, en áður hafði komið til. Ég held, að það sé enginn sleggjudómur að upplýsa það, og það er náttúrlega alveg rangt hjá hæstv. ráðh., að á síðustu þremur árum hafi engin lán verið tekin nema til framkvæmda, sem beint skili aftur gjaldeyrinum sjálfar. Það eru innan um stórar lántökur af allt öðru tagi og það, sem hér skiptir aðalmáli, er heildarbyrðin, sem borin er. Hún er orðin þessi, sem hér hefur verið upplýst. Það er aðalatriðið.