19.03.1969
Sameinað þing: 36. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 805 í D-deild Alþingistíðinda. (3859)

277. mál, stækkun áburðarverksmiðjunnar

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Sem svar við 1. tölulið þeirrar fsp., sem hér hefur verið lögð fram, vil ég segja, að ríkisstj. hefur með bréfi til Áburðarverksmiðjustjórnarinnar, dags. 17. þm., gefið heimild til að undirbúa framkvæmdir til stækkunar Áburðarverksmiðjunnar. Bréfið hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

Ríkisstj. hefur samþ. að stjórn Áburðarverksmiðjunnar h/f geri þær ráðstafanir, sem nauðsynlegar eru, til að ganga frá tilboðum um stækkun Áburðarverksmiðjunnar og gangi frá tæknilegum atriðum í sambandi við undirbúning að stækkun verksmiðjunnar.“

Það má segja, að þetta sé ekki formleg samþykkt og það má segja, að þegar þessum þætti er lokið, undirbúningnum, þá muni ríkisstj. taka þetta mál fyrir að nýju og ákveða frekar um aðgerðir, en ríkisstj. hefur ávallt verið í sambandi við stjórn Áburðarverksmiðjunnar. Hæstv. forsrh. lýsti því yfir í okt. 1967, að ríkisstj. vildi beita sér fyrir því, að Áburðarverksmiðjan yrði stækkuð, en stjórn Áburðarverksmiðjunnar hefur látið fara fram athuganir á því, hvort það væri þjóðhagslega hagstætt að gera þetta. Hún hefur látið kanna á hvaða verði áburðurinn yrði í hinni stækkuðu verksmiðju samanborið við innfluttan áburð og telur, að athuganir séu það langt komnar, að það sé tímabært að fara að ganga frá útboðum um stækkun verksmiðjunnar.

Töluliður 2: „Hvaða áburðartegundir er fyrirhugað að framleiða í Áburðarverksmiðjunni eftir stækkunina?"

Stjórn Áburðarverksmiðjunnar hefur haft samráð við bændasamtökin, Búnaðarfélag Íslands, Stéttarsamband bænda og Rannsóknastofnun landbúnaðarins. Það má segja, að fram komnum óskum frá Áburðarverksmiðjunni til Búnaðarfélags Íslands, Stéttarsambands bænda og Rannsóknastofnunar landbúnaðarins um tillögur frá þessum aðilum um það, hvers konar áburð sé þjóðhagslega hagstæðast að nota á Íslandi, að ofangreindir aðilar sameinuðust um tillögur og ábendingar í þessu efni, sem felast í nál., sem stjórn Áburðarverksmiðjunnar hefur borizt frá þessum aðilum. Eftir að þetta álit kom frá nefndum aðilum, hefur verið unnið að því í sambandi við undirbúning að stækkun verksmiðjunnar, að unnt væri að framleiða þann áburð, sem að áliti sérfróðra manna er hentugastur fyrir íslenzkan landbúnað.

Töluliður 3: „Hefur verið gerð nákvæm rekstraráætlun fyrir hina nýju verksmiðju? Og hver verður þá framleiðslukostnaður á hverri köfnunarefniseiningu í hverri áburðartegund, miðað við núgildandi verðlag? Og hvernig er hann borinn saman við verðlag á samsvarandi áburði erlendis?“

Gerðar hafa verið rekstraráætlanir fyrir stækkaða verksmiðju fyrir hvert ár frá 1972 til 1980 og við það miðað, að rekstur slíkrar verksmiðju hæfist síðari hluta árs 1971, svo eftirspurn bænda eftir blönduðum túnáburði verði mætt 1972. Þar sem gera verður ráð fyrir, að mismunandi blöndur verði notaðar, er ekki unnt að áætla magn hverrar tegundar áburðarblöndu út af fyrir sig og því hefur rekstrarkostnaður verið reiknaður fyrir eina blöndu, sem talin er vera sem næst samnefnari fyrir þær blönduðu tegundir, sem líklegast þykir, að notaðar verði. Væri kostnaðarverð köfnunarefnis í slíkri blöndu reiknað hið sama og í eingildum kornuðum kjarna, en það er áætlað árið 1971 sem næst 14.5% lægra en meðalkostnaðarverð á þessu ári á hverja köfnunarefniseiningu í þeim eingildu köfnunarefnisáburðartegundum, sem fluttar hafa verið til landsins á s.l. árum, þá er áætlað framleiðslu kostnaðarverð á blönduðum áburði lægra en verð á samsvarandi blöndu innfluttri, ef hver eining áburðarefna í slíkri innfluttri blöndu er verðlögð á einingarverði, sem lægst getur fengizt í eingildum innfluttum tegundum.

4. töluliður: „Með hvaða verði á raforku til verksmiðjunnar er reiknað?“

Tekið skal fram, að enn hafa ekki verið gerðir samningar um orkuverð til Áburðarverksmiðjunnar, eftir að hin nýja Búrfellsvirkjun tekur til starfa, en í áætlun er reiknað með, að öll orka, sem verksmiðjan fengi, yrði seld á sama verði og álverksmiðjunni í Straumsvík, eða sem samsvarar 22 aurum á hverja kwst.