26.03.1969
Sameinað þing: 37. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 820 í D-deild Alþingistíðinda. (3869)

174. mál, fæðingardeild Landsspítalans

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð, sem ég hef að segja í viðbót við það, sem ég hef sagt í svari mínu við fsp. Ég er að sjálfsögðu mjög þakklátur þessum konum, sem hér eru samankomnar og heildarsamtökum kvenna fyrir að hafa vakið hv. þm. til umhugsunar um heilbrigðismálin og nauðsyn þess, að byggð yrði fæðingardeild og kvensjúkdómadeild.

Sumir, sem hér eru áhorfendur, hafa í dag séð þátt af vissum leikaraskap, sem stundum fer fram í þingsölunum, en þessar kempur, sem hér hafa talað, hafa látið lítið að sér kveða að undanförnu og man ég ekki eftir neinni stólparæðu frá þeim eins og þeim, sem þeir hafa flutt nú, hvorki um fæðingardeild, kvensjúkdómadeild eða heilbrigðismálin yfirleitt. (Gripið fram í: Þá man ráðh. illa.) Ég man ekkert illa í því sambandi, því að þó að hv. þm., sem nú greip fram í, kunni einhvern tíma að hafa minnzt á heilbrigðismál hér í sölunum, þá hefur hann aldrei talað af slíkum fjálgleik, sem hann hefur gert í dag.

Varðandi bréf Bandalags kvenna (Gripið fram í.) Það er a.m.k. mannlegt, — varðandi bréf Bandalags kvenna, sem ég vék að, þá mun ég koma til þeirra frá rn. leiðréttingum á missögnum, sem í því eru og ég teldi ekki eðlilegt, að ég færi að ræða það hér í þingsölum í fsp.—tíma. Ég hafði ekkert að athuga við lýsingu þeirra á ástandinu og fetti ekkert fingur út í það. En það eru missagnir í bréfinu um ráðagerðir, sem ekki hafi verið staðið við og þær mun ég leiðrétta og senda Bandalagi kvenna.

Það var ekki ónýtt að heyra, að læknar skrifuðu um það á einhverjum vettvangi, að á síðustu árum hefði alls ekki vantað fé til heilbrigðismála. Mér þætti gaman, ef á einhverju öðru tímabili hefði verið talað þannig, að nú væri veitt nægjanlegt fé til heilbrigðismála og það hlýtur að sjálfsögðu að vera ánægjuefni fyrir mig, sem á þessu tímabili hef farið með heilbrigðismálin, að ekki er kvartað undan því. að fé vanti til þeirra. Mér þykir vænt um það út af fyrir sig að fá slíka viðurkenningu, en það vantar skipulag, segja læknarnir. Nú er sannast bezt að segja, að þeim er nú blessuðum margt betur gefið en að skipuleggja, læknunum. En það er einmitt það, sem hefur verið unnið að á síðari árum og mjög kappsamlega, eins og kom fram í minni grg. Hitt skal ég ekkert fara út í, hvernig skipulag þessara mála var undirbúið áður. T.d. sagði hv. 11. þm. Reykv. áðan, að það hefði margt farið illa úr hendi í þeim efnum, eins og t.d. viðbyggingar við Landsspítalann á þvers og kruss og svo væri núna farið að skipuleggja þetta. Þetta var heilbrmrh. Framsfl., sem kom þessu í gang á sínum tíma, þessari aðferð að ákveða þessar viðbyggingar við Landsspítalann, án fyrir fram ákveðinnar skipulagningar, en ég læt það líka liggja á milli hluta, og það skiptir ekki máli. Aðalatriðið er, að við reynum að fóta okkur á því, að það er rétt, sem sagt er, að nauðsynlegt er að skipuleggja langt fram í tímann og að því hefur heilbrmrn. eða heilbrigðisstjórnin unnið að undanförnu og ég hef lagt á það sérstaka áherzlu og einmitt sérstaklega með Landsspítalalóðina. Ég tel það ákaflega mikilvægt, ef við á þessu ári eða næstu mánuðum gætum fengið ákveðið það skipulag að flytja Hringbrautina, sem kostar að vísu fé. Ég tel það sáralítið í samanburði við það mikla fé, sem þarf til allra þeirra bygginga, sem koma á upp á þessum lóðum. Eins og ég sagði áðan, mundi gamla lóðin nýtast miklu betur. Hún yrði líka hagkvæmari. Það yrði minni hávaði af umferðinni á lóðinni og það eru góð orð um það hjá borgaryfirvöldum eða borgarstjóra, sem ég hef rætt um þetta við og aðra hans embættismenn, að spítalinn gæti þá fengið til umráða allt svæðið suður að Öskjuhlíð að litlu fráteknu frá Hringbrautinni, þegar hún væri flutt. Og þar yrðu skapaðir framtíðarmöguleikar. Ég veit ekki, hvenær byggingar Landsspítalans, læknadeildirnar og aðrar heilbrigðisstofnanir eins og geðdeild, sem ég einnig minntist á, verða fullbyggðar. Hvort ég á að segja 20, 30 eða 40 ár, það veit ég ekki. Það fer sjálfsagt eftir því, hvað þm. verða örir á að útvega fé. Hv. 6. þm. Reykv. er reiðubúinn með kassann og hringlar í peningunum strax. Ef þm. eru orðnir svona fjörugir og duglegir að útvega fjármuni, þá verður náttúrlega búið að byggja á þessu svæði á miklu skemmri tíma, en næstu 20–40 árum.

Ég vil leiðrétta misskilning, sem fram kom um það, að bíða ætti eftir framkvæmdum á byggingu fæðingardeildar og kvensjúkdómadeildar í 6–7 ár. Það er ekki um það að ræða. En ég sagði, að ekki yrði hægt að byrja framkvæmdir þarna, fyrr en væri búið að ákveða skipulagið á lóðunum og ganga frá teikningum. Það er þegar búið að vinna töluvert mikið verk að frumteikningum að stækkun fæðingardeildarinnar og byggingu geðsjúkdómadeildar. Hversu langan tíma tekur að ljúka fullkomnum teikningum er óráðið, en þó hefur reynslan kennt, að það er betra að hrapa ekki að neinu í þeim efnum og gera það vandlega, áður en hafizt er handa og undirbúa byggingarframkvæmdirnar á meðan. En ég sagði, miðað við þau fjárráð — og ég hef enga tilhneigingu til þess að láta,. málin líta betur út, þótt hér séu margir áheyrendur, —- þá gerði ég ekki ráð fyrir, að hægt væri að fjárhagsástæðum að hefja framkvæmdir fyrr en á árinu 1972 og það þýddi, að til undirbúningsframkvæmda, teikninga og annars slíks, væru 2 ár, sem væri að sjálfsögðu hægt að stytta eitthvað, ef fjárreiðurnar verða þær, að menn hafi nægjanlegt fé til þessa, en það hefur mjög verið gagnrýnt, hvað viðbyggingarnar við Landsspítalann hafa tekið langan tíma, og í mínum huga hefur verið nauðsynlegt að ljúka byggingum, áður en hafizt yrði handa um nýjar byggingar.

Þingið getur sjálfsagt í þeim efnum eins og öðrum tekið ráðin af mér eða heilbrigðisstjórn í þessu sambandi og sagt: Það er eitthvað þarna, sem á að ganga á undan, hvort sem það á að vera fæðingardeild eða kvensjúkdómadeild og látið bara hitt bíða. Það kann vel að vera. En ég vildi skýra samvizkusamlega og réttilega frá því, sem að hefur verið stefnt og er í hugum heilbrigðisstjórnarinnar í þessu sambandi. Og það er í mínum huga alveg nákvæmlega eins og í huga hv. 11. þm. Reykv., að hér verði hafizt handa sem allra fyrst um framkvæmdir. Um þetta greinir okkur ekki á. Það er bara spurningin, hver getan er til þess að hefja framkvæmdir, og þá er það ekki aðeins, — og þess vegna vék ég, eins og réttilega var sagt, nokkuð út fyrir að svara spurningunni beint — og þar koma ekki aðeins fjárhagsatriði, sem ég hef vikið að, til greina, heldur einnig þessi skipulagsatriði, sem menn leggja mikla og ríka áherzlu á og ég tel ákaflega mikils virði, að hægt verði að taka endanlegar ákvarðanir um þau.

Ég vil svo aðeins ljúka þessu máli mínu með því, sem ég byrjaði þessa síðari ræðu á, að það er ánægjulegt, hvað félagssamtökum kvenna hefur tekizt að vekja mikinn áhuga þm. og það hefði miklu betur farið á því, skilst mér, að það hefði verið gert fyrr.