13.12.1968
Sameinað þing: 21. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 503 í B-deild Alþingistíðinda. (387)

1. mál, fjárlög 1969

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég flyt hér nokkrar brtt. við fjárl., sem ég vildi mæla fyrir. Fyrst flyt ég hér tvær till. ásamt Björgvin Salómonssyni. Till. eru á þskj. 174. Fyrri till. er um það að hækka framlag til Félagsheimilasjóðs úr 8 millj. kr. í 15 millj. kr. Ég veit, að ég þarf ekki að hafa mörg orð um þessa till. Ég hef flutt hér á nokkrum þingum till. svipaða að efni og þessa um þetta vandamál, sem allir hv. þm. kannast við, en það er fjárskortur Félagsheimilasjóðs og hans miklu fjárhagsskuldbindingar við marga aðila, sem hafa staðið í framkvæmdum við að byggja félagsheimili, en þar skortir mjög á, að sjóðurinn geti staðið við sínar skuldbindingar eða áætluð framlög til byggingar félagsheimila. Ég tel því, að það sé orðin brýn nauðsyn á því að hækka framlag til þessa sjóðs eins og lagt er til í þessari till.

Þá er 2. till., sem við flytjum saman, ég og Björgvin Salómonsson, um það að hækka framlag til Íþróttasjóðs úr 5 millj. kr. í 10 millj. kr. En það stendur mjög svipað á um þennan sjóð, að hann getur engan veginn staðið við sínar eðlilegu skuldbindingar í sambandi við framlag til byggingar íþróttamannvirkja.

Þá flyt ég hér nokkrar till. einn. Sú fyrsta er um það, að framlag til svonefndrar Varnarmáladeildar verði lækkað úr 3 millj. 463 þús. kr. í 11/2 millj. Ég tel, að það beri að reyna að vinna að því að spara á þessum lið. Í rauninni teldi ég, að það mætti leggja þessa deild með öllu niður, hún hafi hér enga þýðingu, en reikna þó með því, að það muni ekki verða gert í einu vetfangi og því sé eðlilegt að setja sér það mark að skera niður útgjöld í þessum efnum, eins og segir í minni till.

Þá legg ég til í öðru lagi, að fjárveiting til lögreglustjóraembættisins á Keflavíkurflugvelli verði lækkuð úr rétt tæplega 21 millj., sem nú er ætlað til þessa embættis, í 15 millj. Mér þykir satt að segja, eins og ég hef oft vikið að hér á Alþ., að kostnaðurinn við þetta embætti sé orðinn óheyrilega mikill, að það skuli þurfa að borga með þessu embætti á hverju ári kringum 21 millj. kr., þar af um 10 millj. kr. aðeins í lögregluhald þarna innan girðingar þar suður frá. Það þykir mér óþarflega mikið og vil skera þetta niður. Og mér sýnist nú alveg sérstaklega, þegar þannig árar eins og nú árar, að þá sé ástæða til þess að byrja á því að lækka kostnað við þetta embætti. Ég geng nú ekki lengra svona í fyrstu en svo að lækka þetta um rétt tæpar 6 millj., eða úr tæpri 21 millj. í 15 millj.

Þá legg ég í þriðja lagi til, að sendiráðin á Norðurlöndum verði sameinuð í eitt sendiráð og að kostnaður af því verði í kringum 5 millj. kr., nokkru hærri en kostnaðurinn er nú af einu þeirra, en jafnframt legg ég til, að sendiráðin í Ósló og Stokkhólmi verði lögð niður, reikna þá með því, að þetta eina sendiráð okkar fyrir Norðurlönd verði í Kaupmannahöfn, en hægt væri ábyggilega að sinna þessum störfum, sem okkur eru nauðsynleg í þessum efnum, frá einu sendiráði. Á þennan hátt á að spara, eins og oft hefur verið lagt til áður, og eins og ég minntist hér á fyrir nokkrum árum, voru m.a. uppi till. frá hæstv. núv. fjmrh., um að hægt væri að spara á þessu sviði.

Þá legg ég til, að hið tiltölulega nýja sendiráð, sem sett hefur verið upp hjá NATO í Brüssel og þegar mun kosta í kringum 5 millj. kr., eða þar um bil, verði lagt niður. Það tel ég með öllu óþarft, og tel, að sjálfsagt sé að spara á þessum lið.

Þá legg ég enn fremur til, að beint framlag til Atlantshafsbandalagsins, sem áætlað er á fjárlagafrv. 3 millj. 906 þús. kr. verði fellt niður.

8. till. mín á þessu þskj. undir II. er um það, að á sama hátt verði felldur niður kostnaður vegna framlags til þingmannasambands NATO. Það álít ég, að sé líka með öllu óþarft, en gert er ráð fyrir útgjöldum samkv. þessum lið á fjárlagafrv., sem nema 309 þús. kr.

9. till. mín undir þessum lið er um það að auka nokkuð frá því, sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrv., framlag til fiskileitarstarfsemi, í fyrsta lagi undir liðnum: Humar- og rækjuleit, þ.e. að framlag í þeim efnum verði hækkað um 500 þús. kr., úr 980 þús. kr. í 1 millj. 480 þús. kr. En það er kunnugt, að frá fjöldamörgum stöðum á landinu liggja fyrir tilmæli um það, að ráðizt verði einmitt í miklu meiri leit á þessum sviðum í sambandi við humar- og rækjumið, en það hefur ekki verið hægt að verða við öllum þeim óskum, sem þar liggja fyrir, og því legg ég til, að þarna verði varið nokkuð hærri upphæð en gert er ráð fyrir í frv.

En 10. till. undir þessum lið er um það að auka nokkuð framlag til síldarleitar, en í frv. er gert ráð fyrir að verja í því skyni 6 millj. 247 þús. kr., en ég legg til, að þessi liður hækki um 3 millj. kr. eða upp í 9 millj. 247 þús. kr. Um þessa fjárveitingu mun hafa verið beðið, en ekki þótt fært að verða við henni. Ég tel hins vegar brýna nauðsyn á því að auka allverulega frá því, sem verið hefur, fiskileit á þessu sviði. Svæðið er alltaf að stækka, sem leitin þarf að ná yfir, og mér sýnist, að nú sé þannig komið, að við þurfum t.d. að taka miklu meiri þátt sjálfir í því að fylgjast með síldarleit í Norðursjó og á ýmsum öðrum fiskislóðum, sem okkar skip eru farin að leita á, heldur en gert hefur verið hingað til. Ég vil því verða við óskum Hafrannsóknastofnunar í þessum efnum og hækka þennan lið um 3 millj. kr., upp í 9 millj. 247 þús., og ég efast ekkert um það fyrir mitt leyti, að fjárútlát í þessu skyni munu skila sér aftur og það margfaldlega. Þá legg ég til — það er 11. till. undir þessum lið — að hækkað verði nokkuð framlag til þess liðar, sem heitir fiskileit og veiðarfæratilraunir, en í frv. er gert ráð fyrir að verja í því skyni 2 millj. 770 þús., en ég legg til að hækka þennan lið um 1 millj. eða upp í 3 millj. 770 þús. Þarna er um almenna fiskileit að ræða auk svo annarrar starfsemi, sem fellur undir þennan lið. Það er enginn vafi á því, að það er þess virði fyrir okkur að leggja á okkur útgjöld í sambandi við aukna starfsemi á þessu sviði, þ.e. að fylgjast betur með fiskigöngum og leita að nýjum fiskimiðum og leiðbeina okkar fiskiflota í öllum greinum meira en nú er gert.

Á þessu sama þskj., 174, flyt ég undir III. brtt. ásamt Sigurði Grétari Guðmundssyni till. um aukið framlag ríkisins til Byggingarsjóðs verkamanna. Á fjárlagafrv. er gert ráð fyrir því að leggja Byggingarsjóði verkamanna til 15 millj. 300 þús. kr., en við leggjum til, að þessi fjárveiting verði hækkuð um 15 millj. eða upp í 30 millj. 300 þús. Það liggur fyrir, að Byggingarsjóður verkamanna hefur ekki getað haldið uppi eðlilegri starfsemi á undanförnum árum vegna fjárskorts. Og það hefur mjög staðið á því að útvega þessum sjóði peninga, svo að hann gæti a.m.k. haldið í horfinu í sambandi við aðrar byggingar samkv. löggjöf um stuðning við húsnæðismál.

Þá er á þessu sama þskj. brtt., sem ég flyt undir IV. um aukið framlag til barnaheimila. Það er gert ráð fyrir því að verja í rekstrarstyrk til barnaheimila á fjárlagafrv. 750 þús. kr., en ég legg til, að þessi upphæð verði tvöfölduð og verði á næsta ári 11/2 millj. Hér er um mjög mikilvæga starfsemi að ræða, sem er studd tiltölulega sáralítið af ríkinu, og ég tel réttmætt að styrkja hana a.m.k. sem þessu nemur, sem segir í minni till.

Þá er hér 2. töluliður undir IV., sem fjallar um það að auka rekstrarstyrki til sjómannaheimila. En þó að merkilegt megi virðast, er gert ráð fyrir á fjárlagafrv. að verja í rekstrarstyrki til sjómannaheimila í landinu, ja, hvað halda hv. þm., að sé gert ráð fyrir mikilli fjárhæð til þess að styrkja sjómannastofur í landinu? Það er gert ráð fyrir því, að ríkið leggi á einu ári í rekstrarstyrki hvorki meira né minna en 50 þús. kr. til þeirra allra. Ég legg til fyrir mitt leyti, að þessi fjárhæð verði hækkuð upp í 500 þús., rekstrarstyrkur til sjómannaheimilanna í landinu, og má ekki minna vera að mínum dómi. Það var þó nú á þessu yfirstandandi ári varið í styrk frá ríkinu til þess að koma upp sjómannastofum á nokkrum stöðum á landinu 800 þús. kr., og nokkurt átak var gert í þessum efnum, en það þarf auðvitað að gera meira en koma upp þessum stofum. Það þarf líka að reyna að sjá um sómasamlegan rekstur á þeim, og það eru ekki miklar líkur til þess, að það takist, ef ríkið leggur ekki meira fram í þessu skyni en lagt er til á þessu fjárlagafrv., aðeins 50 þús. kr.

Þá legg ég hér til, að fjárveiting til ríkisbifreiða, þ.e.a.s. til bifreiðakaupa á vegum ríkisins, starfsmannabifreiða, verði lækkuð úr 4 millj. kr. í 2 millj. Þetta er einn af þeim liðum, sem ég álít, að hið opinbera eigi að sýna nokkurn sparnaðarvilja á.

Þá er hér síðast till., sem við flytjum ég og Sigurður Grétar Guðmundsson, um það, að í frv. verði bætt við einni nýrri heimild handa ríkisstj., heimild um það að taka 100 millj. kr. að láni vegna Byggingarsjóðs ríkisins, en ekki verkamanna, það á að vera vegna ríkisins, það er hér prentvilla sé ég á þskj., taka að láni 100 millj. kr. vegna Byggingarsjóðs ríkisins, sem varið verði á árinu 1969 til aukinna íbúðarlána. Það er kunnugt, að Byggingarsjóður ríkisins hefur ekki haft yfir að ráða nægilegu fjármagni á þessu ári til þess að geta veitt þau lán, sem sótt hefur verið um og ætlazt er til, að veitt verði þeim, sem standa í íbúðarbyggingum, og þetta hefur auðvitað ekki sízt orðið svo vegna þess, að Byggingarsjóður ríkisins hefur verið látinn taka á sig allmikil fjárútgjöld vegna Breiðholtsbygginganna, sem ríkisstj. hafði lofað fjárframlagi til, en hefur ekki staðið við nema á þennan hátt, að nota Byggingarsjóð ríkisins í þeim efnum. En við leggjum nú til, að ríkisstj. taki 100 millj. kr. lán handa Byggingarsjóði ríkisins, sem notað verði sem aukafjármagn á árinu 1969 til íbúðarhúsabygginga, og reyni þannig að greiða nokkuð úr þeim vanda, sem skapazt hefur í sambandi við ónóg lán til íbúðarhúsabygginga.

Ég hef nú hér gert grein fyrir í stuttu máli þeim till., sem ég stend hér að. Nokkrar þeirra eru þess eðlis, að þær eru um það að sýna nokkra viðleitni til sparnaðar í ýmsum útgjöldum hjá ríkinu. Ég veit það, að sparnaðartill. hefðu þurft að ná miklu lengra heldur en þessar till. ná. En það er eins og ég hef sagt áður, að ef það kæmi nú í ljós, að það væri vilji til þess að samþykkja þessar sparnaðartill., sem hér eru lagðar fram, mundi ég alveg hiklaust við 3. umr. koma með fleiri sparnaðartill., því að ég tel, að það sé brýn þörf á því eins og komið er að draga úr ýmiss konar kostnaði hjá ríkinu. En það hefur lítið að segja að flytja margar till. um sparnað, ef það er í rauninni fyrir fram ákveðið að sam þykkja engar slíkar till. Aðrar till., sem ég stend hér að, miða að nokkrum auknum útgjöldum. Það er rétt, en það er til þeirra mála, sem ég tel, að sé sjálfsagt, að ríkið leggi fram meira fjármagn en það hefur gert, og ég tel, að hér sé ekki um mikil aukin útgjöld að ræða fyrir ríkissjóð miðað við heildarútgjöldin, sem gert er ráð fyrir á fjárlagafrv. og aðrir hafa átt meiri þátt í að skapa heldur en ég, svo að ég tel, að sá hluti, sem felst til hækkunar í mínum till., ætti ekki að þurfa að vaxa þeim í augum, sem meiri þátt eiga í heildarútgjöldum ríkisins heldur en ég á fyrir mitt leyti.

Ég vænti svo, að ég hafi gert grein fyrir þessum till. og þær fái hér góðan stuðning, þegar til atkvgr. kemur um frv.