26.03.1969
Sameinað þing: 37. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 822 í D-deild Alþingistíðinda. (3870)

174. mál, fæðingardeild Landsspítalans

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Hæstv. heilbrmrh. þarf ekki að hafa mikla getspeki til þess að finna á því rétta lausn, hvers vegna þm. tala í dag um þetta mál. Það er ekki aðeins af því, að fagrar konur eru á þingpöllunum. Það er af því, að þær sendu frá sér áminningu til þingsins um það, hvernig ástatt væri í heilbrigðismálunum í vissri stofnun og gerðu það á þann hátt, að þm. hrukku við, hrukku svo skarpt við, að á einum og sama degi skiluðu þeir frá sér þremur þskj. um málið, tveimur þáltill. og fsp. þeirri, sem hér er til umr. Og það, að þm. hrukku svo við vegna þessa máls, var vegna þeirrar ömurlegu lýsingar, sem blasti við þeim í bréfi frá Bandalági kvenna. Og ég verð að segja, að hæstv. ráðh. hefur tekið þann skynsamlega kost að bera ekki brigður á það eða a.m.k. bera ekki til baka neitt af því, sem konurnar sögðu frá í sínu skjali til þingsins. Að vísu lét hann að því liggja, að þær væru að skrökva, það væri margt ósatt í þessu bréfi og það var óskynsamlegt af hæstv. ráðh. að gera því skil, nema þá því aðeins að víkja að hverju ósannindaatriði á fætur öðru og gera því þannig full skil. En það gerði hann ekki.

Ég vil, að þessum þingfundi ljúki ekki, án þess að hæstv. ráðh. eigi þess kost að svara því. hvort viss atriði; sem felast í bréfi Bandalags kvenna eru rétt eða röng, eru skrök eða sannleikur. Ég staldra t.d. við þessa fullyrðingu í skjali kvennanna:

„Hér vantar ekki aðeins sjúkrarúm“, segja þær, „heldur svo að segja allt svigrúm til starfa. T.d. er aðeins ein skurðstofa á stofnuninni og þar fara fram allar aðgerðir, nánar til tekið á 9, hundrað aðgerðir á ári, hvort sem um er að ræða keisaraskurð, afbrigðilegar fæðingar eða krabbamein á hvaða stigi sem er.“ Er þetta sannleikur eða er þetta skrök, að ástandið sé svona?

Það er annað atriði, sem ég vil líka spyrja um alveg sérstaklega og vil fá að vita í dag af hæstv. ráðh., hvort hann álítur það sannleika eða ósannindi. Og það er þetta: Þegar læknir hefur sagt okkur og það segja allir læknar auðvitað: Krabbamein hefur því meiri lækningamöguleika, sem það er fyrr rannsakað og kemst fyrr undir læknismeðferð. Hér segir í bréfi kvennanna:

„Finnist grunsamlegt tilfelli, liggur leið þess sjúklings ekki beint inn á deildina, sem þó er talið nauðsynlegt, heldur skrifast nafn sjúklingsins á biðlista deildarinnar.“

Að krabbameinssjúklingur, sem læknir hefur fundið, að er sjúkur af þeim ægilega sjúkdómi, kemst ekki inn á deildina, þegar sjúkdómur hans hefur uppgötvazt, kemst ekki til læknismeðferðar, heldur skrifast á biðlista hennar, finnst mér vera ægileg staðreynd að horfast í augu við. Ég get ekki að því gert. Ég spyr, hvort þetta sé skrök eða sannleikur. Ef þetta er sannleikur, er þetta óhugnanlegur sannleikur, svo óhugnanlegur, að við alþm. komumst ekki hjá því að leggja fram fé til þess að hægt sé að hefja byggingar fyrr en eftir 5–7 ár. Það er líka ægileg staðreynd, sem einn læknir, Guðmundur Magnússon, segir, að hér á landi læknist ekki eða sé forðað frá bana nema 1 konu af hverjum 3, þegar í Svíþjóð sé bjargað 2 af hverjum 3. Og þetta eru yfirleitt konur á góðum aldri, milli fertugs og fimmtugs, sem í mestum háska eru vegna krabbameinsins.

Í ræðu, sem dr. Gunnlaugur Snædal hélt í tilefni af 20 ára afmæli Krabbameinsfélagsins, kemur hann hvað eftir annað inn á það í grein eða ræðu, sem birt var í Morgunblaðinu fyrir skömmu, að það séu húsnæðismálin, sem standi í vegi fyrir því, að við getum notað nauðsynleg tæki og staðið okkur eins og aðrar menningarþjóðir í baráttunni við krabbameinið. Hvað eftir annað víkur hann að því, að það séu húsnæðismálin, sem standi í veginum og skal ég nú, með leyfi hæstv. forseta, víkja að 2—3 atriðum í ræðu hans. (Forseti: Forseti gerir þá aths. að ræðutími er liðinn.) Hann er liðinn. Þá verður það að bíða betri tíða. Það gerist þá, þegar ég flyt framsöguræðu fyrir minni þáltill., sem einnig liggur fyrir á dagskrá, en kemur sennilega ekki til umr. í dag.