26.03.1969
Sameinað þing: 37. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 824 í D-deild Alþingistíðinda. (3872)

174. mál, fæðingardeild Landsspítalans

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Í sambandi við áhuga minn vil ég segja, að ég hef ekki hrokkið upp af neinum svefni. Ég hef ekkert sofið í þessum málum, eins og hv. þm. Mér hefur verið þetta mikið áhyggjuefni og ég játa, að ég vildi hafa getað gert og komið miklu meiru til leiðar á sviði heilbrigðismálanna, en ég hef gert á þeim tíma, sem ég hef farið með heilbrigðismálin. En það er langt í frá, að ég hafi sofið á verðinum. (Gripið fram í: Hvar eru till. hæstv. ráðh.?) Hvar eru till.? Er ég ekki búinn að gera grein fyrir því í svarinu?(Gripið fram í.) Það þýðir náttúrlega ekki að vera að þrasa svona um framkvæmdir á liðnum árum á þessu sviði, en það er hægt að benda á margt annað og það er ekki hægt að gera allt í einu. Það vita allir. Og segja má, að það hefði verið mjög æskilegt, að konurnar hefðu ýtt við þm. miklu fyrr en nú, fyrst þeir hrökkva svona alvarlega við.

Aðalerindi mitt í ræðustólinn núna var út af ræðu hv. 9. þm. Reykv. Ég vil leiðrétta það hjá hv. þm., að ég hef hvorki talað um, að það væru ósannindi eða skrök í bréfi Bandalags kvenna. Og hann vildi fá að vita, hvort eitthvað væri sannleikur eða skrök, sannleikur eða ósannindi. Þessi orð viðhafði ég ekki. Ég sagði, að það væru missagnir í bréfinu. (Gripið fram í: Já, það var sama og skrök, auðvitað.) Og ég benti einmitt á í hverju missagnirnar væru og vék ekkert að lýsingum þeirra á ástandinu á fæðingardeildinni og hvort sá, sem kemur með krabbamein, er settur á biðlista hjá lækninum eða ekki. Það veit ég ekkert um. Það er sjálfsagt rétt, því að þær eru fjölmargar, sem til þessa þekkja. Að þessu vék ég ekkert. En ég sagði, að það væru missagnir og er ekki rétt að gera því skóna og láta líta þannig út, að ekki hefði verið staðið við ráðagerðir og fyrirætlanir um fæðingardeildina, þegar hún var byggð og hún hefði aldrei verið fullbyggð, því að það er ekki rétt, það er missögn og það er líka missögn og ég endurtek það, að það voru aldrei uppi ráðagerðir um að tengja fæðingardeildina við gamla spítalann. Það er síðari tíma fyrirbrigði, sem er komið til á síðari árum, en var alls ekki þá. Og þetta er missögn. Ég hef ekki þetta bréf í höndunum núna, og mér fannst eðlilegt, eins og ég sagði áðan, að ég mundi benda þeim á þessar missagnir, sem þarna er um að ræða. En ég vil alvarlega taka það fram, að ég hafði ekki á nokkurn hátt þau orð, að það væru ósannindi eða skrök í bréfinu. (Gripið fram í: Vill ráðh. fá bréfið?) Það er alveg óþarfi. Ég er búinn að benda þarna á nokkur dæmi missagna og ég mun rekja þau frekar í skrifum mínum til bandalagsins. En ég endurtek það, sem ég segi, þar sem mönnum er svo brátt að taka fram í. Ég veit ekki, hvað þeim liggur mikið á. Ég talaði hvergi nokkurs staðar um ósannindi í þessu bréfi og kom það aldrei í huga. (Gripið fram í: En það sem er rangt, hlýtur að vera ósatt.) Mér finnst það ekki skipta máli, hvaða mat Hannibal Valdimarsson hefur á því, hvort það sé sama, missögn eða ósannindi. Ósannindi eru í mínum augum allt annað en missögn. En ég skal svo ekki víkja að miklu meira. En þó vil ég víkja að einu.

Ég talaði mikið um skipulag Landsspítalalóðarinnar, sem ég tel eitt mikilvægasta málið fyrir Landsspítalann. Þar innifalið er fæðingardeild, framtíðarbygging fæðingardeildar og kvensjúkdómadeildar og geðdeildar. Og þar eru ákveðin áform uppi, sem ég hef lýst og þau áform kosta samninga við bæjarfélagið. Hér hefur talað hv. 1l. þm. Reykv. og hann er líka bæjarfulltrúi eða borgarfulltrúi eins og þeir heita nú. Honum fannst, að það mundi vera dýrt að flytja Hringbrautina, en ég ætla að vona, þegar ég á viðræður við borgaryfirvöldin og samninga um þau mál, að hann verði þá liðtækur til þess að lyfta undir mál mitt og styðja með þeim hætti framtíðaraðstöðu og möguleika fæðingardeildarinnar og kvensjúkdómadeildarinnar ekki síður en annarra heilbrigðisstofnana á Landsspítalalóðinni.

Að lokum vil ég svo víkja að því, sem hv. 9. þm. Reykv. sagði og er auðvitað hryllileg staðreynd og kemur raunar fram í bréfi kvennanna, að hér hefur ekki verið aðstaða til nútíma geislalækninga með þeim afleiðingum, að hér hefur aðeins tekizt að bjarga 1 konu af hverjum 3 í vissum sjúkdómstilfellum, þar sem nágrönnum okkar eða öðrum þjóðum, sem hafa nútíma lækningar, hefur tekizt að bjarga 2 af 3. Þessi staðreynd var mér ekki ljós fyrr en á s.l. sumri. Þá komu til mín tveir læknar, kvenmenn báðir og skýrðu mér frá áhyggjum sínum í þessu efni. Það mun hafa verið um líkt leyti, sem læknar spítalans rituðu landlækni um þessa staðreynd og töldu sig ekki geta starfað við þessa aðstöðu. Það var eitthvað 1—2 mánuðum seinna, sem stjórn Krabbameinsfélagsins kom á fund ráðh. og ræddi þá um þá möguleika að koma hinu umtalaða kóbalttæki fyrir og í gagnið sem allra fyrst. Frá fjárl. hafði þá verið gengið. Hins vegar ræddi ég þá strax daginn eftir við ríkisstj., að við tækjum inn á fjárl., þegar þar að kæmi, eða öfluðum fjár á einhvern annan hátt, sem ætla mætti, að þyrfti að vera að ég hygg um 5 millj. kr. á móti fjársöfnun, sem Krabbameinsfélagið lofaði til þess að koma upp húsnæði yfir þetta kóbalttæki. Og þá hafði ég látið gera bráðabirgðateikningar, sem hugsanlegan möguleika á því, að hluti af framtíðarbyggingunni fengi að byggjast og síðan kæmi framtíðarskipulagið og þetta gæti svo fallið inn í það. Þessar hugmyndir veltust á milli manna og þar á meðal bæjaryfirvalda og byggingaryfirvalda, þar til niðurstaðan, úrskurðurinn, var sá, að það væri gersamlega útilokað að leyfa þetta með þessum hætti, útilokað og væri ekki hægt að leyfa neinar byggingar af þessu tagi, fyrr en endanlega væri tekin ákvörðun um stærð lóðarinnar. Þá reyndi ég þennan síðasta möguleika, sem nú er kallaður bráðabirgðabygging og er það vissulega og það var slegið upp teikningum af bráðabirgðahúsnæði til þess að hýsa kóbalttækið og til þess var talið, að þyrfti um 21/2 millj. kr. og það ræddi ég við fjmrh. og fjvn. tók þetta upp í till. sínar við 3. umr. fjárl., eins og hv. þm. rekur minni til. Nú hefur þetta m.a. verið átalið og sagt, að þetta væri ómögulegt. Og ég verð að segja, að ég hef staðið þar í stríðu við sérfræðinga og lækna, sem ekki vildu þetta og varð að taka um það ákvörðun, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr. Og mín ákvörðun var sú, að þetta skyldi gert. Og þó að þetta kostaði 21/2 millj., — við skulum segja, að það færi upp í 31/2 millj., eða eitthvað því um líkt, — þá er það mín skoðun, sem ég lýsti í lok framsöguræðu minnar, að slíkt ætti ekki og mætti ekki hafa nein áhrif á framkvæmdahraða framtíðar bygginganna og það tel ég, að ekki eigi að þurfa að gera. En þetta mundi þýða, að þetta kóbalttæki gæti á við skulum segja þriggja, fjögurra eða fimm ára bili — ég veit ekki, hvað er bezt að segja, — bjargað mörgum mannslífum, sem ella hefði ekki verið við ráðið. Á þessu byggist ákvörðunin um bráðabirgðabygginguna yfir kóbalttækið. Mér er það ljóst, að ég ber á henni höfuðábyrgð, en hún er gerð eftir beztu samvizku og í þeirri von, að ég geti með því móti bjargað mannslífum, sem séu miklu meira virði en það, að slík bygging fari síðar í súginn og verði kastað, en það á ekki að hafa nein áhrif á hraða framtíðar bygginganna.