13.12.1968
Sameinað þing: 21. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 507 í B-deild Alþingistíðinda. (388)

1. mál, fjárlög 1969

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Í l. um rannsóknir í þágu atvinnuveganna frá 10. maí 1965 segir svo m.a. um verkefni Rannsóknaráðs ríkisins, að það skuli annast athuganir á nýtingu náttúruauðæfa landsins til nýrra atvinnuvega og atvinnugreina.

Þegar þetta nýja ráð tók til starfa, komu fljótlega fram ýmsar hugmyndir um slíkar athuganir. Vitanlega var ekki unnt að sinna nema litlum hluta þeirra og raunar mjög fáum. Þekktasta athugunin mun eflaust vera athugun á sjóefnaiðju, sem mjög hefur verið rætt um upp á síðkastið. Ég þarf reyndar ekki að gera hana að umræðuefni hér. Hún er komin út af, getum við sagt, fjárhagsáætlun Rannsóknaráðs ríkisins. Hæstv. ríkisstj. hefur með ágætum séð fyrir fjármagni til þeirra athugana, og er það þakkarvert. Á árinu 1969 hefur hins vegar verið rætt um þrjú meginmálefni, sem framkvæmdanefnd Rannsóknaráðs vill taka til athugunar. Ég mun aðeins minnast á þau hér. Þau eru:

Í fyrsta lagi er um að ræða rannsókn eða athugun á þaravinnslu að Reykhólum. Rannsóknaráð vinnur að þessu málefni ásamt orkumálastjóra. Má búast við skýrslu um þetta mál nú um áramótin. Niðurstaða þeirrar skýrslu mun vera sú, tel ég, að þaraþurrkstöð að Reykhólum sé ekki hentug með þeim öflunaraðferðum, sem reyndar hafa verið hingað til. Hins vegar verða gerðar till. um aðrar öflunaraðferðir, og það hefur tekizt að fá fjármagn, 200 þús. kr., til þeirra tilrauna, sem þá verða nauðsynlegar. Hins vegar mun Rannsóknaráð verða að leggja fram töluvert fjármagn þar á móti.

Annað málefnið er athugun á þungavatnsvinnslu, en eins og hv. þm. mun vera kunnugt, var það mál mjög á dagskrá hér fyrir allmörgum árum. Úr framkvæmd varð þó ekki, en nú hefur að nýju vaknað áhugi á þessu máli, og sýnist ljóst, að við verðum að sinna því á næsta ári með endurskoðun á þeim áætlunum, sem áður voru gerðar, og þátttöku í fundum í þessu sambandi.

Þriðja málið, sem framkvæmdanefndin hefur talið eðlilegt að taka fyrir, er málmefnaleit á Austurlandi, og það er einkum það, sem ég vildi hér minnast á, og það er þess vegna, sem ég hef borið fram þá brtt., sem hér liggur fyrir.

Það hefur lengi verið trú jarðfræðinga hér, að það væru litlar líkur til þess að finna mætti verðmæta málma í íslenzkri jörð. Þetta hefur þó breytzt nokkuð upp á síðkastið. Það er raunar nokkuð langt síðan málmsteinar eða einstakir steinar fundust á umræddu svæði með töluvert koparmagn. Hins vegar hafa nú nýlega fundizt slíkir steinar langtum víðar, á svæðinu í Lóni á Suðausturlandi, í Svínhólalandi og Össurardal, og virðist allt benda til þess, að sú sprunga, sem þarna getur verið, sé töluvert stærri en áður var talið. Þess vegna lét Rannsóknaráð gera áætlun núna í haust um slíka athugun. Þá vildi svo til, að hér á landi var staddur sérfræðingur frá Sameinuðu þjóðunum, sem við fengum tækifæri til að ræða við um þetta málefni, en hann var sérfræðingur á þessu sviði.

Ég vil geta þess, að málmleit sem slík á stóru svæði er mjög kostnaðarsöm, ef hún á að vera ítarleg. Þá þarf að framkvæma ekki aðeins miklar boranir, sem allir vita að kosta offjár, heldur líka mælingar, helzt úr lofti og með dýrum tækjum. Hins vegar er hugsanlegt að gera slíka athugun, eins konar frumathugun, sem getur orðið undirstaða frekari athugana, ef rétt reynist að halda þeim áfram. Rannsóknaráð, eða starfsmenn þess, áætluðu í september í samráði við þennan sérfræðing Sameinuðu þjóðanna, að slík athugun mundi kosta um 1 millj. og 500 þús. kr. á þessu svæði. Mundi ég áætla, eftir því sem ég fæ bezt séð, að þessi upphæð yrði einhvers staðar í kringum 2 millj. kr. eftir gengisfellinguna.

Ég mætti hjá hv. fjvn. og gerði grein fyrir þessu málefni og fór fram á það, að fjárveiting til athugana á nýtingu náttúruauðæfa landsins eða þess, sem kallast í fjárlagafrv. „frumathuganir á nýtingu náttúruauðæfa landsins,“ yrði hækkuð nokkuð, þannig að unnt væri að ráðast í þessa að mínum dómi mjög mikilvægu athugun og málmleit á Austurlandi. Því miður var þessu ekki sinnt, og ég vil trúa því, að það hafi verið fyrir mistök. Því hef ég borið þessa till. hér fram og ekki sízt vegna þess, að nú hefur bætzt í hópinn ágætur liðsmaður, hv. 3. þm. Austf., sem lagt hefur fram þáltill. um þetta sama málefni.

Ég vil leggja áherzlu á það, að ég er langtum bjartsýnni nú um það, að árangur fáist af slíkri leit, heldur en ég hefði verið áður. Það er ég vegna þess, að frétzt hefur um árangursríka leit að málmi á svæðum, sem oft voru talin heldur rýr að þessu leyti að dómi jarðfræðinga.

Við förum fram á 500 þús. kr. Ég vil geta þess, að sú upphæð, sem ég nefndi áðan, 2 millj. kr., mundi skiptast nokkuð. Við teljum, að um það bil helmingurinn af þessari upphæð yrði greiddur af jarðfræðistofnunum og öðrum aðilum, sem mundu annast þessa rannsókn, því að Rannsóknaráð mundi ekki gera það sjálft. Þar eru innifalin laun jarðfræðinganna, ferðakostnaður o.fl., sem þessum stofnunum er þegar veitt á fjárlögum. En hins vegar virðist okkur, að Rannsóknaráð yrði að leggja til þessa málefnis um það bil 1 millj. króna, og mundi það skiptast þannig, að 500 þús. mundu koma úr þeirri fjárveitingu, sem ráð er fyrir gert í frv., að upphæð 1 millj. 161 þús., en þá vantar 500 þús. til viðbótar, og fram á það er farið.

Það er að vísu rétt, að ég er óreyndur maður í þessum virðulegu sölum, og eflaust hefur hv. 6. þm. Reykv. talað af reynslu, þegar hann sagði, að það væri tilgangslaust að bera fram slíkar brtt. við fjárlögin, eins og ég geri nú. En ég verð að segja það, að ég vil þó ekki að óreyndu trúa því, að hv. þm. veiti þessu mikilvæga málefni ekki stoð, a.m.k. menn, sem hafa samþ. það á öðrum vettvangi. Við tölum um breikkun okkar atvinnugrundvallar, að renna fleiri stoðum undir atvinnuvegina er mjög algengt að sjá í blöðum og heyra í ræðum manna. Sannfæring mín er sú, að sú athugun, sem lagt er til, að framkvæmd verði, geti orðið ein veigamikil stoð undir nýja atvinnuvegi hér á landi.