09.04.1969
Sameinað þing: 39. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 831 í D-deild Alþingistíðinda. (3880)

183. mál, útbreiðsla sjónvarps

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Mér þykir ástæða til þess að fagna yfirlýsingu hæstv. menntmrh., um dreifingu á sjónvarpi eða áætlanir um framkvæmdir á þessu ári, hvað við kemur Austurlandi. Það hafði óneitanlega komið upp nokkur kvittur um það, að hætta væri á, að ekki yrði staðið við ráðgerðar framkvæmdir varðandi dreifingu sjónvarps á Austurlandi, en nú hefur hæstv. ráðh. lýst því yfir, að fé hafi verið tryggt til fyrstu framkvæmda þar um slóðir, þ.e.a.s. að koma upp aðalsendistöðinni á Austurlandi á Gagnheiði og síðan yrði komið upp fyrstu dreifistöðvunum á Seyðisfirði og Neskaupstað, eins og áætlanir höfðu verið gerðar um áður. Ég fagna því. að þetta skuli eiga að framkvæmast á þessu ári og ég vænti þess, að hæstv. ráðh. hlutist til um, að þeir, sem hafa með framkvæmdirnar að gera, standi við þetta í raun. En jafnframt þykir mér ástæða til þess að leggja áherzlu á, að varðandi dreifingu sjónvarps á Austurlandi eða áætlanir þar um á árinu 1970 var heldur lítið sagt hjá hæstv. ráðh., nema að áfram mundi verða unnið að dreifingu sjónvarps á Austurlandi. Ég veit, að það er nokkrum erfiðleikum bundið, en þó hygg ég miðað við þær upplýsingar, sem ég hef fengið, að eftir að aðaldreifistöðin er komin fyrir Austurland, ætti ekki að vera ýkja miklum erfiðleikum bundið að koma sjónvarpi á allmarga staði á Austurlandi og ég vil vænta þess, að það verði unnið að því, eins og tök eru á árið 1970, til þess að þeir staðir verði ekki mikið á eftir hinum fyrstu, sem sjónvarp fá þar um slóðir á þessu ári, samkvæmt því sem hér hefur verið upplýst. Ég sé sem sagt ástæðu til þess að fagna því, að hæstv. ráðh. hefur beitt sér fyrir því að afla fjár, til þess að hægt verði að standa við ráðgerðar framkvæmdir í þessum efnum, en ég tel, að hér sé um mjög þýðingarmikið mál að ræða fyrir hina dreifðu landsbyggð.