09.04.1969
Sameinað þing: 39. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 833 í D-deild Alþingistíðinda. (3882)

183. mál, útbreiðsla sjónvarps

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson):

Herra forseti. Hér held ég, að sé ekki um neinn misskilning að ræða. Hins vegar get ég gengizt inn á, að orðið landshluta megi túlka á mismunandi hátt. Ég hef t.d. orðið var við það hér í Reykjavík, að svo er kölluð ein sveit austan við Fjall. En í mínum augum er svæðið frá Vaðlaheiði austur að Möðrudalsöræfum landshluti. Eftir því sem ég hef fengið upplýsingar um, þarf stöð á Fosshóli til þess að fólkið á þessu svæði sjái sjónvarp, þ.e.a.s. í Þingeyjarsýslum báðum með Húsavíkurkaupstað og þá þarf aðra stöð á Skollahnjúk á Fljótsheiði og enn eina á Húsavíkurfjalli. Ég vil taka það fram, að þessi stöð á Skollahnjúk er ábyggilega í hópi þeirra, sem kallast helztu aukastöðvar. En auk þess þarf stöð á Skúlagarði í Kelduhverfi og Þórshöfn á Langanesi.

Ég vil svo aðeins vitna til þess, sem hæstv. menntmrh. sagði í ræðu sinni 1. nóv. 1967, sem ég hef reyndar áður vitnað til, en hann segir í lok þeirrar tilvitnunar, sem ég hef áður tekið, með leyfi hæstv. forseta:

„En framkvæmdum við aðalsendistöðvarnar í öllum landshlutum og helztu aukastöðvar mun verða lokið fyrir 1969.“

Það er þetta, sem í ljós hefur komið að þessar stöðvar eins og stöðin á Skollahnjúk á Fljótsheiði, sem hlýtur að teljast meðal helztu aukastöðva, að þeim hefur ekki verið komið upp. Þess vegna mun fólkið í Suður-Þingeyjarsýslu og Norður-Þingeyjarsýslu og Húsavíkurkaupstað ekki fá sjónvarp á þessu ári. Ég hirði svo ekki að deila um það við hæstv. menntmrh., hvort hann telur þetta svæði til einstakra afskekktra býla eða ekki, en ég kalla það landshluta.