09.04.1969
Sameinað þing: 39. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 836 í D-deild Alþingistíðinda. (3889)

278. mál, félagsheimilasjóður

Fyrirspyrjandi (Jónas Árnason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. 4. þm. Austf. að beina á þskj. 358 svo hljóðandi fsp. til hæstv. menntmrh.:

„Hvaða ráðstafanir eru á döfinni til lausnar þeim vandamálum, sem félagsheimili eiga við að etja vegna fjárhagsörðugleika félagsheimilasjóðs?“

Þetta mál hefur oft áður verið hér á ferðinni, gott ef ekki á hverju einasta þingi um langt árabil, enda mikið og alvarlegt vandamál og versnar sí og æ með versnandi þjóðfélagsástandi, eins og annað. Þeir draumar, sem í upphafi voru tengdir við félagsheimilasjóðinn og þá lyftingu fyrir félagslífið í dreifbýlinu og raunar landsbyggðinni allri, sem framlög úr honum áttu að verða, hafa ekki rætzt sem skyldi og má jafnvel segja, að í vissum tilfellum hafi þeir orðið að hálfgerðri martröð fyrir þá, sem bera ábyrgð á fjárhag félagsheimilanna. Þær skuldir, sem félagsheimilin hafa orðið að taka á sig vegna vangoldinna framlaga úr félagsheimilasjóði hafa jafnvel víða orðið til þess að draga úr raunverulega menningarlegu félagsstarfi, þar sem félagsheimilin hafa neyðzt til þess að bregða á það ráðið, að leggja megin áherzluna á dansleikjahald og annað slíkt, sem gefur skjótfenginn gróða, en þroskandi félagsstarfsemi og menningarlegt samkomuhald hefur hins vegar orðið að sitja á hakanum.

Þetta er sem sagt og hefur lengi verið hið mesta ófremdarástand og þess vegna er ekki að ófyrirsynju, að enn sé spurt, hvort ekki séu á döfinni einhverjar ráðstafanir til þess að bæta úr því.