09.04.1969
Sameinað þing: 39. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 836 í D-deild Alþingistíðinda. (3890)

278. mál, félagsheimilasjóður

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Lög um félagsheimili voru sett 1947 og var ákveðið í þeim lögum, að heimilt væri, ég undirstrika, að heimilt væri að styrkja byggingu félagsheimila úr félagsheimilasjóði með greiðslu 40% af byggingarkostnaði félagsheimilanna. Það kom í ljós, að mikill áhugi var fyrir því að byggja félagsheimili og það var ljóst þegar eftir samþ. laganna að ekki mundi vera hægt að standa við eða fullnægja þessu hámarksákvæði laganna um 40% styrk til þeirra félagsheimila, sem þá voru í byggingu eða fyrirhuguð var bygging á og hefur það aldrei verið hægt allar götur í þau rúmlega 20 ár, sem félagsheimilal. hafa verið í gildi, að styrkja þau þegar í stað við byggingu né heldur á fyrstu árum eftir að byggingu lauk svo mjög, að um greiðslu 40% byggingarkostnaðar væri að ræða. Segja má, að þær ríkisstj., sem setið hafa að völdum síðan 1947 og hafa þær verið margar eða þeir menntmrh., sem setið hafa að völdum síðan 1947 og hafa verið margir, hefðu átt að beita sér fyrir því með hliðsjón af fenginni reynslu, að þessu hámarksákvæði laga verði breytt og það lækkað til samræmis við tekjur sjóðsins annars vegar, sem eru helmingur skemmtanaskatts, og við augljósa fjárþörf sjóðsins hins vegar, en engin ríkisstj. hefur viljað beita sér fyrir því við Alþ., að þessum hámarksákvæðum væri breytt og heldur viljað taka þann kostinn, að það dragist alllangan tíma, að þeir, sem byggja félagsheimili, fái 40% styrkinn greiddan, en öllum sem í byggingu félagsheimilis hafa ráðizt, hlýtur að hafa verið ljóst, og hefur áreiðanlega verið ljóst, að þessi ákvæði eru hámarksákvæði og það fer eftir fjárhagsgetu sjóðsins, hversu langan tíma þarf til þess að standa við þetta hámarksákvæði laganna. Lögin leggja ekki greiðsluskyldu á félagsheimilasjóð. Þau leggja ekki skyldu á hans herðar um að greiða 40% af byggingarkostnaðinum, alls ekki yfirleitt. Félagsheimilasjóður gæti sagt: Ég borga aðeins 20% eða 30%. Það væri ekkert lagabrot. Og enn síður leggja lögin þá skyldu á herðar félagsheimilasjóðs að greiða 40% á ákveðnu árabili. Þeir aðilar, sem leggja í byggingu félagsheimilis, verða að gera sér grein fyrir því, að þeir gangast undir þá áhættu að fá ekki full 40% greidd, nema á löngum tíma og það hefur verið stefna allra ríkisstj., sem setið hafa, síðan lögin voru samþ., að stefna að því, að öll félagsheimili fái greidd 40% af byggingarkostnaðinum, þó það taki langan tíma. Um þessa stefnu hefur ekki verið deilt, allir flokkar hafa átt sæti í þeim ríkisstj., sem þessari stefnu hafa fylgt og þeir, sem lagt hafa í framkvæmdirnar, hafa því að sjálfsögðu vitað, að hverju þeir hafa gengið.

Reikningar félagsheimilasjóðs eru opinber plögg og tekjur hans eru á vitorði allra, sem á þessum málum hafa áhuga og fjárþörfin er líka augljós. Ég skal gjarnan gefa þær upplýsingar til viðbótar þessum almennu atriðum, að alls hafa tekjur sjóðsins frá því að hann tók til starfa 1948 numið 65.4 millj. kr., en sú tala segir í raun og veru afar lítið. Hún er í raun og veru allsendis ómark, vegna þess að hún er samtala af kr. með gerólíku verðgildi. Hitt er fróðlegra að vita og heyra, að alls hafi verið veittir styrkir til 136 félagsheimila, sem verið hafa í smíðum frá 1944 til 1968, en lögin voru í upphafi látin verka aftur fyrir sig til félagsheimila, sem smíði var hafin á 1944. Með öðrum orðum hafa 136 félagsheimili, sem í byggingu hafa verið síðan 1944, verið styrkt og eru hús þessi í I16 sveitar— eða bæjarfélögum. 20 félagsheimilanna eru í eign sér félaga í kaupstöðum. Af þessum 136 félagsheimilum hafa 66 félagsheimili fengið greiddan 40% stofnkostnaðarins, eða um það bil helmingur þeirra félagsheimila, sem byggð hafa verið á undanförnum 25 árum. Gagnvart þeim hefur verið staðið við það fyrirheit, sem lögin gáfu af mikilli bjartsýni árið 1947.

Hins vegar er ástand þessara mála í dag mjög ískyggilegt. Hér er um mikið vandamál að ræða og get ég tekið undir orð hv. fyrirspyrjanda, að hér er um geysilegt vandamál að ræða, sem hefur farið vaxandi frá ári til árs á undanförnum árum og þar með stöðugt orðið torleystara. Til þess að gera hv. þm. grein fyrir því, um hvað hér er að ræða, vil ég skýra frá síðustu úthlutun félagsheimilasjóðs, sem fór fram í desembermánuði s.l. Sú upphæð, sem þá var til ráðstöfunar af skemmtanaskatti ársins 1968, nam 7.9 millj. kr. Þessari upphæð þurfti að skipta milli 73 félagsheimila, sem þá voru í byggingu. Framkvæmdastig þessara 73 félagsheimila var það sem hér segir: Það var lokið við 20. 20 voru fullbyggð, en þau hafa ekki enn fengið greitt 40% byggingarkostnaðarins. Það var nærri lokið við 28, en með því er átt við 80—90% kostnaðar. Rúmlega fokheld voru 13, þ.e. 50–80% byggingarinnar var lokið. Fokheld voru 6, en við sex hafa aðeins verið settir í gaflar, grunnur eða sökkull. Heildarkostnaður allra þessara húsa nam fram að þessum degi 256.9 millj. kr. Áætlaður kostnaður við að ljúka smíði þeirra nemur 170 millj. til viðbótar. Sú fjárfesting, sem lagt hafði verið í á undangengnu ári við þessi 73 hús, nam 28.6 millj. kr. Til ráðstöfunar upp í þessa fjárfestingu voru 7.9 millj. kr. eða tæpar 8 millj. kr., þ.e.a.s. rúmur þriðjungur, þannig að augljóst var, að ekki var hægt að veita öllum þessum húsum fullan 40% styrk, enda var það ekki gert. Sum fengu þó 40%, en önnur miklu minna eftir fjárhagsaðstæðum og eftir því, hversu byggingarnar voru komnar langt.

Ef við reynum að gera okkur grein fyrir stöðu félagsheimilasjóðs nú, er staðan þannig, að ef félagsheimilasjóður á að geta greitt 40% af þeirri upphæð, sem nú er áfallinn af kostnaði þeirra 73 félagsheimila, sem eru í byggingu, nemur sú upphæð 99 millj. kr. Nú kann mér að hafa orðið á mismæli og þess vegna vil ég endurtaka þetta. Heildarþátttaka sjóðsins í áföllnum kostnaði nemur 99 millj. kr., ef miðað er við greiðslu 40% kostnaðar. Vona ég, að þetta valdi engum misskilningi. Ef félagsheimilasjóður á að greiða 40% af þeim kostnaði, sem þegar hefur verið lagt í, þá nemur sú upphæð 99 millj. kr. Af þessari upphæð er þegar búið að greiða 46.7 millj. kr. Mismunurinn er því sú upphæð, sem á vantar, til þess að greidd séu 40% af byggingarkostnaðinum. Ef jafnframt er tekið tillit til þess, hvað kostar að ljúka byggingu allra þessara félagsheimila og gert er ráð fyrir því. að félagsheimilasjóður greiði einnig 40% af því, sem þá er eftir, þá kemur í ljós, að hlutur félagsheimilasjóðs í byggingu þessara félagsheimila, sem yrði að greiða, nemur um 120 millj. kr. Og þessi upphæð hefur farið vaxandi ár frá ári á undanförnum árum, vegna þess að framkvæmdir hafa smám saman verið að aukast að magni til og byggingarkostnaður að vaxa mun örar, en tekjur félagsheimilasjóðsins hafa vaxið, mun örar, en skemmtanaskatturinn hefur vaxið.

Það hefur undanfarin ár verið til athugunar í menntmrn., með hvaða hætti mætti hraða því, að unnt væri að greiða 40% byggingarkostnaðarins, því að ég er enn þeirrar skoðunar, að það sé æskilegt mark. Sú hugmynd hefur helzt verið rædd í því sambandi og raunar athuguð mjög gaumgæfilega, að félagsheimilasjóður fengi heimild til þess að gefa út ríkistryggð skuldabréf, sem síðan yrði samið við bankakerfið um kaup á. Ríkisstj. hefur á undanförnum árum fyrir sitt leyti verið reiðubúin til þess að ríkis tryggja slík skuldabréf með vissum skilyrðum, með vissum hætti, en enn hefur ekki tekizt að koma á samkomulagi við bankakerfið, um kaup á slíkum bréfum með þeim hætti, sem félagsheimilasjóði mundi að gagni verða. En viðleitni í þessa átt mun verða haldið áfram.

Ég harma það og get alveg tekið undir með hv. fyrirspyrjanda, — ég harma, að enn skuli ekki hafa tekizt að fá lausn á þessu mikla og vaxandi vandamáli, en ég vona, að þegar þm. heyra þær tölur, sem hér er um að ræða, geri þeir sér ljóst, að sá vandi er ekki auðleystur, þegar horft er til allrar þeirrar fjárþarfar, sem við blasir hvarvetna í íslenzku uppbyggingarþjóðfélagi. En viðleitninni mun verða haldið áfram til lausnar á þessu vandamáli, sem ég viðurkenni, að er mikið og vaxandi.