09.04.1969
Sameinað þing: 39. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 844 í D-deild Alþingistíðinda. (3895)

278. mál, félagsheimilasjóður

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Hv. 2. þm. Vestf. kom fram með hugmynd, sem að hans mati, — ef úr framkvæmd yrði, — mundi leysa fjárhagsvandræði félagsheimilasjóðs. Ég minnist þess, að ekki er ýkja langt síðan ég las í blaði því, sem hann ritstýrir, að eitt af þeim bíóum, sem nýtur þessara skemmtanaskattsfríðinda, sem hér hafa komið á dagskrá, — að eigendur og forsjármenn þess bíós, Bæjarbíós í Hafnarfirði, skýrðu frá því, að tapreksturinn hefði numið eitthvað á aðra millj. kr. á s.l. ári. Hvernig hv. 2. þm. Vestf. og reyndar að nokkru leyti hæstv. ráðh. líka ætla sér að skattleggja slík fyrirtæki, þannig að hægt verði að renna undir félagsheimilasjóð þeim styrku stoðum, sem nauðsyn er á og ég held, að enginn beri á móti, að þurfi að gera, fæ ég satt að segja ekki skilið.

Ég er nokkuð kunnugur rekstri eins af þessum kvikmyndahúsum, því kvikmyndahúsi, sem sjómannadagssamtökin hér í Reykjavík reka og vil ég aðeins leiðrétta orð hæstv. ráðh. Rekstrartekjur bíósins ganga ekki til byggingar Dvalarheimilis aldraðra sjómanna, heldur til styrktar rekstri þess. Á móti því hefur komið, að þetta elliheimili, sem við getum kallað svo, hefur aldrei sótt um styrk til Alþ. vegna rekstrar síns, þó að bæði Elliheimilið Grund í Reykjavík og önnur elliheimili um landið hafi sótt um slíkan styrk og um leið hefur tekizt á þessu elliheimili að hafa ódýrust vistgjöld á slíkum stofnunum, sem þekkjast hér á landi. Ég er anzi hræddur um, að bæði ég og aðrir muni rísa upp, þegar kemur að því að taka þessi fríðindi af þessum aðilum, þessum bíóum. Háskólabíó er, að ég má segja, skattlaust að mestu, því opinber gjöld þess námu í hitteðfyrra 26 þús. kr., meðan t.d. bíó eins og Laugarásbíó, sem sjómannadagssamtökin reka og Tónabíó borguðu töluvert á 4. hundrað þús. kr. í aðra skatta og opinber gjöld. Þótt þau væru leyst undan því að borga þennan eina skatt, þá voru held ég einir sjö liðir aðrir, sem hægt var að tína til og leggja á rekstur þessara stofnana.

Ég vil líka leiðrétta það hjá hæstv. ráðh. að það er alls ekki rétt, að þessi bíó sum hver hafi ekki skilað því, sem nemur skemmtanaskatti. Að vísu hefur reksturinn, eins og hann tók réttilega fram, á öllum kvikmyndahúsum farið mjög niður á við, eftir að sjónvarpið tók til starfa, svo að það hefur verið staðreynd, að aðsókn hefur minnkað um 25–33% í kvikmyndahúsum í Reykjavík og ég satt að segja skil ekki ennþá, hvernig þeir, sem standa í einkarekstri slíkra fyrirtækja, geta staðið undir rekstrinum öllu lengur. Ég hefði frekar álitið, að það hefði átt að heyrast frá hv. 2. þm. Vestf., að það ætti að létta þessum skatti af þessum rekstri, til þess að þessi fyrirtæki gætu starfað áfram, en það stendur fyrir dyrum hjá sumum hverjum að loka a.m.k. nokkra daga vikunnar til þess að ná fram hagræðingu í starfsemi sinni, vegna þess að þau einfaldlega geta ekki staðið undir því að hafa reksturinn í þeirri mynd, sem hann hefur verið fram til þessa.

Laugarásbíói, sem ég hef vitnað til, tókst á s.l. ári að skila til Hrafnistu um það bil þeirri upphæð, sem skemmtanaskattinum nam, auk þess sem það hefur staðið undir þeim háu sköttum, sem á þetta fyrirtæki er lagt.

Ég vil aðeins út af þeim orðum, sem hér hafa fallið um þetta, lýsa því yfir, að ég er algerlega andvígur því, að þessi fríðindi verði tekin af þessum kvikmyndahúsum og tek undir það með hæstv. ráðh., að ef svo verður, munu að sjálfsögðu a.m.k. flestir þeirra aðila, sem þessara fríðinda njóta, leita til fjárveitingavaldsins um frekari fyrirgreiðslu, en verið hefur.

Út af umr. í heild langar mig til þess að spyrja þá áhugamenn um þessi mál, sem hér hafa talað um félagsheimilin og félagsheimilasjóð, hvort borgaður sé skemmtanaskattur af kvikmyndasýningum, sem fram fara í félagsheimilunum. Er borgaður skemmtanaskattur af þeim skemmtunum, sem fara fram í félagsheimilunum? Er ekki orðið tímabært, ef svo er ekki, að það sé borgaður fullur skemmtanaskattur af þeim húsum, sem nú þegar eru komin það vel á legg og orðin það gróin í rekstri sínum, að þau geti staðið undir slíkri skattgreiðslu? Ég minnist þess að hafa heyrt það úr kjördæmi hv. 2. þm. Vestf., að eitt slíkt hús, sem engan skemmtanaskatt borgar, á í harðri baráttu við hús, sem er í kaupstað nokkra km. frá og þarf að borga fullan skatt. Er ekki orðið tímabært að athuga það, hvort félagsheimilin, sem hafa fengið sína styrki kannske að miklu leyti og að fullu, — hvort það sé ekki orðið tímabært, að þau borgi skemmtanaskatt, bæði af skemmtunum og kvikmyndasýningum, eins og önnur þau kvikmyndahús, sem njóta engra fríðinda í sambandi við skemmtanaskattsgreiðslur?