09.04.1969
Sameinað þing: 39. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 846 í D-deild Alþingistíðinda. (3896)

278. mál, félagsheimilasjóður

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Það er misheyrn hjá hv. 10. þm. Reykv., sem síðastur talaði, að ég hafi talið, að hægt væri að leysa allan vanda félagsheimilasjóðs með því að skattfríðindi væru afnumin af þeim kvikmyndahúsarekstri, sem hingað til hefur notið slíkra skattfríðinda. Ég sagði það alls ekki. Hitt sagði ég, að það hefði verið hægt að afla verulegra aukinna tekna í félagsheimilasjóð, ef þessi skattfríðindi hefðu ekki komizt á, ef allur kvikmyndahúsarekstur í landinu hefði setið við sama borð. Þetta var það, sem ég sagði. Og við það stend ég. Hitt verð ég svo að segja, að það fer svo fjarri því, að ég undrist, að hv. 10. þm. Reykv., sem rekur eitt þessara forréttindafyrirtækja, standi upp og neiti að skila sínum forréttindum aftur. Ég spyr hv. þm.: Hvenær vilja þeir, sem fengið hafa forréttindi, skila þeim góðfúslega aftur? Menn verja þau auðvitað með kjafti og klóm. Þetta vænti ég, að hv. þm. skilji eins og aðrir. En hitt vil ég spyrja einkarekstrarelskandann um, hv. 10. þm. Reykv., hvernig hann fær komið því saman, að kvikmyndahúsin í kjördæmi hans, einkarekstrarhúsin, skuli greiða milljónir kr., ekki aðeins í skemmtanaskatt, heldur í svokölluð sætagjöld til borgarinnar á meðan hans kvikmyndahús nýtur skattfrelsis að þessu leyti.

Það sé fjarri mér að gera lítið úr starfsemi, sem dvalarheimilisbíóið stendur undir. Þvert á móti. Ég tel, að það sé mjög gagnleg og góð stofnun. En eins og ég sagði í frumræðu minni: Kvikmyndahúsarekstur hefur verið talinn það ábatasamur, að einstaklingar gætu grætt á honum, þó að þeir borguðu bæði há sætagjöld og skemmtanaskatt í félagsheimilasjóð. Ætla mætti, að önnur kvikmyndahús yrðu rekin með skaplegum hætti og hefðu ágóða og það verulegan ágóða, þótt þau sætu við sama borð og einkaframtakið í þessum efnum og borguðu skemmtanaskatt til félagsheimilasjóðs og jafnvel sætagjald til borgarinnar.

Það er hörmulegt til þess að vita, ef þessi atvinnurekstur er beinlínis að gefast upp, því að þetta eru nú einu sinni fyrirtæki, sem almenningur leitar mikið til í frístundum sínum. Á því eru auðvitað eðlilegar skýringar, að kvikmyndahúsarekstur gengur ekki eins vel nú og fyrir nokkrum árum, t.d. tilkoma sjónvarpsins. Það hlýtur að hafa í för með sér, að mjög verulega dregur úr aðsókn að kvikmyndahúsum. Það hefur gert það hér í Reykjavík og það hefur gert það í öðrum byggðarlögum úti um land, sem sjónvarpið nær til.

Ég vil í tilefni fsp. hv. 10. þm. Reykv. um skemmtanaskattsgreiðslu af kvikmyndasýningum í félagsheimilum taka fram, að mér finnst ekkert óeðlilegt, að félagsheimili, ný, glæsileg og góð samkomuhús, greiði skemmtanaskatt í félagsheimilasjóð, ef þau eru í það stórum byggðarlögum, að þau geti á annað borð fallið undir ákvæðin um greiðslu skemmtanaskatts. En eins og menn vita, fer það nokkuð eftir stærð byggðarlaganna. Mér fyndist það koma mjög til greina, eftir að aðstaðan hefur breytzt mjög til hins betra í þessum efnum, að greiddur verði skemmtanaskattur í félagsheimilasjóð af kvikmyndasýningum, sem fram fara í félagsheimilum.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að öðru leyti að hefja deilur um þetta við hv. 10. þm. Reykv. Ég veit, að hann vill gjarnan, að félagsheimilin komist upp úti um landið. Hann vill hins vegar hlúa að sínu fyrirtæki. Ég vil gera það líka. Ég vil hlúa að Dvalarheimili aldraðra sjómanna, en ég hef talið og tel enn, að kvikmyndahúsarekstur sé það arðvænlegur atvinnurekstur, að hann eigi að sitja við sama borð hjá opinberum aðilum og einkarekstri.