09.04.1969
Sameinað þing: 39. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 848 í D-deild Alþingistíðinda. (3898)

278. mál, félagsheimilasjóður

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Það er aðeins örstutt aths. út af orðum síðasta ræðumanns. Ég vil aðeins segja það, að hann má fá skattinn, ef ég fæ ölið og ef till. verður samþ., er það auðvitað alveg frjálst af minni hendi, hvernig þingið ákveður að verja þeim óneitanlega miklu tekjum, sem við sjáum fram á, að af þeim iðnaði gæti orðið hér á landi.

Ég fæ ekki skilið, af hverju hv. 2. þm. Vestf. heldur því enn fram í seinni ræðu sinni, að kvikmyndahúsarekstur sé arðvænlegur og þar sé um mikla möguleika á skatttekjum að ræða, þegar ég er búinn að benda honum á fréttina í hans eigin blaði um eitt af þessum húsum, sem hefur ekki skilað milljónagróða, heldur nokkuð á aðra millj. í rekstrartap á s.l. ári. Ég skil ekki þann málflutning og heldur ekki, að hann skuli fara að leggja mér í munn þau orð, að ég hafi sagt, að það bíó, sem ég hef valizt til að vera stjórnarformaður fyrir og það er aðeins frá ári til árs í gegnum kjör í okkar samtökum, sjómannadagssamtökunum, að ég hafi látið á mér skilja, að við borguðum engin gjöld, hvorki til Reykjavíkurborgar eða þá í þennan ágæta félagsheimilasjóð. Þetta sagði ég aldrei. Eina undantekningin frá skattgreiðslu á þessu bíói er skemmtanaskatturinn. Við borgum öll önnur opinber gjöld, bæði til borgar og ríkis, eins og lög kveða á um. Og ég tók líka fram að þessi upphæð hefði numið nær 400 þús. kr. á s.l. ári. Og ég tel það alls ekki litla upphæð af svo litlu bíói, sem aðeins tekur tæp 400 manns í sæti, meðan Háskólabíó sjálft borgar aðeins 26 þús. kr., en tekur 1.000 manns í sæti. Ég er ekki kunnugur því, hvað gert er í sambandi við önnur slík fyrirtæki út um land, en ég veit, að bæði Laugarásbíó og Tónabíó borga að fullu aðra þá skatta, sem á eru lagðir samkvæmt íslenzkum lögum.