12.11.1968
Neðri deild: 14. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 102 í B-deild Alþingistíðinda. (39)

52. mál, ráðstafanir vegna nýs gengis

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Hv. 4. þm. Austf. bar fram brtt., sem hann tók aftur til 3. umr. Efnislega sýnist ekkert vera við þessa till. að athuga, en þetta ákvæði var á sínum tíma sett vegna varnarliðsins eða samninga við það og var ekki tekið upp í l. í fyrra, vegna þess að þá var ekki talið, að slíkir samningar væru á ferðinni, sem þýðingu hefðu í þessu sambandi og aðstæður aðrar. Nú hafa menn ekki athugað þetta til hlítar, en sjálfsagt er, að þessi heimild sé fyrir höndum og þá með hliðstæðum hætti eins og í 4. gr. frv. nú, þar sem um afurðir segir. að ríkisstj. kveði nánar á um, til hvaða afurða þetta ákvæði skuli taka, og er ákvörðun hennar þar að lútandi fullnaðarúrskurður. Þetta er því varðandi afurðirnar í höndum ríkisstj., og einstakar afurðir voru í fyrra felldar undan þessu ákvæði í framkvæmd. Till. mín er því sú, að till. hv. 4. þm. Austf. verði samþ. með þessari breytingu, að í upphafi komi: „Ríkisstj. er heimilt að ákveða, að gengismunur, sem myndast kann við kaup á gjaldeyri“. Að sem sagt „Ríkisstj. er heimilt að ákveða, að“ bætist framan við till. og hv. flm. till. hefur fallizt á þessa breytingu. Vonast ég til þess, að þannig verði samkomulag um málið.