09.04.1969
Sameinað þing: 39. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 851 í D-deild Alþingistíðinda. (3904)

279. mál, framkvæmd á lögum nr. 83/1967

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég hef farið fram á það við Tryggingastofnun ríkisins, að hún veitti svör við þessari fsp. hv. fyrirspyrjanda, og fer svar Tryggingastofnunarinnar efnislega hér á eftir:

Starfsmenn Tryggingastofnunarinnar hafa oft hugleitt, hvort hægt væri að láta banka og sparisjóði greiða bætur almannatrygginga og þá samkvæmt greiðslufyrirmælum stofnunarinnar í ávísunarformi, greiðsluskírteinisformi eða með einhverjum öðrum hætti og þá sérstaklega haft í huga, hvort hægt væri með því að auðvelda bótaþegum að vitja bóta sinna, en að sjálfsögðu einnig áætlað tilkostnað, sem því væri samfara. Athugun þessi hefur eðlilega verið við það miðuð, að öruggt væri, að greiðsla bærist réttum aðila og hægt væri að koma við eins skjótri afgreiðslu á umsóknum eða niðurfellingum bóta, eins og nú á sér stað. Þessar hugleiðingar hafa ekki orðið til þess, að ástæða hafi verið talin til að leggja til að breyta núv. fyrirkomulagi samkvæmt umræddu bráðabirgðaákvæði. Ef greiðslufyrirmælin væru í ávísanaformi á innistæðu stofnunarinnar, þyrfti að sjálfsögðu enga samninga við lánastofnanir aðra en almenna innistæðusamninga og greiðsla til lánastofnunarinnar yrði því hverfandi eða engin. Ef ætlazt væri til meiri þjónustu hjá lánastofnuninni, kæmi til greiðsla, sem að sjálfsögðu yrði að inna af hendi. Hins vegar hefur engum hugkvæmzt, a.m.k. ekki hvað greiðslu bóta í Reykjavík viðvíkur, að með þessum hætti mætti spara útgjöld. Kostnaður stofnunarinnar við bótagreiðslur er að langmestum hluta tengdur móttöku bótaumsókna, úrskurði bótaréttar eða niðurfellingu ásamt með bókhaldi og skýrslugerð. Kostnaður við útborgun bótanna er hverfandi lítill, vegna þess að bótaþegar eða umboðsmenn þeirra þurfa að vitja bótanna á einum stað í Reykjavík, sem er á sama stað og önnur vinna við þessa starfsemi. Allar ákvarðanir í sambandi við úrskurði eru samstundis komnar til útborgunardeildar og útborgunardeild getur haft beint samband við úrskurðardeild og bókhald og fylgist með greiðslum bæði fyrir og eftir að greiðslur fara fram. Tryggingastofnuninni er að sjálfsögðu ljóst, að skoðanir starfsmanna hennar kunna að einhverju leyti að vera staðnaðar og einhver þau viðhorf geta verið um þessi mál, sem ekki hefur verið nægur gaumur gefinn og leyfir sér því að benda á, ef ástæða þykir til, að aðila utan stofnunarinnar verði falið að gera þessa athugun, sem þó getur ekki farið fram, án þess að starfsmenn stofnunarinnar upplýsi, hvers þarf að gæta í því sambandi.

Það er því rétt, sem hv. fyrirspyrjandi sagði áðan, að ennþá hafa ekki verið gerðir samningar við aðrar stofnanir, en fyrr hafa um þessi mál séð til afgreiðslu þessara bóta.