16.04.1969
Sameinað þing: 0. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 859 í D-deild Alþingistíðinda. (3915)

280. mál, mál heyrnleysingja

Fyrirspyrjandi (Geir Gunnarsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. menntmrh. svör hans og fagna yfirlýsingu hans um, að haldið verði fast við þá ákvörðun að byggja nýjan Heyrnleysingjaskóla og ég vænti þess, að ekki muni standa á stuðningi Alþ. við till. um fjárfestinguna, svo byggingunni geti verið lokið sem allra fyrst. Ég legg ennfremur áherzlu á, að jafnframt verði nú þegar gerðar ráðstafanir til þess að tryggja menntun fleiri heyrnleysingja kennara og annars sérmenntaðs starfsfólks, því að litlu haldi kemur húsnæðið eitt. Þótt nýtt og fullkomið skólahús sé eitt grundvallarskilyrði þess, að fyrir málum heyrnleysingja sé unnt að sjá á fullnægjandi hátt, nægir það ekki eitt sér. Ég endurtek þakkir mínar til hæstv. ráðh. fyrir jákvæðar skoðanir hans og yfirlýsingar um málefni heyrnleysingja og vænti þess, að hvað sem afstöðu hans til annarra mála líður, þá láti hann ekki henda sig að hafa skoðanaskipti í þessum efnum.