16.04.1969
Sameinað þing: 0. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 869 í D-deild Alþingistíðinda. (3921)

280. mál, mál heyrnleysingja

Auður Auðuns:

Herra forseti. Ég skal lofa því að vera stuttorð. Eins og ég sagði áðan, mun ég geyma mér frekari umr., þangað til þáltill. verður tekin til umr., en það voru örfá atriði, sem ég vildi samt fyrir mitt leyti svara, sem fram hafa komið í ræðum hv. þm., sem hér hafa síðast talað. En fyrst leikur mér eiginlega forvitni á að vita, hvers vegna hv. 9. þm. Reykv. bauð ekki öllum flokkum að gerast meðflm. að þessari till. sinni. Ég fyrtist ekki við það, þó að hann hafi ekki leitað til mín, það er síður en svo. (Gripið fram í.) Mér skildist, að það ætti að efna til samfylkingar þarna og þá hélt ég, að það væri kannske einhver skýring til á því, að stærsti flokkurinn var skilinn eftir.

Þessi sami hv. þm. talaði um, að það væri misþyrming að setja heyrnarskert börn inn í barnaskóla, án þess að þau nytu þar kennslu sérmenntaðra kennara. Það dettur auðvitað ekki nokkrum einasta manni í hug, enda leiðrétti hv. þm. sig síðar að því leyti. Að tala um andlega misþyrmingu heyrnarskertra barna með því að setja þau inn í heilbrigt umhverfi, talandi og heyrandi umhverfi, það get ég ekki tekið undir. Ég ætla ekki að fara lengra inn á það nú, því að eins og ég áður sagði, mun ég geyma mér til umr. um þáltill. að ræða það mál frekar.

En það var annað, sem kom fram hjá einum hv. ræðumanni hér áðan, að það hefði verið sagt, að það væri óþörf nýbygging fyrir Heyrnleysingjaskólann. Ég vil a.m.k. láta það vera alveg ljóst, að ég hélt því ekki fram. Ég sagði bara einfaldlega, að ég gæti ekki kveðið upp úr um það, hvort sérskóli fyrir heyrnarskerta væri nauðsynlegur. Það, sem ég lagði áherzlu á var, að ef sérskóli er talinn nauðsynlegur, — það má vel vera og það er alveg rétt, að þeir munu vera til í öllum löndum, — þá yrði áður, en ráðizt yrði í þessa stóru byggingu, sem miðast við allan þann fjölda, sem nú er í skólanum, — áður en ákvörðun yrði tekin um að ráðast í hana, væri áætlunin endurskoðuð með hliðsjón af því, hvað væri talið unnt og rétt að vista mörg af þeim börnum, sem þarna er um að ræða, í hinu almenna skólakerfi og í leikskólum og fyrir mitt leyti, ég held að ég hafi tekið það fram áðan, legg ég alveg sérstaka áherzlu á, hvað hægt sé að gera fyrir yngstu börnin, því að þar er þó mests árangurs að vænta, því endurhæfing barnanna verður því áhrifaríkari, sem þau eru yngri að árum, þegar byrjað er.

Það er alveg rétt, að það má vel vera, að það sé erfitt og ég þori heldur ekki að kveða upp úr um það, að hve miklu leyti það er framkvæmanlegt að kenna heyrnarskertum börnum úti um landið í almennum skólum. Ég geri ráð fyrir, að það mundi algerlega stranda á því, að það séu ekki sérmenntaðir kennarar til þess að leysa það verkefni af hendi víðs vegar um landið. En börnin eru dreifð um allt land, eins og vitað er, og þessi stóri hópur, sem bættist í skóla nú í haust, er ekki nema að 1/3 hluta úr Reykjavík. Önnur munu vera utan af landinu.

Svo ætla ég loks að koma að því, sem hv. 5. þm. Vesturl. vék að áðan um byggingu heyrnleysingjaskóla í tengslum eða í sambandi við barnaskóla Reykjavíkur. Þetta er hugmynd, sem er mjög athyglisverð, en hún er ekki ný fyrir mér, því að í plöggum, sem ég hef ekki vegna ræðutíma haft aðstöðu til eða tíma til að fara frekar út í, kemur einmitt fram hjá sænskum skólayfirvöldum, að þar er lagt það mikið upp úr talandi umhverfi fyrir heyrnarskerta, að þeir eru með áætlanir einmitt um að bókstaflega byggja nýja heyrnleysingjaskóla eða skóla fyrir heyrnarskerta inn í almenna barnaskóla. Ég skal bæta því við, að þar er líka mikil þróun í þá átt að hafa svokallaða utanskólabekki, setja þá inn í barnaskóla og stjórnunarlega lúta þeir hlutaðeigandi barnaskóla, en kennslulega hins vegar sérskólum.