16.04.1969
Sameinað þing: 0. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 871 í D-deild Alþingistíðinda. (3923)

280. mál, mál heyrnleysingja

Jón Skaftason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Meining mín með þeim orðum, sem ég við hafði við þessa umr., var fyrst og fremst sú að reyna að vekja eftirtekt á því, að við eigum gífurlega margt ógert í sambandi við málefni heyrnardaufra. Þar er mikilla átaka þörf og til þess að betrum bæta ástandið í þeim efnum þarf talsvert fjármagn.

Hér er verið að tala um, hvort eigi að verja miklu fé til byggingar nýs heyrnleysingjaskóla. Ég segi, að vegna hinnar miklu þarfar á þessum sviðum almennt talað, þá eigum við að setja niður sérfróða menn til þess að meta ástandið almennt, meta hvar þörfin á framkvæmdum er mest og einbeita okkur að þeim sviðum, meðan við höfum ekki efni til þess að vinna að öllum verkefnum í einu.

Ég er þeirrar trúar, að þörfin fyrir fullkomna heyrnlækningadeild við eitthvert af ríkissjúkrahúsunum í landinu sé ákaflega brýn. Ég er þeirrar trúar ennfremur, að þörfin á fullkominni leitar miðstöð fyrir heyrnleysingja sé ennfremur ákaflega brýn og ég veit fjölda dæma þess, bæði hér á landi og raunar annars staðar frá, hversu það hefur valdið miklum erfiðleikum og seinkað bókstaflega um mörg ár þroska beirra barna, sem einhverjar heyrnarleifar eiga eftir, að fá vitlaus heyrnartæki, sem ekki eiga við þau og gera þeim alla lífsbaráttuna miklu erfiðari en ella. Ég er alveg sammála því, sem kom fram hjá Hannibal Valdimarssyni áðan, að þau börn, sem hafa einhverjar heyrnarleifar, þroskast miklu fyrr, læra miklu fyrr að tala, ef þau eru í umhverfi með öðrum börnum, sem eru fulltalandi.

Vandinn hjá okkur er að tryggja, að öll þau börn, sem hafa heyrnarleifar, fái þau beztu tæki, sem völ er á, svo hægt sé að setja þau í samskólana, þar sem það er hægt og aðstæðurnar leyfa, undir stjórn sérmenntaðra kennara og láta þau umgangast heilbrigðu börnin. Ég er ekki í nokkrum vafa um, að þetta er það lang bezta. En til þess að þetta sé hægt, þurfum við, eins og hér hefur verið vikið að, að mennta miklu fleiri kennara til þess að kenna þessum börnum og ekki síður þurfum við að tryggja, að þau börn, sem þjást af heyrnardeyfu, fái nákvæma og viðeigandi rannsókn og þau tæki, sem þeim bezt henta, til þess að þau geti lært málið á þeim stöðum, þar sem beztur árangur verður. Eða er það ekki almennt vitað og viðurkennt, að ef t.d. Íslendingur vill læra frönsku, þá lærir hann hana hvergi betur en ef hann fer til Frakklands og er látinn brjótast þar áfram, heyrandi frönskuna talaða dag frá degi? Hann lærir hana miklu fyrr á þann hátt, en eftir öðrum leiðum. Sama gildir um heyrnardaufu börnin, sem haldin eru málhelti. Þau læra bezt að tala, ef þau eru í umhverfi með öðrum talandi félögum sínum, heyrandi með hjálp viðeigandi tækja. Þau læra langfyrst og bezt að tala á þann hátt.