16.04.1969
Sameinað þing: 40. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 882 í D-deild Alþingistíðinda. (3930)

282. mál, málefni iðnnema

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það verður ljósara og ljósara, hvað fyrir hv. fyrirspyrjanda vakir í þessu máli og er það í sjálfu sér ánægjulegt fyrir alla, sem dómbærir eru um slíka hluti og kunna að meta málavexti af skynsemi. Hann heldur áfram að deila á mig fyrir það, að ég skuli ekki hafa gripið til sérstakra ráðstafana út af brotnum námssamningum á grundvelli tveggja bréfa, sem rn. hafa borizt um atvinnuleysisskráningu á vegum Iðnnemasambandsins, sem bæði voru mjög almenns eðlis, þar sem ekkert einstakt dæmi var nefnt um neitt einstakt brot og ekki bent á neina einstaka ráðstöfun, sem ég eða rn. gæti gripið til, til úrbóta í þessum efnum. Hann segir, að ef ég hefði veitt iðnnemunum viðtal, hefði ég fengið hlutaðeigandi lista. En mér er spurn: Hvers vegna hafa forustumenn sambandsins ekki komið á minn fund? Ég hef verið til viðtals flesta miðvikudaga þessa vetrar. Er víst að áhugi allra iðnnema á þessu máli sé jafnmikill og áhugi fyrirspyrjanda? Mig grunar, að áhugi hans sé sprottinn af pólitískum toga og engu öðru. Ef iðnnemar eða forustumenn Iðnnemasambandsins hefðu haft raunverulegan áhuga á því að fá fram úrbætur í þessum efnum, skyldi maður hafa vænzt þess, að þeir hefðu gert sér erindi einhvern miðvikudagsmorgun til mín til þess að sýna mér listann og benda mér á, hvað ég gæti gert í þessu efni, yfirleitt eða í einhverjum ákveðnum tilfellum. Þetta hefur ekki átt sér stað. Er síðan ástæða til að deila á mig fyrir aðgerðaleysi í þessum efnum? (Gripið fram í: Er ekki rétt að svara bréfunum, ráðh.?) Mínu rn. og mörgum öðrum rn. berast svo margar ályktanir og svo mörg bréf, að þeim er svarað, þar sem gefið er tilefni til svars, þar sem um tiltekið úrlausnarefni er að ræða, sem rn. telur rétt að taka afstöðu til. Það var ekki um að ræða í þeim bréfum, sem þarna var um að ræða.

Ég vil víkjast þannig við þessu pólitíska tali hv. þm. að gefnu tilefni, að ég mun afla mér þessa lista, sem þarna er um að ræða. Og ég mun ekki hafa samráð við hann um það, hvað ég geri í þeim efnum, því að ég á ekki von á neinum góðum ráðum í þeim efnum frá honum, hvorki mér til handa né heldur í þágu iðnnema satt að segja, alls ekki. Ef ég færi eftir hans ráðum, þá er ég viss um, að ég gerði iðnnemum tjón, en ekki gagn. En hitt mun ég gera og hafa um það samráð við samtök iðnnema, hvað hægt verði að gera í hverju einstöku tilfelli. Ég hygg, að þá kannske komi ýmislegt annað í ljós, en hv. þm. gerir ráð fyrir. Og leiði þessi athugun til einhverra vandkvæða á einhverju sviði fyrir einhvern, þá mun ég vísa því til föðurhúsanna hjá hv. þm. Ég vona, að hann skilji um hvað er hér að ræða. Ég er viss um, að iðnnemar munu skilja það og skilja það nú þegar. Það er ég alveg sannfærður um. Og þess vegna mun ég hafa samráð við þá um þetta efni, en ekki við pólitíska spekúlanta, sem reyna að gera sér mat úr hverju einu á hinu háa Alþ. Hér er um miklu meira alvörumál að ræða en svo, að ástæða sé til þess að láta pólitíska andstæðinga sína freista sín til þess að gera hluti, sem í raun og veru væru andstæðir hagsmunum þeirra manna, sem hlutaðeigandi valdamaður á að gæta hagsmuna fyrir. Og það mun ég ekki gera. En sem sagt, ég vísa algerlega á bug ásökunum um, að ég hafi látið nokkuð vanrækt í þessum efnum.

Ég endurtek að síðustu þá staðhæfingu mína frá því áður, að ég tel rn. ekki eiga og jafnvel ekki mega grípa til sérstakra ráðstafana í þessum efnum, nema fyrir liggi ákveðnir málavextir, sem rn. skoði, hvort ástæða sé til þess að grípa til ráðstafana út af. Ég á alls ekki við það, að fyrir þurfi að liggja kæra í málinu. Það kom mjög ljóst fram í viðræðum mínum við fulltrúa iðnnema áðan, að mér er ljóst, — mér er jafnljóst og þeim, að á því geta verið margs konar vandkvæði. En einmitt vegna þess, að forustumönnum iðnnemanna er ljóst, eins og fram kom í samtalinu, að það er nauðsynlegt að taka á slíkum málum án kæru, taka á þeim sem einkamálum, sem farið er með sem fullkomið trúnaðarmál, þá undirstrika ég heldur ekki þá leið, að iðnnemarnir kæri gagnvart iðnfræðsluráði eða rn. Og meðan þeir ekki hafa gert það, meðan ekkert mál liggur fyrir, hvorki sem kæra né heldur sem beiðni um, að það sé athugað sem trúnaðarmál í þágu einhvers ákveðins iðnnema — meðan ekkert slíkt mál hefur rekið á mínar fjörur, tek ég engum ásökunum um það, að ég hafi ekki sýnt málefni þessara manna tilhlýðilega athygli eða vanrækt skyldu mína í þessum efnum.