23.04.1969
Sameinað þing: 43. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 893 í D-deild Alþingistíðinda. (3941)

281. mál, landgræðsla sjálfboðaliða

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi er ekki alveg ánægður með upplýsingarnar, en þó að mestu leyti og þakkaði mér fyrir svörin, en talaði um, að þótt framlag til landgræðslunnar á sviði félagssamtakanna væri aukið, þá væri það ekki nóg. En það má vera að hann hafi ekki heyrt það áðan, að það voru till. Ingva Þorsteinssonar fulltrúa landgræðslustjóra, sem sér um gróðurverndina, sem verður farið eftir á komandi sumri og till. hans eru byggðar á því, sem talið er heppilegt að eyða í þetta í sumar, miðað við þá áætlun um þátttöku, sem hann hefur gert. Það má vera að það reynist svo, að þátttakan verði meiri, en hún er áætluð, en það er áætluð mjög veruleg aukning. Það kemur þá í ljós síðar, hvort það er ekki fullnægjandi, sem hér er um að ræða.

Hv. þm. hefur þá skoðun, að landgræðslan og gróðurverndin sé enn nauðsynlegri en skógræktin. Því er ekki að leyna, að það eru mjög skiptar skoðanir um þetta í landinu, en enginn vafi er þó á því, að skógræktin, landgræðslan og gróðurverndin eru greinar af sama stofni og menn skyldu ekki gera lítið úr því, að ef ein planta hefur náð að festa rætur, þá hjálpar hún ótrúlega mikið til við gróðurinn og sennilega nægir til þess að hefta uppblástur.

Ég get upplýst hv. þm. um það, að framlög til landgræðslunnar hafa á seinni árum aukizt mun meira, en til skógræktarinnar, þrátt fyrir dugnað skógræktarstjóra í áróðri, sem hv. fyrirspyrjandi vitnaði hér í. Skal ég ekki gera lítið úr því. En landgræðslustjórarnir eða sandgræðslustjórarnir, eins og þeir hétu, voru einnig duglegir á sinn hátt og einnig núverandi landgræðslustjóri ásamt sínum aðstoðarmanni, Ingva Þorsteinssyni. Það má vera, að þessi aukni áhugi almennings í landinu hafi komið í seinni tíð aðeins fyrir tilviljun. Ég hygg, að það sé ekki. Ég hygg, að áróður og dugnaður forustumanna landgræðslunnar eigi sinn stóra þátt í því og þetta skeði eftir að nýju landgræðslulögin voru sett, þar sem gróðurverndarstarfið var tekið alveg sérstökum tökum. Og ég er ekki sannfærður um, að það, sem mest liggi á nú, sé að taka upp nýja skipulagningu í þessum málum, vegna þess að nýju lögin eru nú fyrst að verka og sýna ágæti sitt með þeirri skipulagningu, sem gerð hefur verið samkvæmt þeim, m.a. með því að skipa gróðurverndarnefndir í öllum sýslum landsins, sem eiga e.t.v. sinn stóra þátt í því að skapa þann mikla áhuga, sem verið hefur. Og það er ekki frá mínu sjónarmiði aðalatriðið að sameina þessar stofnanir undir einn hatt, skógræktina og landgræðsluna. Það er gamalt mál og fyrir löngu um það rætt að gera þetta, en skoðanir manna hafa verið skiptar á því. Ég er alls ekki viss um, að það sé út af fyrir sig til batnaðar. Það sem máli skiptir er, að þessar stofnanir geti unnið saman, geti unnið vel saman og það vona ég að þær geri og skilji sitt hlutverk og ég held, að ráðstefnan, sem haldin var fyrir nokkrum dögum um gróðurverndarstarfsemina og landgræðsluna, hafi einnig leitt í ljós, að þessar stofnanir séu óaðskiljanlegar og verði að vinna saman, enda þótt það séu tveir forstjórar. Og ég veit ekki, hvort hægt væri að spara nokkuð að ráði, þótt sameiningin ætti sér stað, nema þá að einn forstjóri væri. Það getur verið, að það sé mögulegt, en það gæti þá verið, að það þyrfti að koma fulltrúi og þá verður harla lítið, sem sparaðist. En er ekki nauðsynlegt að hafa skógræktarstjóra, sem sýnir dugnað í áróðri og áhuga fyrir þessu mikilvæga starfi og er ekki einnig nauðsynlegt að hafa landgræðslustjóra og gróðurverndarstjóra, eins og við nú höfum, svo að þeir geti einnig notið sín með þeim áróðri og dugnaði, sem þeir virðast hafa beitt í seinni tíð, því að árangurinn lætur ekki á sér standa í hinum aukna áhuga alls almennings í landinu?