23.04.1969
Sameinað þing: 43. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 894 í D-deild Alþingistíðinda. (3946)

194. mál, tollstöðvarbygging við Reykjavíkurhöfn

Fyrirspyrjandi (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Eins og hv. alþm. vita, hefur lengi verið vöntun í Reykjavík á viðunandi aðstöðu til tollskoðunar og tolleftirlits. Alþ. hefur fyrir löngu viðurkennt þessa staðreynd með því að leggja tollstöðvarbyggingu til sérstakan tekjustofn, sem er innheimtur með öðrum aðflutningsgjöldum. Nú er tollstöðvarbyggingin risin á hafnarbakkanum, mikið hús og veglegt og vonandi bætir það úr mjög brýnni þörf. En því er ekki að neita, að raddir heyrast um það, að meira hefði verið hugsað fyrir aðstöðu til skrifstofuhalds, en til að bæta skilyrði sjálfrar tollgæzlunnar. Það er vitanlega slæmt, ef rétt reynist, á það get ég engan dóm lagt að svo stöddu a.m.k.

Ég held, að það sé öllum aðilum fyrir beztu, að slík mál séu upplýst eins rækilega og föng eru á. Þess vegna hef ég leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. fjmrh. um þetta atriði á þskj. 387 svo hljóðandi:

l. Hvenær má ætla, að tollstöðvarbyggingin við Reykjavíkurhöfn verði tekin í notkun?

2. Hvernig verður afnotum þess húss hagað og hvernig verður aðstaða þar til tollskoðunar?

3. Hvað kostar þessi bygging fullgerð.