23.04.1969
Sameinað þing: 43. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 900 í D-deild Alþingistíðinda. (3954)

205. mál, auknar sjúkrabætur

Fyrirspyrjandi (Jón Árnason):

Herra forseti. Ég hef á þskj. nr. 431 leyft mér að bera upp fsp. til hæstv. félmrh. varðandi auknar sjúkrabætur. Fsp. þessi hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Hvað líður framkvæmd þáltill., sem Alþ. samþ. 17. apríl 1968, um endurskoðun á IV. kafla l. nr. 40 1963, um almannatryggingar, með það fyrir augum, að sjúklingar, sem leita þurfa læknishjálpar erlendis, fái verulega auknar bætur frá því, sem nú á sér stað?“

Það er nú liðið rúmlega eitt ár síðan till. þessi var samþ. hér á hinu háa Alþ. Ég tel, að hér sé um stórmál að ræða fyrir þá, sem í hlut eiga, hvernig þessum málum verður skipað til frambúðar. Ég hef því leyft mér að bera fram þessa umræddu fsp.