23.04.1969
Sameinað þing: 43. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 901 í D-deild Alþingistíðinda. (3959)

212. mál, sumaratvinna skólafólks

Fyrirspyrjandi (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Á 2. landsþingi menntaskólanema, sem haldið var í Reykjavík fyrir skömmu, var að vonum mikið rætt um sumaratvinnu námsfólks og greint frá athugunum, sem framkvæmdar höfðu verið á atvinnuhorfum námsmanna í menntaskólum. Í Menntaskólanum í Hamrahlíð áttu 28.3% nemenda vísa vinnu, 50.5% nemenda töldu sig hafa von um vinnu, en 21.3% eygðu enga von um atvinnu í sumar. Í þeim skóla töldu 38.4%, að þeir yrðu að hætta námi, ef þeir fengju ekki vinnu. Í Menntaskólanum að Laugarvatni áttu tæp 32% nemenda vísa vinnu, 30% gerðu sér vonir um vinnu, en 38% eygðu enga atvinnumöguleika. Í Menntaskólanum í Reykjavík reyndist aðeins 21% nemenda hafa trygga sumaratvinnu, 35% gerðu sér vonir um vinnu, en 44% sáu ekki fram á að geta fengið nein sumarstörf. Þessar tölur, sem ég nefndi, eru aðeins frá þessum þremur menntaskólum, en þær eru til marks um mjög alvarlegt ástand, sem nær til framhaldsskólanna allra, þar með til háskólastúdenta.

Það hefur um langt skeið verið einkenni á íslenzku þjóðfélagi, að skólaæskan hefur stundað hvers konar atvinnu á sumrin og greitt þannig að verulegu leyti kostnað af námi sínu. Hefur þessi tilhögun leitt til þess, að meira hefur verið um það hér, en í öðrum Vestur–Evrópulöndum, að börn alþýðufólks hafi getað stundað langskólanám. Vissulega hefur þetta verið erfiður róður fyrir marga, en þessi tilhögun hefur einnig mikla félagslega kosti. Ungt fólk, sem starfar þannig fyrir kaupi á almennum vinnumarkaði, öðlast snemma aukið sjálfstæði og þessi tilhögun stuðlar að því andlega jafnræði, sem er mjög dýrmætt einkenni á íslenzku þjóðinni.

Sú kreppa, sem Íslendingar hafa nú fengið að kynnast um tveggja ára skeið, hefur komið sérstaklega illa við skólaæskuna og horfur þær, sem nú blasa við, eru mjög geigvænlegar. 8 þús. nemendur í framhaldsskólunum fara senn að bætast á vinnumarkaðinn, en seinast þegar birtar voru tölur um atvinnuleysi á Íslandi, reyndust atvinnuleysingjar vera yfir 2.000 talsins. Veruleg hætta er á því, að mikill hluti námsmanna fái ekki vinnu og við það ástand bætast skertar atvinnutekjur aðstandenda. Verði ekki að gert, er hætta á, að margir námsmenn verði að hætta í miðjum klíðum og langskólanám verði forréttindi unglinga frá efnafjölskyldum. Slík þróun mundi í senn hafa hrapalleg félagsleg og menningarleg áhrif.

Sú staðreynd, að hér sé við stórfellt vandamál að etja, er viðurkennd af öllum, þ.á.m. af hæstv. ríkisstj. Þegar í marzmánuði í fyrra lofaði hæstv. ríkisstj. því hátíðlega í samningum sínum við verkalýðsfélögin að athuga atvinnumál unglinga, sem eru við nám og stuðla að ráðstöfunum til að tryggja sumaratvinnu þeirra. Því miður urðu efndirnar í fyrrasumar ekki öldungis í samræmi við loforðin. Tekjur skólafólks urðu þá mun minni en endranær og allstór hópur fékk aldrei neina vinnu. Nú, þegar mun stórfelldari vandamál blasa við, hefur hæstv. ríkisstj. enn ítrekað loforð sín. Hún hét m.a. öllu góðu í þessu efni í viðtölum við fulltrúa frá landsþingi menntaskólanema, sem ég vék að áðan. Í þessu máli er því ekki um það að ræða að sannfæra hæstv. ríkisstj. eða samþykkja almennar áskoranir á hana. Fyrirheitin eru alveg ótvíræð. Um hitt spyrja nemendur og aðstandendur þeirra: Hvernig ætlar hæstv. ríkisstj. að efna fyrirheit sín? Hvaða tilteknar ráðstafanir ætlar hún að gera til að tryggja skólafólki næga atvinnu í sumar? Ég ber fram þessa fsp. mína til þess að fá svar við þeirri spurningu.