23.04.1969
Sameinað þing: 43. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 904 í D-deild Alþingistíðinda. (3961)

212. mál, sumaratvinna skólafólks

Fyrirspyrjandi (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Um leið og ég þakka hæstv. félmrh. svörin, kemst ég ekki hjá því að lýsa yfir algerri undrun á efni þeirra. Efnislega sagði hæstv. ráðh., að ríkisstj. hefði gert nákvæmlega ekki neitt til þess að efna þau loforð, sem gefin voru fyrst í marzmánuði í fyrra og hafa síðan verið ítrekuð æ ofan í æ, bæði í ræðum forustumanna og í sérstökum loforðum, sem nemendum skólanna hafa verið gefin. Hæstv. ráðh. taldi það forsendu þess, að skólafólk fengi atvinnu, að hér væri ekki almennt atvinnuleysi meðal launafólks og það er vissulega rétt. En það ástand, að atvinnuleysi sé á Íslandi, hefur staðið allt of lengi og er hæstv. ríkisstj. til fullkominnar minnkunar. Þau loforð, sem hæstv. ríkisstj. gaf í janúarmánuði um að uppræta atvinnuleysi á skömmum tíma og sett var upp sérstakt kerfi í því sambandi, sem mikið var gumað af, hafa ekki enn þá borið fullan árangur. Seinast, þegar birtar voru tölur fyrir landið allt, voru atvinnuleysingjar á þriðja þúsund og mér er fullkunnugt um það, að atvinnuleysingjahópurinn er enn tilfinnanlega mikill hér í Reykjavík og víðar. Þannig er full hætta á því, að það verði hópur atvinnuleysingja á Íslandi, þegar við bætast 8.000 vinnufærra unglinga úr skólunum. Og hæstv. ríkisstj. hefur ekkert gert að því er hæstv. ráðh. upplýsti til þess að bæta úr þessu ástandi.

Hann vék að vísu að því, að Reykjavíkurborg ætlaði að framkvæma könnun og hann lofaði því, að hæstv. ríkisstj. mundi fylgjast með þessari könnun. Þakka skyldi henni. En þetta vandamál nær ekki aðeins til Reykjavíkur. Það nær til landsins alls. Allir, sem eitthvað fylgjast með ástandinu í framhaldsskólum á Íslandi, vita, að vandamál nemenda úti um land eru enn þá stórfelldari, vegna þess að kostnaður þeirra við nám, sem þeir verða yfirleitt að sækja til þéttbýlisins, er miklum mun meiri. Auðvitað er ekki hægt að ætlast til þess, að 8.000 menn geti fengið fulla atvinnu á almennum vinnumarkaði, án þess að gerðar séu einhverjar skipulagsbundnar ráðstafanir. Það liggur í augum uppi. Sá tími er liðinn, að atvinnuhættir okkar séu þess eðlis, að við séum algerlega háðir sveiflum, vertíðarsveiflum og sveiflum í aðalatvinnuvegum okkar. Atvinnan er orðið miklu samfelldari en hún var. En ef við ætlum að haga atvinnulífi okkar þannig, að hér geti verið full atvinna að sumri til fyrir allt að 8 þús. manns aukalega, þá verður að undirbúa það, það verður að skipuleggja það, það verður að gera ráðstafanir af hálfu hæstv. ríkisstj. Og það er í sjálfu sér algerlega óþolandi, bæði fyrir Alþ. og fyrir þjóðina, að hæstv. ráðh. skuli leyfa sér það æ ofan í æ, að afgreiða stórmál eins og þetta með almennu orðagjálfri.

Þetta er mjög stórt vandamál, ekki aðeins fyrir þá 8.000 unglinga, sem þarna er um að ræða og fjölskyldur þeirra, heldur einnig fyrir alla framtíðarþróun hins íslenzka þjóðfélags. Mér finnst, að hæstv. félmrh. ætti að skilja það ýmsum öðrum betur, hverju máli það skiptir, að fólk úr alþýðustétt hafi tök á því að njóta þeirrar skólamenntunar, sem fæst í langskólakerfinu. Og það ætti að vera alveg sérstakt verkefni Alþfl. í ríkisstj. að tryggja, að gerðar séu raunhæfar ráðstafanir á þessu sviði. Hæstv. ráðh. er ekki sæmandi að koma hingað og hafa ekkert áþreifanlegt að segja um lausn þessa stórfellda vandamáls.