23.04.1969
Sameinað þing: 43. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 907 í D-deild Alþingistíðinda. (3963)

212. mál, sumaratvinna skólafólks

Fyrirspyrjandi (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forseta, að hann leyfir mér að segja nokkur orð. Það er aðeins til að bera af mér sakir. Það er ekki öldungis rétt, að ég hafi verið forgöngumaður um eitthvert nýmæli í þingstörfum. Þetta er í fyrsta skipti, sem ég ber fram fsp. af þessu tagi, þar sem efnið hefur áður verið komið í þáltill. Hv. þm. nefndi málefni fæðingardeildar Landsspítalans. Það mál bar þannig að, að ég bar fram fsp. og nokkrir þm. Framsfl. fluttu þáltill. sama daginn. Þeim var útbýtt samtímis. Síðan kom önnur þáltill. næsta dag á eftir. En þarna voru þm. aðeins að bregðast við erindi, sem borizt hafði frá kvennasamtökum. Þeir gerðu það hver á sinn hátt, en þeir voru hvorki að ræna hver frá öðrum né að hafast neitt annarlegt.

En ég gerði einnig grein fyrir því áðan, hvers vegna ég bar fram þessa fsp., enda þótt ég vissi ósköp vel, að hér lá fyrir þáltill. Ástæðan er sú, að í þessu máli er ekki nokkur ástæða til þess að samþykkja einhverja almenna áskorun á hæstv. ríkisstj. Hæstv. ríkisstj. hefur gefið bindandi loforð í þessu máli, og almenn áskorun frá Alþ. breytir þar engu um. Það, sem máli skiptir, er að fá að vita, hvað hæstv. ríkisstj. ætli að gera til þess að standa við loforð sín. Og ég held, að hv. þm. Jón Skaftason ætti að vera búinn að hafa af því alllanga reynslu, hvað hlýzt af því að flytja þáltill. um almenn efnisatriði. Til að mynda sýnir fundurinn á föstudaginn var, hvað gerist. Þm. þylja hér vafalaust ágætar framsöguræður fyrir till. sínum. Enginn ráðh. er viðstaddur. Því er ekki anzað, sem þeir segja, og síðan er umr. búin. En það, sem nú skiptir máli, var að yfirheyra hæstv. ríkisstj. og fá að vita, hvað hún ætlaði að gera. Og þau svör höfum við fengið. Þess vegna bar ég fram þessa fsp., en ekki vegna hins, að ég vildi ræna neinu máli frá þessum hv. þm. Enda er þetta ekkert einkamál hans. Þetta er sameiginlegt mál þeirra 8.000 unglinga, sem koma á vinnumarkaðinn í sumar, fjölskyldna þeirra og þjóðarinnar allrar. Það þarf sannarlega engan frumleika til þess að flytja slíkt mál á þingi. Þetta er vandamál, sem hver einasti Íslendingur þekkir.