30.04.1969
Sameinað þing: 45. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 917 í D-deild Alþingistíðinda. (3975)

283. mál, Kísilvegur

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Fsp. þessi er í fimm liðum.

1. liður: „Um hvaða heildarupphæð var samið við verktaka fyrir að leggja veg frá Laxamýri um Reykjahverfi og Hólasand til Reykjahlíðar?“

Heildarsamningur við Norðurverk h.f. var 33 millj. 884 þús. kr. Innan ramma samnings bar verktaka að leggja 42.5 km langan veg frá Laxamýri um Reykjahverfi og Hólasand að Grímsstöðum og var þar innifalinn allur kostnaður við undirbyggingu, yfirbyggingu, frágang og snyrtingu kanta, girðingar, tengingar við eldri heimreiðar, ræsi o.fl., en samkv. útboði og verksamningi lagði verkkaupi til allt efni í ræsi, stálræsi og stálboga, en verktaki sá um uppsetningu þeirra og frágang.

2. liður: „Hve mikið hefur þegar verið greitt til verktaka, og hve mikið vegna annars kostnaðar?“ Greiðslur til Norðurverks h. f. samkv. samningi: 33 millj. 271 þús. kr. á árinu 1968.

Þá er 3. liður: „Hve mikill kostnaður er nú talinn ógreiddur alls, og til verktaka?“

Frágangur og snyrting eru 333 þús., sem verður greitt á þessu ári, þar sem því var ekki lokið á fyrra ári. Verðbreytingar, sem orðið hafa 2 millj. 476 þús. Viðbótarverk utan samnings 680 þús. Dagsektir, sem dragast frá þessu, nema 169 þús. kr. Annar kostnaður, þ.e. söluskattur og aðstöðugjald, 1 millj. og 7 þús. kr. Lagning vegarkaflans Grímsstaðir–Bjarnarflag o.fl. 7 millj. og 600 þús. Hönnun og eftirlit 1 millj. 683 þús. Efni í ræsi, girðingar o.fl. 2 millj. 903 þús. Rafmagn, sími o.fl. 190 þús. Skaðabætur og landgræðsla 52 þús. Það er þessi annar kostnaður. Hefur þá kostnaður á árinu 1968 numið samtals 47 millj. 906 þús. kr. Eins og sjá má af þessu er þarna talsverð upphæð, sem var utan verksamnings og unnið af Vegagerðinni sjálfri.

Og þá er spurt að því, hvort komið hafi til greiðslu dagsekta af hendi verktaka og hve mikilla. Eins og ég las upp áðan, eru það 169 þús. kr.

5. liður: „Hefur verklýsingu verið breytt frá undirskrift samninga?" Í sambandi við dagsektina er rétt að taka fram, að samkv. verksamningi bar verktökum að skila verkinu 15. okt. 1968, en höfðu fengið 5 daga frest samkv. almennum skilmálum verksamnings, þannig að 20. okt. var hinn raunverulegi skiladagur. Þann 16. okt. var samkomulag gert við verktaka, um að dagsektir skyldu miðaðar við, að verktaki skili verkinu þannig, að öllu væri lokið nema frágangi og snyrtingu, en á móti því komi breyting á snjóþungum stað á veginum, sem að áliti Vegagerðarinnar var meira aðkallandi að láta framkvæma fyrir veturinn en snyrtinguna, en hún nam minna en 1% af samningsupphæð og vegurinn kom að fullum notum. Ekki tókst að ljúka verkinu á tilskildum tíma og fékk verktaki dagsektir fyrir 10 daga, eða sem nam 169 þús. kr. Frá því að samningur var undirritaður hafa þær breytingar orðið, að samþ. var að taka sértilboði Norðurverks h.f. í hörpun efnis í slitlag, 15 cm í Reykjahverfi og 10 cm á Hólasandi. Þetta hækkaði heildarupphæð nokkuð, en sértilboð Norðurverks var sérstaklega hagstætt, 30 kr. pr. m3, miðað við önnur, því að næsta tilboð var rúmlega 80% hærra eða 55 kr. pr. m3. Þetta er í sambandi við þá sérsamninga, sem gerðir hafa verið síðar.

Samkv. samningi átti verktaki að sjá um girðingar, vinnu og efni, en síðar var sú breyting gerð á samningnum, að verkkaupi lagði til efnið og við það lækkaði samningsupphæðin um 400 þús. kr. Á nokkrum stöðum var veghæð breytt frá því, sem upphaflega var ætlað, en þær breytingar hafa ekki haft neinar verulegar breytingar á heildarkostnaði verksins í för með sér. Af þessu má sjá, að þær breytingar, sem gerðar hafa verið, eru ekki á verklýsingu, heldur í verksamningi.

Vænti ég, að þetta séu talin fullnægjandi svör.