30.04.1969
Sameinað þing: 45. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 919 í D-deild Alþingistíðinda. (3981)

284. mál, smíði skuttogara

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég hygg, að í eftirfarandi orðum séu svör við þeim spurningum, sem hv. fyrirspyrjandi hefur þegar gert grein fyrir, en þær upplýsingar, sem ég hef getað aflað mér, eru í fæstum orðum þessar:

Skuttogaranefnd hefur samþ. fullnaðarteikningar af fyrirkomulagi á skuttogara um 800 rúmlestir að stærð. Verklýsing verður tilbúin að sögn n. í næstu viku og því ekkert þá til fyrirstöðu að bjóða skipið eða skipin út í síðari hluta maí mánaðar. Gerð verður krafa til væntanlegrar skipasmíðastöðvar, sem smíða mun skipið, að framkvæma tanktilraunir og skrúfutilraunir, svo og aðrar tæknilegar tilraunir varðandi byggingu skipsins.

Enn hafa ekki verið gerðar ráðstafanir til að tryggja lánsfé til að smíða skuttogara innanlands, umfram það, sem þegar hefur verið lögfest um skipasmíðastöðvar almennt. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um fjárhagslega fyrirgreiðslu til handa væntanlegum kaupendum, enda málið ekki ennþá komið á það stig, að það sé tímabært.