07.05.1969
Sameinað þing: 47. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 920 í D-deild Alþingistíðinda. (3986)

224. mál, fréttastofa sjónvarps

Fyrirspyrjandi (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Sjónvarpið hefur nú starfað um alllangt skeið og er að fá á sig fasta mynd. Sá liður sjónvarpsdagskrár, sem mestu máli skiptir, er að sjálfsögðu fréttirnar. Í vali frétta felst mat á því, sem annars vegar er talið mikilvægt og hins vegar ekki frásagnarvert og í meðferð frétta felst oft leiðsögn um það, hvernig dæma á um atburði. Áður, en ég geri grein fyrir fsp. minni um það, eftir hvaða reglum fréttastofa sjónvarpsins fari, þykir mér rétt að skýra frá því, að ég tel, að starfsmenn fréttastofunnar hafi náð mjög góðu valdi á allri frásagnartækni sinni. Þeir hafa oft sýnt mikinn dugnað og áhuga og kunnáttu í störfum. Mér þykir rétt að taka þetta fram vegna þess, að það er mikill siður hérlendis að afgreiða málefnalega gagnrýni sem persónulega eða jafnvel pólitíska árás. Ég er hér ekki að ræða um verðleika einstaklinga, heldur um reglur.

Erlent fréttamyndaefni sjónvarpsins er að langmestu leyti fengið frá Bandaríkjunum og Bretlandi. Því eru það engilsaxnesk viðhorf, brezk–bandarísk, sem eru mjög ríkjandi í fréttum sjónvarpsins, jafnt í vali á fréttnæmu efni sem í mati. Þetta þrengir erlent fréttasvið sjónvarpsins mjög mikið. Mér þykir það til að mynda mjög furðulegt, að ekki virðist vera um að ræða nein hliðstæð fréttamynda sambönd við Norðurlönd, enda þótt samvinna við Norðurlandastöðvar ætti að geta auðveldað okkur sjálfstæða meðferð á alþjóðlegum fréttum. Í þessu sambandi hefur mér einnig þótt furðulegt, hversu greiðan aðgang Upplýsingaþjónusta Bandaríkjanna virðist eiga að fréttum sjónvarpsins. Þaðan kemur að staðaldri mjög mikið efni, til að mynda um árásarhernað Bandaríkjanna í Vietnam. Og ég vil spyrja hæstv. menntmrh., hvort ástæðan sé e.t.v. sú, að Bandaríkjamenn bjóði slíkar myndir ókeypis, hvort e.t.v. sé hægt að kaupa áróðursmyndir inn í sjónvarpið á þennan hátt?

Þó tekur út yfir, af hvílíkum ákafa fréttastofa sjónvarpsins stundar áróður í þágu Atlantshafsbandalagsins. Fari íslenzkur ráðh. á fund í því bandalagi, er hann venjulega eltur með sjónvarpsvél á lofti og frásagnir af starfsemi bandalagsins eru ævinlega einhliða, engar tilraunir gerðar til sjálfstæðs mats eða gagnrýni, sem margir verða til þess að orða austan hafs og vestan. Sem dæmi skal ég nefna mynd, sem sýnd var í sjónvarpinu í fyrrakvöld og matreidd af fréttastofu sjónvarpsins, þótt hún væri sýnd utan venjulegs fréttatíma. Þetta var barnaleg, lágkúruleg áróðursmynd, samin á vegum Atlantshafsbandalagsins sjálfs, þessum hernaðarsamtökum til dýrðar og mjög fjarri því að geta flokkazt undir nokkra tegund óhlutdrægni. Aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu er deilumál á Íslandi, og í fréttafrásögnum um það pólitíska ágreiningsmál ber sjónvarpinu að ástunda óhlutdrægni.

Í innlendum stjórnmálafréttum sjónvarpsins hefur það frá upphafi vakið athygli, að fréttastofan er ákaflega höll undir hæstv. ríkisstj. Ráðh. hafa átt margfalt greiðari aðgang að fréttunum, en nokkrir aðrir menn. Hafa þessi annarlegu forréttindi ráðh. oft borið mjög sterkan svip af hlutdrægni. Mér nægir að taka eitt dæmi úr fréttunum í gærkvöldi.

Að undanförnu hefur verið rætt hér á þingi um málefni Kísilgúrverksmiðjunnar og í því sambandi hefur verið greint frá málsatvikum, sem ég tel vera stórfellt hneyksli og ákaflega lærdómsríkt. Í umr. hér á þingi hafa hv. alþm. Einar Ágústsson, Sveinn Guðmundsson og Þórarinn Þórarinsson flutt vel rökstuddar og málefnalegar ræður um þetta efni, en tveir hæstv. ráðh. verið í vörn. Í fréttum sjónvarpsins í gær voru gripin atriði úr gagnrýni þessara hv. þm., án þess þó að þeir væru nafngreindir. En hæstv. fjmrh. mætti á staðnum og bar jafnharðan af sér alla gagnrýni. Heildaráhrifin urðu þau, að einhverjir huldumenn hefðu haft uppi ástæðulausar getsakir, en ráðh. stæði með pálmann í höndum. Slík þjónusta við ráðh. og ríkisstj. brýtur í bága við allar hugmyndir um frjálsa og eðlilega fréttaþjónustu. Ráðamönnum hættir ævinlega til að misbeita þjóðfélagslegu valdi sínu og fréttastofur hljóðvarps og sjónvarps þurfa að vera sérstaklega á varðbergi til þess að láta ekki nota sig á þann hátt.

Í þessu sambandi vil ég vekja athygli á þeirri furðulegu staðreynd, að fréttastofa sjónvarps hefur ekki gert neina tilraun til þess að flytja samfelldar fréttir frá Alþ. Frásagnir frá þessari virðulegu stofnun hafa verið tilviljunarkenndar og meginreglan verið sú, að helzt mættu orð ráðh. teljast fréttnæm. Í grannlöndum okkar sinna fréttastofur sjónvarps mjög frásögnum frá þjóðþingum og þykja þær mjög gott sjónvarpsefni. Er algerlega fráleitt, að það verkefni skuli ekki vera rækt hér. Ég vil í þessu sambandi taka skýrt fram, að ég er ekki að fara fram á, að settar verði á svið þessar hvimleiðu gerviumr., sem tíðkast í hljóðvarpi, heldur lifandi frétta frásagnir af þeim þingstörfum og umr., sem almenningur kann að hafa áhuga á, unnar af fréttamönnum sjónvarpsins sjálfs. Ég held, að þess sé mikil þörf, að tengslin milli þings og þjóðar verði aukin og sjónvarpið gæti stuðlað mjög að því.

Að svo mæltu leyfi ég mér að vænta þess, að hæstv. menntmrh. geri grein fyrir þeim reglum, sem fylgt er á fréttastofu sjónvarpsins.