20.12.1968
Sameinað þing: 25. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 527 í B-deild Alþingistíðinda. (399)

1. mál, fjárlög 1969

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að tala fyrir neinni brtt. við þessi fjárlög, og ég vona, að mínu máli verði kannske betur tekið fyrir það, að ég er ekki með neinar kröfur á ríkissjóðinn. Það er kannske óvenjulegt að vera að taka til máls við fjárlagaumr. og vera ekki með neina útgjaldakröfu. Ég ætla að prófa þetta einu sinni, hvort það gefst ekki nokkuð vel.

Eins og hv. þm. er kunnugt, hafa fjárlög komið fram í nýjum búningi tvö s.l. ár. Þessi búningur á fjárl. og fjárlagafrv. er mjög óvenjulegur og nýstárlegur, en að sjálfsögðu er hann í samræmi við nýlega afgreidd bókhaldslög, geri ég ráð fyrir. Ég efast ekki um, að þetta er allt rétt úr garði gert miðað við þá löggjöf og hef ekkert við það að athuga út af fyrir sig. En mér finnst samt, að þessi bók, fjárlögin, sé ekki eins aðgengileg og hún þyrfti að vera fyrir allan almenning a.m.k., svo ekki sé meira sagt. Ég held, að hún sé m.a.s. óaðgengilegri fyrir alla almenna menn en aðrar bækur, sem koma út á þessu landi, miðað við notkun. Það er ákaflega erfitt finnst mér að finna þær upplýsingar í þessari bók, sem menn vilja leita að. Ef fletta þarf upp í þessari bók, þarf að leita í tveimur eða þremur köflum hennar a.m.k. að sama hlutnum. Og það, sem verra er, menn vita yfirleitt ekkert, hvar á að leita, ef menn eru að afla sér upplýsinga um einhverjar sérstakar fjárveitingar. Mér finnst, að svona merk handbók eins og fjárlög þurfi að vera þannig úr garði gerð, að það geti allir notað hana hvenær sem er og hvar sem er með því að fletta upp, ekki síður en ef menn fletta t.d. upp markaskrá eða símaskrá eða ættartölubók, þannig að maður sé fljótur að finna þá hluti, sem þar er um að ræða. Ég hef þráfaldlega rekið mig á það, að menn eiga ákaflega erfitt með þetta, og jafnvel bara reyndir þm. eru lengi að finna þetta. Það er sagt, í enn þá merkari bók: Leitið og þér munuð finna. Ég held, að það sé alveg óhætt að segja um fjárl.: Leitið og þér munuð verða lengi að finna. Vægast sagt held ég, að með réttu megi segja þetta.

Nú eru það tilmæli mín til hæstv. fjmrh., að hann láti prenta, hversu lengi sem hann kann að vera fjmrh., nákvæmt efnisyfirlit yfir fjárl., rétt eins og gerist um ýmsar aðrar bækur, efnisyfirlit, sem getur verið það leiðbeinandi, að menn eigi ósköp auðvelt með, hvort sem þeir eru lærðir eða leikir, að fletta upp í þessari ágætu bók og að sama verði látið gilda um fjárlagafrv. þessa árs. Ég vona, að þetta kosti ekki ýkja mikið, en þetta verði til mikils hægðarauka fyrir menn, hvar sem er, því að fjárl. þurfa að vera þannig úr garði gerð, að allir geti notfært sér þau óundirbúnir og án þess að fara á nokkurt námskeið til þess að fletta þarna upp. Nú þætti mér vænt um, að hæstv. fjmrh. vildi láta skoðun sína í ljós á því, hvort hann teldi þetta nokkurn óþarfa og hvort hann treysti sér ekki til að láta gera þetta.