07.05.1969
Sameinað þing: 47. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 936 í D-deild Alþingistíðinda. (3995)

224. mál, fréttastofa sjónvarps

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég horfi ekki að staðaldri á sjónvarp og hafði alls ekki ætlað mér að leggja orð í belg. En ég get þó ekki orða bundizt og ekki stillt mig um að vekja athygli á einu atriði, sem hefur komið fram í þessum umr.

Ég verð að segja, að ég varð fyrir ákaflega miklum vonbrigðum við að hlýða á skýrslu hæstv. ráðh., sem mér skildist á hans inngangsorðum, að mundi afsanna allan orðróm um alla mismunun í fréttaflutningi sjónvarps, fyrst og fremst af stjórnmálum. Þar kom það fram, að í fyrsta lagi hefðu verið 16 viðtöl við hæstv. ráðh. á umræddu tímabili. Í öðru lagi, að 34 sinnum hefðu verið sagðar fréttir af Alþ., ég punktaði þetta niður hjá mér, um leið og hæstv. ráðh. las skýrsluna og ég get ekki betur séð, en frekar 22 en 20 af þessum 34 fréttum séu af málefnum ríkisstj. Og nokkuð af hinum 12 eða 14 alls ekki einhliða frá hinni hliðinni, heldur meiri hlutinn af því viðtöl við fulltrúa frá fleiri flokkum saman.

Eftir því sem ég hef fylgzt með þessum málum, skal ég að vísu játa það, að ég óttaðist, að ekki væri gætt jafnvægis í frásögnum og fréttaflutningi sjónvarps frá því, sem gerist hér á hv. Alþ., ekki gætt jafnvægis á milli stjórnarliðs og stjórnarandstöðu, en ég hafði ekki ímyndað mér, að hlutföllin væru svona, eins og fram hefur komið í skýrslu hæstv. ráðh. En samt sem áður, í lok sinnar tölu fullyrti hæstv. ráðh. alveg blákalt, að skýrslan bæri ótvíræðan vott um það, að hér væri gætt fyllstu óhlutdrægni og jafnvægi ríkti í fréttaflutningi héðan frá Alþ.! Mér urðu þetta, eins og ég sagði áðan, mikil vonbrigði, bæði skýrslan sjálf og eins þessi ummæli hæstv. ráðh. og ég vildi láta þetta koma hér fram.