07.05.1969
Sameinað þing: 47. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 939 í D-deild Alþingistíðinda. (3998)

224. mál, fréttastofa sjónvarps

Jónas Jónsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að tala lengi né heldur reyna svo mjög á kímnigáfu eða skort á kímnigáfu hjá hæstv. menntmrh., aðeins benda á, að það, sem hv. 2. þm. Reykn. var að tala um, var fréttamat hjá fréttamönnum sjónvarpsins, það skildi ég út úr hans skemmtilegu frásögn.

En það, sem ég ætlaði að minnast á hérna, er þetta: Það hefur verið bent á þessi 16 skipti, sem ráðh. hafa komið fram. Það mætti spyrja, hve oft hefði þá verið ástæða til, að andstæðingarnir eða þeir, sem voru á annarri skoðun um þessi væntanlega mikilvægu mál, hefðu fengið að koma með sín sjónarmið fram.

Það hefur verið rakið, að í þessi 34 skipti, sem fréttir frá Alþ. hafa komið, muni stjórn eða ráðh. oftast hafa verið aðalefnið, en jafnvel þó að tilefnið hafi komið frá öðrum, þ.e. í þessi 12 skipti, sem eftir voru, þá hefur farið þannig í fréttunum, að það befur meira verið getið um þeirra hlut, en annarra og langar mig til að rekja lítið dæmi því til sönnunar.

Það var minnzt á fsp., sem ég bar fram um dreifingu sjónvarps. Hennar var getið í sjónvarpinu. Get ég sjálfsagt þakkað fyrir það. En þar var lesin skýrsla ráðh. yfir það, hvernig dreifing sjónvarps gengi og eftir henni mátti ætla, að ráðh. eða stjórninni tækist þar að standa við gefin loforð. Nú var um það deilt í þessum umr. og ég hélt því fram, að þetta væri ekki rétt, að ekki væri hægt að standa við gefið loforð. Látum það vera, hver hafði rétt fyrir sér, en þess var ekki getið, að önnur sjónarmið hefðu komið fram. Þess vegna hlutu allir sjónvarpsáhorfendur að fara frá skerminum með þá hugmynd, að annað hefði ekki komið í ljós og ráðh. hefði þarna staðið með pálmann í höndunum, hann stæði við öll sín loforð. Þetta tel ég dæmi um einhliða fréttaflutning og rangt fréttamat.

Það má auðvitað margt um þessi mál segja. Mig langar aðeins til þess að spyrja um eitt atriði, það kemur þessu máli kannske lítið við, en virðist þó vera dæmi um fréttamat hjá stofnuninni í heild: Var eðlilegt, að tveir fréttamenn færu frá stofnuninni til Bandaríkjanna í sambandi við 20 ára afmæli NATO til að flytja mönnum fréttir þaðan og virðist mönnum, að uppskeran af þeirri för sé öll í samræmi við óhlutdrægni?