20.12.1968
Sameinað þing: 25. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 529 í B-deild Alþingistíðinda. (400)

1. mál, fjárlög 1969

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég þarf að fara dálítinn krók til þess að komast í ræðustólinn. Ég kann illa við að fara á bak við hæstv. ráðh. og aðra þm. einnig, enda er það torfarin leið. Það er svo þröngt hér.

Ég ætla að byrja á því að vekja athygli hv. þm. á brtt. á þskj. 216, sem við flytjum 4 þm. Framsfl. Till. er um það að bæta einni heimild inn í fjárl., og ég ætla með leyfi hæstv. forseta að lesa þessa till. Hún er þannig:

„Að taka lán til raforkuframkvæmda eftir því, sem þörf krefur, til þess að Rafmagnsveitur ríkisins geti lagt raflínur á árunum 1969 og 1970 til allra heimila, sem ekki hafa rafmagn frá samveitum á þeim svæðum, þar sem meðallínulengd milli býla er 2 km eða styttri.“

Ég vænti þess, að þessari viðbót við heimildargr. verði vel tekið. Það er sannarlega kominn tími til að ljúka þessu nauðsynjaverki, að leggja rafmagn um þessi svæði landsins, og þótt fyrr hefði verið.

Ég hlusta oft á morgnana á forystugreinar dagblaðanna í útvarpinu. Núna alveg nýlega heyrði ég upp lesna slíka grein úr einu af blöðum stjórnarflokkanna. Þar var skrifað um fjárl., sem nú ætti að fara að ganga frá. Og höfundur greinarinnar nefndi þau sparnaðarfjárlög. Þar var ríkisstj. og hennar flokkum hælt á hvert reipi fyrir þessi sparnaðarfjárlög. Annaðhvort er höfundur þessarar forystugreinar mikill og ágætur háðfugl eða hann er ákaflega fáfróður um fjármál.

Fyrir tveimur dögum var rætt hér í hv. Nd. allmikið um framlög til skólabygginga. Hæstv. menntmrh. flutti þá margar ræður og bar sig borginmannlega. Í flestum eða öllum ræðunum nefndi hann eina upphæð, 33.1 millj. kr., sem hann sagði, að nú ætti að verja til nýrra skólabygginga. Hann var mjög hreykinn sem sagt og taldi sig hafa staðið sig afburðavel í sinni stöðu sem kennslumálaráðh. Út af þessu langar mig að gera dálítinn samanburð á framlögum til skólabygginga nú og fyrr.

Á fjárlögum ársins 1957, en það var fyrsta heila árið, sem hæstv. núv. menntmrh. gegndi þeirri stöðu, voru framlög til skólabygginga 16 millj. 575 þús. kr. Þá voru heildargjöld á sjóðsyfirliti hjá ríkissjóði 810 millj. Það voru því 2.04% af heildarútgjöldum ríkisins, sem fóru til skólabygginga á því ári. En hvernig er þetta núna? Ef ég reikna með því, að allar brtt. meiri hl. fjvn. verði samþ., telst mér svo til, að framlögin til skólabygginga á næsta ári verði á fjárl. 155 millj. 293 þús. En nú eru heildargreiðslur samkv. fjárlagafrv. eða verða, eftir að till. meiri hl. fjvn. hafa verið samþ., 7090 millj.

Þá reiknast mér svo til, að af þessari heildarupphæð fari til skólabygginga 2.19%. Á 12 árum, sem hæstv. menntmrh. hefur setið í þeirri stöðu, hafa þannig þessar greiðslur hækkað um 0.15% miðað við heildarupphæð fjárl., eða að meðaltali á ári um 0.012%, 0.012% að meðaltali. Ekki er nú hærra risið á karli en þetta.

Þó held ég, að frammistaða hans í viðskiptamálunum, sem hann stjórnar einnig, sé enn þá slappari. Undir hans stjórn á þeim málum er þjóðin sokkin í botnlaust skuldafen í öðrum löndum. Ekki verður séð, hvenær eða hvernig Íslendingar hafa sig upp úr því feni. Ákaflega mikið af þessu lánsfé hefur farið með mörgu móti í óþarfaeyðslu. Ég held, að hæstv. menntmrh. sé mál á því að fara að hvíla sig og hefði þurft þess fyrir löngu. Mér þykir verst, að ég sé hann ekki hér. Kannske hann sé farinn að hvíla sig? Hæstv. menntmrh. er enn á góðum aldri og gæti unnið eitthvað gagnlegt utan stjórnarráðsins. Hann gæti t.d. farið að fást meira en áður við tónsmíðar, en það er allmikill partur af tónskáldi í honum. Þess hafa menn orðið varir. Og hann gæti fengizt við fleira. Ég held, að ég muni það rétt, að fyrir fáum árum hafi hann skrifað grein í blað sitt, Alþýðublaðið, um skemmtiiðnaðinn hér á landi og getið um það, sem rétt var, að hann væri að blómgast. Líklega er þetta eina iðngreinin, skemmtiiðnaðurinn, sem hefur getað þrifizt í tíð núverandi stjórnar. Og mér sýnist, að hæstv. menntmrh. gæti orðið athafnasamur iðnrekandi á þessu sviði. Hann hefur ótvíræða hæfileika til þess. Sem dæmi vil ég nefna, að hann er löngu þjóðfrægur fyrir skemmtiþætti um landbúnaðarmál í samkunduhúsum kaupmanna. Við hér á Alþ. þekkjum allir margar skemmtiræður hans hér á þingi. Enn vil ég nefna eitt dæmi, sem sýnir hans hæfileika á þessu sviði. Mér er sagt, að í vetur hafi hann farið suður í Háskóla þeirra erinda að flytja þar fræðandi fyrirlestur, og það heyrði ég, að það hafi verið til þess ætlazt, að þessi fyrirlestur væri um stjórnmálaflokkana, þá trúlega einkum um Alþfl. og hans náttúrur, enda var þessi maður þá nýlega orðinn formaður Alþfl. Þetta gekk bara vel. Eftir að hæstv. ráðh. hafði flutt mál sitt drykklanga stund, fóru áheyrendur að hlæja. En þá gerðist það, að fyrirlesturinn fór út um þúfur, en yfirmaður menntamála á Íslandi fór að sýna fimleika. Hann stökk upp á nef sér, og það tókst með ágætum, en þá hlógu stúdentarnir í Háskólanum enn þá meira.

Skömmu eftir að núv. ríkisstj. hóf göngu sína um áramótin 1959–60 lagði hún fram á Alþ. frv. til I. um efnahagsmál. Hún birti, eins og venja er til aths. með því frv. sínu. Hún lét prenta það á bók og dreifa henni um landið. Þar stóð m.a., að ríkisstj. teldi það höfuðverkefni sitt að koma atvinnuvegum landsmanna á traustan og heilbrigðan grundvöll. Og aðalatriðið í þessu frv. hennar um efnahagsmál, sem var gert að l. þá á þinginu, var stórfelld gengislækkun, því að með þessu átti nú þessi grundvöllur að vera skapaður. En eitthvað fleira þurfti þó til að koma, þegar tímar liðu. Á næsta ári varð gengislækkun hennar nr. 2. En hún þurfti bráðlega til viðbótar þessum gengisfellingum að fá nokkra aura til grundvallargerðarinnar. Á Alþ. 1963 var til meðferðar stjfrv. um ráðstafanir vegna sjávarútvegsins. Þetta var samþykkt í janúar 1964. Útgjöld ríkissjóðs í sambandi við það voru talin 128 millj.: Á Alþ. 1964 kemur enn frv. um ráðstafanir vegna sjávarútvegsins, afgr. sem lög í apríl, 1965, útgjöld ríkissjóðs talin vera 55 millj. Næst kemur Alþ. 1965. Þá leggur stjórnin enn fyrir frv. um ráðstafanir vegna sjávarútvegsins, og það var afgr. í apríl 1966, framlög ríkissjóðs áætluð rúmar 80 millj. Við umræður um það mál gerðist hér stórmerkilegur og dularfullur fyrirburður eða fyrirbrigði. Hæstv. menntmrh., dr. Gylfi, talaði ekki. Alþingi 1966. Enn er frv. á ferð vegna sjávarútvegsins, allt til að skapa grunninn þann heilbrigða. Það var samþ. í marz 1967. Talið var, að það hefði í för með sér 310–320 millj. kr. útgjöld fyrir ríkissjóð. Mönnum er nú í fersku minni það, sem hefur gerzt síðan. 1967 kom þriðja gengisfellingin, og eitthvað kom svo upp úr áramótunum síðustu. Og nú í nóvember var gengi krónunnar lækkað í fjórða sinn og lagt fyrir þingið frv. um ráðstafanir vegna nýs gengis. Frsm. þess var hæstv. forsrh., dr. Bjarni. Einnig talaði hæstv. menntmrh. að sjálfsögðu og sagði þá m.a.: „Enginn vafi á að vera á því, að í kjölfar þessara ráðstafana færist nýtt líf í sjávarútveg og iðnað.“ Og enn fremur: „Gengisbreytingin er grundvöllur, nauðsynlegur grundvöllur alhliða uppbyggingar atvinnulífs og aukinnar reksturshagkvæmni á öllum sviðum.“ Jahá, þarna er enn verið að fást við það að byggja þennan grundvöll, sem átti nú að hafa verið gert snemma árs 1960.

Þannig hefur þetta gengið þessi árin. Þeir hafa alltaf verið að hlaða grunninn, en verklagið hefur verið þannig, að hleðslurnar hafa alltaf dottið ofan á lappirnar á þeim jafnóðum, svo að nú er enginn grunnur til enn eftir 9 ára strit og puð. Þeir hafa unnið sér þetta erfitt, og þannig er það oft um klaufvirka menn, að þeim verða störfin erfið. Hæstv. ráðh. eru því móðir og þreyttir og sveittir eftir alla grundvallargerðina, sem engin hefur orðið, og þeim er mál á hvíld og hressingu. Nú vill svo heppilega til fyrir þá, að eina varan, eina ódýra varan, sem fæst í sölubúðum hér á landi, mun vera ráðherrabrennivínið í Áfengisverzlun ríkisins, enda er þessu svo haganlega fyrir komið, að þar ákveða kaupendur sjálfir prísinn, og þar er engin þörf á verðlagseftirliti til að halda verðinu niðri. Ég held, þegar þeir eru búnir að hressa sig og hvíla yfir jólahátíðina, að það væri skynsamlegast af þeim að hverfa frá stjórnarstörfum. Það er nú ekki þá eina um að saka, að þeir hafa verið þarna miklu lengur en þeir hefðu átt að vera. Það er náttúrlega mikil sök, sem hvílir á stuðningsmönnum þeirra á Alþ. Þeir áttu að hafa vit fyrir þeim, úr því að þeir höfðu það ekki sjálfir, og víkja þeim frá þessari grunnhleðslu fyrir lifandi löngu, því að allir sáu það, að það var ekkert gagn að þessu, ekki nokkurt.

Ég vildi nú að lokum mælast til þess við þá, að þeir kæmu ekki aftur í stjórnarráðið úr jólafríinu. En kannske er nú það til of mikils mælzt.