07.05.1969
Sameinað þing: 47. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 940 í D-deild Alþingistíðinda. (4001)

236. mál, verðlagsmál

Fyrirspyrjandi (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Í rauninni er hér um tvær sjálfstæðar fsp. að ræða og hefði sennilega verið formlegra að flytja þær sitt í hvoru lagi. Til þess að spara tíma, þar sem óðum dregur nú að þinglokum, varð samt niðurstaðan að bera þær fram sameiginlega.

Fyrri fsp. fjallar um framkvæmd þeirra álagningarhafta, sem nú er beitt. Í meginlögunum um verðlagsmál, sem eru frá 1960, segir á þá leið, að verðlagsákvarðanir allar skuli miðaðar við þörf þeirra fyrirtækja, sem hafa vel skipulagðan og hagkvæman rekstur. Í tilefni af því, að í gildi voru sérstök verðlagsákvæði í þágildandi l. um efnahagsmál, beindi ég þeirri fsp. til hæstv. viðskrh. á vorþinginu 1960, hvort það væri ekki ætlun ríkisstj. að fara eftir áður greindu ákvæði, að verðlagsákvarðanir allar skuli miðaðar við þörf þeirra fyrirtækja, sem hafa vel skipulagðan og hagkvæman rekstur. Hæstv. viðskmrh. svaraði þessari fsp. eindregið játandi.

Fyrri fsp., sem hér er til umr., fjallar um það, hvort fulltrúi ríkisstj., sem jafnframt er oddamaður í verðlagsn., fylgi ekki þessu ákvæði l. frá 1960. Fsp. er borin fram vegna þess, að því er nú haldið fram, jafnt af einkaverzlunum sem samvinnuverzlunum, að álagningin sé ákveðin lægri en l. mæla fyrir um. Ég hef ekki séð þessu mótmælt af fulltrúa ríkisstj. í verðlagsn., sem raunverulega hefur álagningarvaldið í hendi sinni. Þvert á móti mun hann hafa sagt, að erfitt eða jafnvel útilokað sé að reka verzlun hallalaust með óbreyttum álagningarreglum. Séu þessar fullyrðingar réttar, er hér farið inn á mjög varhugaverða braut. Sú hætta er ekki minnst, að verzlunin telji sig neydda til að komast hjá hallarekstri með því að selja dýrari vörur en ella, því að þær gefa meira í álagningu, en ódýrari vörur. Álagningarhöft, sem leiða til slíkrar öfug þróunar, geta í reynd orðið neytendum meira til óhags en gagns. Þess vegna er það engum til ávinnings, ef ríkisstj. lætur fulltrúa sinn í verðlagsnefndinni beita oddavaldi sínu þannig, að brotið sé gegn áður nefndu ákvæði l. frá 1960.

Annars fylgir sú hætta yfirleitt langvarandi álagningarhöftum, að þau freisti verzlunarinnar til að selja dýrara, en ella, því að þannig fást mestar álagningartekjur. Þess vegna hefur það orðið niðurstaðan í öllum nágrannalöndum okkar að beita ekki álagningarhöftum nema undir sérstökum kringumstæðum um stuttan tíma, en treysta heldur á frjálsa verðmyndun og samkeppni kaupmanna og kaupfélaga. Hins vegar er í þessum löndum fylgzt með verðlagi og ekki sízt með hringamyndunum og samtökum, sem stefna að því að hindra frjálsa verðmyndun. Ríkisvaldið áskilur sér rétt til þess í sérstökum l. að grípa inn í og hindra slíka starfshætti, ef þörf krefur. Hæstv. ríkisstj. hefur marglofað því að beita sér fyrir slíkri lagasetningu og skipaði fyrir 2 árum sérstaka n. til að undirbúa frv. um eftirlit með einokun, hringamyndun og verðlagi. Sú n. mun hafa starfað í fyrstu, en langt hlé mun nú orðið á störfum hennar.

Síðari fsp. fjallar um það, hvenær megi vænta umrædds frv. frá hæstv. ríkisstjórn.