07.05.1969
Sameinað þing: 47. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 956 í D-deild Alþingistíðinda. (4011)

236. mál, verðlagsmál

Fyrirspyrjandi (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Ég skal ekki tefja þessar umr. lengi.

Í tilefni af því, sem hæstv. viðskrh. sagði, að hann bæri ekki ábyrgð á því ákvæði, sem felst í fyrri fsp. okkar, vil ég aðeins segja það, að þetta ákvæði er í l., sem voru samþ. á þingi 1960, vorið 1960 og frv. að þeim l. var lagt fyrir þingið af hæstv. núv. viðskrh. Ég skal ekki segja um það, hvort svipað ákvæði hafi verið sett fyrir löngu, það má vel vera, en hæstv. ráðh. hefur því aðeins látið það standa áfram í nýju l., að hann hefur verið búinn að sannfæra sig um það, að þetta ákvæði væri réttmætt og ætti að halda áfram. Ég hélt líka, að á árunum þar á undan, að svo miklu leyti sem verðlagsákvæðum var beitt, hafi verið reynt að fylgja fram þessu ákvæði og ég hygg, að það hafi verið þá gert með þeim hætti, að verzlunin hafi talið það miklu bærilegra, en framkvæmdina á þessum lagafyrirmælum nú.

Það, sem ég ætla hins vegar aðallega að segja hér að lokum, og ég skal ekki tefja tímann mikið, er það, að mér finnst það vera mikill misskilningur, þegar því er haldið fram, að það þurfi endilega að leiða til hærra verðlags, ef verðmyndunin er frjáls. Ég trúi því þvert á móti, að það muni með tímanum leiða til lægra og hagstæðara verðlags að hafa verzlunina frjálsa heldur en að fylgja fram ströngum álagningarhöftum. Þegar fylgt er fram ströngum álagningarhöftum eins og nú, þá er það hvatning til verzlunarinnar að gera óhagstæð innkaup, að selja dýrt, því að eftir því sem varan er dýrari, þá verður álagningin hærri og álagningartekjurnar meiri. Þegar verðmyndunin er frjáls, þá er það hvatning til kaupmannsins að reyna að fá vöruna sem ódýrasta og hagnast á því, þó að hann leggi nokkuð á hana, að selja hana ódýrari, en ella mundi verða, þegar álagningarhöftunum er beitt. Við skulum gera okkur grein fyrir því, að það er engin tilviljun, að löndin í kringum okkur, Norðurlönd, England, Þýzkaland og fleiri lönd, lönd, sem hafa mjög sterk launþegasamtök, þau hafa öll farið inn á þá braut að víkja frá ströngum álagningarhöftum og taka upp frjálsa verðmyndun og launþegar í þessum löndum, neytendur í þessum löndum, hefðu ekki sætt sig við þessa breytingu, nema þeir hefðu talið, að hin frjálsa verðmyndun væri heppilegri fyrir þá, heldur en það fyrirkomulag, sem áður var búið við. Ég tel, að það sé mjög mikilvægt fyrir verkalýðshreyfinguna og launþegasamtökin að glöggva sig á þessu atriði, alveg eins og slík samtök hafa gert í öllum löndum og þess vegna vil ég að lokum aðeins segja það, að ég mótmæli þeirri skoðun, að það þurfi að leiða til hærra verðlags og óhagstæðari afkomu fyrir neytendur, ef verðmyndunin er gefin frjáls.