07.05.1969
Sameinað þing: 47. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 960 í D-deild Alþingistíðinda. (4014)

236. mál, verðlagsmál

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Athugasemdin skal vera örstutt. — Ég lét þeirra ólíku skoðana, sem komu fram af hálfu stjórnarandstöðunnar, ekki getið hér vegna þess, að sú staðreynd ylli okkur í stjórninni andvökunóttum, heldur vildi aðeins vekja athygli á því, að skoðanir stjórnarandstöðunnar í þessu efni eru mjög ólíkar, eins og þær hafa komið fram við þessar umr. Ég dró þetta fram til þess að undirstrika það, að hér er um mikið og torleyst vandamál að ræða. Það er rétt hjá síðasta ræðumanni, að við erum löngu hættir að vera hissa á því, að stjórnarandstöðuflokkarnir eru ekki sammála. Það hefur þvert á móti einkennt núverandi stjórnarandstöðu, að þeir eru varla sammála um nokkurn skapaðan hlut, nema það að vera á móti ríkisstj. Í jafn mikilvægu máli og þessu koma fram gerólíkar skoðanir af hálfu aðalmálsvara stjórnarandstöðuflokkanna tveggja.

Málsvarar Framsfl. lýsa því yfir tveir a.m.k., að þeir séu fylgjandi alveg frjálsri álagningu, þ.e. afnámi allra verðlagsákvæða, það kom fram alveg skýrt af hálfu tveggja ræðumanna hér. Hins vegar er vitað, að það er mjög eindregin afstaða Alþb., sem annar fulltrúi talaði fyrir hér, að það telur, að með engu móti megi hækka núverandi verðlagsákvæði nokkurn skapaðan hlut nú á næsta skeiði. Þetta út af fyrir sig er kannske ekki svo undarlegt. Ég vildi þó vekja athygli á þessu, að þetta náttúrlega auðveldar ríkisstj. ekki að taka á slíku máli eins og þessu, þó að við auðvitað gætum gert það.

En ég vildi líka vekja athygli á hinu, að jafnvel innan Framsfl. eru mjög skiptar skoðanir um þetta. Ég þekki til skoðana framsóknarmanna, þær hafa komið fram opinberlega, sem eru algerlega andvígir því, að verðlagsákvæði séu afnumin, algerlega andvígir því. Ég veit ekki betur en þeir menn, sem fylgja Framsfl. að málum og eiga sæti í þeirri n., sem nú er að semja við vinnuveitendur, séu ekki síður harðir gegn afnámi verðlagsákvæða, en aðrir félagar þeirra í n., hvaða stjórnmálaflokki svo sem þeir fylgja og það vita allir, að þeir stjórnmálamenn hér á Alþ. og valdamenn í þjóðfélaginu, sem nú eru í nánustu samstarfi við Framsfl., en standa þó utan hans, þ.e. Björn Jónsson og Hannibal Valdimarsson, eru með hörðustu andstæðingum þess, að nokkuð sé hróflað við núverandi verðlagsákvæðum. Þeir hafa mikil áhrif í alþýðusamtökunum, forustumenn Alþýðusambandsins og annar fulltrúi þess í verðlagsnefndinni. Þjóðin veit öll, hverjar eru skoðanir Björns Jónssonar í þessum efnum. Eindregnari fylgismaður verðlagshafta er varla til og þetta er sá maður, sem Framsfl. hefur nánast samstarf við á stjórnmálasviðinu um þessar mundir. Hvað kemur út úr þessu, þessum skoðunum Framsfl. hér á þinginu og svo hins vegar skoðunum Björns Jónssonar, eins og hann lýsir þeim fyrir alþjóð? Geta menn náð saman, sem hafa svona gerólíkar skoðanir á stórum grundvallarvandamálum í þjóðmálum? Þetta eru staðreyndir, sem ég vildi bara vekja athygli á í sambandi við þessar umr., því að þær eru nokkur hluti skýringarinnar á því, hversu torleyst þetta mikla vandamál hefur reynzt núverandi stjórnarflokkum.