14.05.1969
Sameinað þing: 50. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 963 í D-deild Alþingistíðinda. (4020)

286. mál, sala á tækjum ríkisstofnana

Fyrirspyrjandi Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins þakka hæstv. ráðh. fyrir svör hans. Mér skilst samkv. þeim, að sú regla sé upp tekin, þegar um sölu á bifreiðum ríkisstofnana er að ræða, að þær séu auglýstar og hagstæðasta tilboði tekið og Innkaupastofnun ríkisins sjái um þá framkvæmd. Aftur á móti gildir ennþá engin almenn regla um sölu á öðrum tækjum og vélum ríkisstofnana, en það sé ætlun hæstv. ráðh., að hliðstæðri skipan verði komið á um sölu þeirra tækja og nú er á sölu bifreiða, þannig að það verði auglýst, þegar slík tæki eru til sölu og tekið hagstæðasta tilboði og Innkaupastofnun ríkisins sem einn aðili verði látin annast þetta starf. Ég vil aðeins segja, að ég tel, að með þessu sé stefnt í alveg rétta átt og vænti þess, að þetta fyrirkomulag komist á sem fyrst.