14.05.1969
Sameinað þing: 50. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 964 í D-deild Alþingistíðinda. (4024)

244. mál, lán og styrkir úr atvinnubótasjóði og atvinnujöfnunarsjóði

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Þar sem atvinnubótasjóður og síðan atvinnujöfnunarsjóður heyra undir fjmrn., fellur það í minn hlut að svara þessari fsp., sem sjálfsagt er að gera.

Spurt er: „Hvernig skiptast lán og styrkir atvinnubótasjóðs og atvinnujöfnunarsjóðs á einstök kjördæmi frá og með stofnun atvinnubótasjóðs 1962 til ársloka 1968?“

Og ég skil fsp. þannig, eins og hún er orðuð, að það sé átt við heildartölur, en ekki fyrir hvert einstakt ár og ég mun svara henni þannig.

Svarið er sem hér segir:

Reykjavík: Lán 1 millj. 570 þús., engir styrkir. Samtalan 1 millj. 570 þús.

Reykjaneskjördæmi: Lán 6 millj. 910 þús., engir styrkir. Samtalan er því 6 millj. 910 þús.

Vesturlandskjördæmi: Lán 26 millj. 195 þús., styrkir 3 millj. 295 þús. Samtalan 29 millj. 490 þús.

Vestfjarðakjördæmi: Lán 43 millj. 730 þús., styrkir 8 millj. 355 þús. Samtals 52 millj. 85 þús.

Norðurlandskjördæmi vestra: Lán 27 millj. 640 þús., styrkir 2 millj. 950 þús. Samtals 30 millj. 590 þús.

Norðurlandskjördæmi eystra: Lán 48 millj. 495 þús., styrkir 5 millj. 980 þús. Samtals 54 millj. 475 þús.

Austurlandskjördæmi: Lán 21 millj. 252 þús., styrkir 3 millj. Samtals 24 millj. 252 þús.

Suðurlandskjördæmi: Lán 8 millj. 800 þús., styrkir 900 þús. Samtals 9 millj. og 700 þús.

Ég skal til viðbótar geta þess, að á árinu 1968, eða nú rétt fyrir áramótin, voru veittar samtals úr atvinnujöfnunarsjóði 24 millj. og 800 þús. kr. til 8 hraðfrystihúsa, en þannig stóðu sakir og frá því var skýrt hér á hinu háa Alþ., að það mundu vera allmörg hraðfrystihús, sem ekki mundi vera hægt að aðstoða samkvæmt l. um aðstoð við hraðfrystiiðnaðinn, vegna þess að tryggingar þessara húsa og eignir væru ekki með þeim hætti, að fiskveiðasjóður gæti veitt aðstoð eftir venjulegum leiðum. Þessar upphæðir eru meðtaldar í þeim fjárhæðum, sem ég hef þegar getið um og sé ég því ekki ástæðu til þess sérstaklega að lesa þær upp, en þessi lán voru með þessum sérstaka hætti og hefur þeim þegar verið úthlutað, en samtals hafa verið á þessum árum veitt lán og styrkir úr atvinnubótasjóði og síðan atvinnujöfnunarsjóði frá 1962 til ársloka 1968, 184 millj. 592 þús. í lán og 24 millj. 480 þús. í styrki eða samtals lán og styrkir 209 millj. 72 þús. kr.