14.05.1969
Sameinað þing: 50. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 971 í D-deild Alþingistíðinda. (4039)

292. mál, fuglafriðun

Fyrirspyrjandi (Jón Árm. Héðinsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. menntmrh. þessi svör og ég vænti þess, að þessi fsp. verði til þess, að þessi mál séu athuguð nánar. Ég átti ekki von á því, að beinar kærur hafi legið fyrir, því að það er nú einu sinni svo, að menn eru seinþreyttir til að kæra beint, því að þá þurfa menn að standa í ýmsum snúningum í kringum það, en þegar farið er að segja frá þessu í blöðum og útvarpi, að svona veiðar séu stundaðar ólöglega, þá finnst mér full ástæða til þess að vekja á því athygli. Það er það minnsta, sem maður getur gert. Og fyrst í landinu eru ákveðin samtök, sem vilja fylgjast með fuglaverndun, þá mætti líka ýta við þeim, að þau væru vakandi um að hafa þá hemil á slíkum athöfnum. Ég get nefnt ágæta grein, sem Ragnar Ásgeirsson skrifaði fyrir nærri tveimur árum um svona veiðar. Hún var mjög skelegg og góð, en ég sá ekki, að nokkur maður tæki undir þau orð, sem þar stóðu og þess vegna fannst mér ástæða um daginn, þegar ég heyrði þessar frásagnir í útvarpinu um svona fuglaveiðar, að vekja nú athygli hér í þinginu á þeirri staðreynd, að menn vita ekki, hvernig lög um fuglafriðun eru og fara því mjög ólöglega að fuglaveiðum.