14.05.1969
Sameinað þing: 50. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 972 í D-deild Alþingistíðinda. (4041)

292. mál, fuglafriðun

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Hér er hreyft merku máli, sem ástæða er til að veita athygli. Það er hvort tveggja, að almenningur er, að ég hygg, næsta ófróður í fuglafriðunarlöggjöfinni, og annað hitt, að víða kann að vera pottur brotinn með nægilegt eftirlit með skotvopnum. Þó var það á s.l. ári gert af hálfu dómsmrh., að reynt var að samræma reglur um allt land um aukið eftirlit með skotvopnum og reynt að stemma stigu fyrir, að þau væru í umferð án leyfis.

Það er sennilega alveg rétt hjá þeim, sem hér hafa talað, að það kveður nokkuð mikið að ólöglegu fugladrápi. En þess er að geta, – þó að rætt hafi verið um það, að auka þyrfti löggæzlu í þessu efni, — þá er þetta eitt af þeim sviðum, sem erfitt er að fylgjast vel með, án þess að allur almenningur taki þátt í löggæzlunni. Þess vegna er það nauðsynlegt fyrst og fremst að upplýsa almenning, dreifa ákvæðum fuglafriðunarlaga og kynna þau. Fuglafriðunarlögin hafa verið gefin út sérprentuð í handhægu broti. Þau eru að sjálfsögðu afhent öllum þeim, sem leyfi fá til að eiga og bera skotvopn. En það þarf að gera meira. Það þarf að hefja um þetta opinberan áróður, þannig að allur almenningur taki þátt í löggæzlunni. Með því eina móti verður náð viðunandi árangri í þessu máli.