14.05.1969
Sameinað þing: 50. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 973 í D-deild Alþingistíðinda. (4045)

293. mál, samningsréttur Bandalags háskólamanna

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að beiðni stjórnar Bandalags háskólamanna að bera fram eftirfarandi fsp., sem beint er til hæstv. fjmrh.:

„Á hvern hátt hyggst ríkisstj. koma til móts við óskir Bandalags háskólamanna um samningsrétt því til handa fyrir hönd háskólamanna í þjónustu ríkisins?“

Ég vil leyfa mér, vegna þess að ég dreg það í efa, að hv. alþm. almennt hafi fulla kunnugleika á Bandalagi háskólamanna, hvaða félagsskapur þetta er og hvaða áhugamál það hefur, að lesa grg., sem tekin er saman af stjórn Bandalags háskólamanna:

„Í fyrsta lagi má spyrja: Hvað er Bandalag háskólamanna? BHM eða Bandalag háskólamanna eru samtök 12 félaga háskólamanna. Þau eru Dýralæknafélag Íslands, Félag háskólamenntaðra kennara, Félag ísl. fræða, Félag ísl. náttúrufræðinga, Félag menntaskólakennara, Hagfræðifélag Íslands, Lyfjafræðingafélag Íslands, Læknafélag Íslands, Lögfræðingafélag Íslands, Prestafélag Íslands, Sálfræðingafélag Íslands og Verkfræðingafélag Íslands.

Samanlagt eru meðlimir þessara félaga um 1.500 talsins. Meira en helmingur þeirra er í þjónustu opinberra aðila. Í þeim hópi eru svo til allir vísindamenn þjóðarinnar og þeir starfsmenn, sem hafa með höndum réttarfar og opinbera stjórnsýslu, svo að dæmi séu nefnd.

Bandalag háskólamanna hefur frá upphafi haft það á stefnuskrá sinni að berjast fyrir samningsrétti sér til handa. Og þá má spyrja: Hvers vegna fer það fram á samningsrétt? Háskólamenntaðir menn vilja, að bandalag þeirra sé í fyrirsvari fyrir þá í kjaramálum gagnvart ríkisvaldinu og hafna því, að óskyldir aðilar fjalli um mál þeirra. Hagsmunir háskólamanna hljóta alltaf að verða út undan í fjöldasamtökum. Er löngu ljóst, að ævitekjur háskólamanna í ríkisþjónustu eru svo lágar, að þeim, sem þurfa að vinna hjá ríkinu, er refsað efnahagslega fyrir menntun sína.

Þá mætti spyrja: Er það óþekkt, t.d. í nágrannalöndum okkar, að háskólamenn fari með eigin kjaramál sem sérstakur aðili? Svar við þessu er nei. Á öllum hinum Norðurlöndunum fara samtök háskólamanna eða æðri embættismanna með kjaramál sín gagnvart ríkinu. Og þá mætti spyrja: Hvers vegna hefur Bandalag háskólamanna ekki fengið samningsrétt? Krafan um samningsrétt var fyrst fram sett 1961, við undirbúning að núverandi samningsréttarlögum og hefur hún verið ítrekuð æ síðan, en það hefur strandað á ríkisvaldinu. Það hefur ekki annað komið fram, en BSRB eða Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, sem raunverulega fer með samningsrétt fyrir þennan hóp, hafi jákvæða afstöðu í þessu máli. Til er svo hljóðandi samþykkt frá stjórn BSRB, gerð 1. apríl 1966, með leyfi hæstv. forseta:

„Ef ríkisstj. og Alþ. ákveða að veita Bandalagi háskólamanna sérstakan samningsrétt um kjör háskólamenntaðra manna í ríkisþjónustu, mun stjórn BSRB fyrir sitt leyti ekki leggjast gegn því, enda skerði það á engan hátt sjálfstæðan samningsrétt og samningsaðstöðu BSRB.“

Eitthvað mun þó hafa bryddað á því í viðræðum við ríkisstj., að BSRB teldi það óheppilegt, ef Bandalag háskólamanna fengi samningsrétt og það er talið miða að klofnun BSRB.

Þá vaknar spurningin: Klauf BHM sig út úr BSRB á sínum tíma? Því er til að svara, að BHM hefur aldrei verið aðili að BSRB sem slíkt, en nokkur félög háskólamanna voru í BSRB, en þau hafa gengið úr því og fjölda margir einstaklingar, sem voru félagar þar í ýmsum starfsmannafélögum. Á varanlegum klofningi innan BSRB eru því engar líkur að áliti BHM.

Hvað hefur þá ráðið afstöðu ríkisins? Að dómi BHM–manna er það aðallega tvennt. Í fyrsta lagi nefnd klofningskenning og svo það atvinnurekendasjónarmið, að betra sé að hafa einn viðsemjanda, þ.e.a.s. fyrir ríkið, en tvo, og bezt væri að hafa engan. BHM metur mikils, að núv. fjmrh. hefur að nokkru komið til móts við óskir BHM með því að beita sér fyrir aukaaðild þess að þeirri tilraun til starfsmats, sem verið er að gera og að skipa viðræðunefnd BHM, BSRB og ríkisins. En í þeirri viðræðunefnd stendur allt fast. Þá mætti spyrja: Hvað skeður, ef ekki verður fundin viðunandi lausn? (Forseti: Ræðutíminn er liðinn.) Fyrirgefið, ég vil aðeins fá að segja örfá orð. Það er spurt, hvað háskólamenn færu fram á, ef þeir fengju kjarakröfum sínum fullnægt. Svarið er, að þeir mundu ekki fara fram á, að leiðréttingar kæmu allar í einu, heldur dreifðust á fleiri ár, þannig að unnt væri að taka tillit til efnahagsaðstæðna í þjóðarbúskapnum.