14.05.1969
Sameinað þing: 50. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 975 í D-deild Alþingistíðinda. (4046)

293. mál, samningsréttur Bandalags háskólamanna

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Í þessari fsp. er komið inn á mikið vandamál, sem margt mætti um segja, en ég skal reyna að takmarka mig við meginkjarna málsins til þess að verða ekki of langorður í þessum fsp.–tíma.

Mér finnst ekkert undarlegt, að af hálfu háskólamanna sé hreyft þessari fsp., jafnvel hér á hinu háa Alþ., því að vaxandi þungi er á þessu máli og hefur verið undanfarin ár, en hins vegar er málið alls ekki til komið á þessum allra síðustu árum. Eins og hv. fyrirspyrjandi sagði, var það þegar, þegar samningsréttarl. voru sett 1961, að Bandalag háskólamanna hreyfði þá þeirri ósk, að það fengi aðild að samningum við ríkið. Það mun hafa ráðið afstöðu manna hér á Alþ. þá að ég hygg, að það þótti eðlilegast, að allir ríkisstarfsmenn væru í einu bandalagi og það mundi torvelda mjög alla samningsgerð, ef hér væri við marga aðila að eiga og líkur þóttu á því, að það yrði erfitt að takmarka sig við tvo aðila, heldur gætu þeir orðið fleiri og þar af leiðandi minnkandi horfur á því, að það tækist að ná samkomulagi um launaflokka, hvað sem launaupphæðum að öðru leyti liði. Þetta hygg ég að hafi verið rökin, sem þá voru fram færð og hafi orðið þess valdandi, að í núgildandi lögum er það svo, að Bandalag starfsmanna ríkis og bæja er löggiltur aðili til þess að fara með samningsrétt allra opinberra starfsmanna gagnvart ríkinu, þó að það sé vitanlegt, að innan þess bandalags eru ekki allir ríkisstarfsmenn. Það eru t.d. ýmsir háttsettir embættismenn ríkisins, sem alls ekki eiga neina aðild að Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og raunverulega verður það því hlutur gagnaðilans, ríkisvaldsins eða samningan. ríkisins, að koma fram með till. um skipun þeirra manna í launaflokka.

Því miður hefur það farið svo, að sjaldan hefur tekizt að semja, án þess að kjaradómur hafi þurft að koma til og er margt, sem því hefur valdið. Það hefur reynzt ákaflega erfitt, miðað við þá mjög ólíku hagsmunahópa, sem hafa verið innan BSRB, að koma saman kröfugerð af hálfu bandalagsins, sem hefur verið nokkuð í námunda við það, sem hafi verið hægt að leggja til grundvallar sem samkomulag um kjarasamninga. Það má því segja að, að þessu leyti hafi þessi hugmynd með kjarasamningalögunum ekki náð tilgangi sínum. En það, sem hefur farið versnandi ár frá ári, er sambúð milli vissra hópa ríkisstarfsmanna og það hefur leitt til þess, að háskólamenn hafa fylkt sér meira og meira um sín samtök, Bandalag háskólamanna og er nú svo komið, að meginþorri allra háskólamenntaðra manna í þjónustu ríkisins er orðinn aðili að Bandalagi háskólamanna.

Nú er það að vísu svo, að Bandalag háskólamanna er miklu meira, en samtök háskólamanna í þjónustu ríkisins. Það er allsherjar bandalag, eins og hv. fyrirspyrjandi lýsti hér áðan, og e.t.v. ekki nema helmingur þeirra eða ekki það, sem eru ríkisstarfsmenn, þannig að, að því leyti hefur verið nokkuð erfitt að taka það sem samningsaðila, þó að þeir hafi boðið það og ég efa ekki, að þeim sé auðvelt að finna form fyrir því að breyta skipulagi sinna samtaka þannig, að ekki taki aðrir þátt í þeim samningum en þeir, sem eru raunverulega ríkisstarfsmenn.

Það er rétt, að Bandalag starfsmanna ríkis og bæja hefur fyrir sitt leyti ekki sett fótinn fyrir það, að Bandalag háskólamanna fengi nú samningsaðild, eftir því sem krafan um það hefur orðið ríkari. En hinu er ekki heldur að leyna, að Bandalag starfsmanna ríkis og bæja hefur vakið athygli mína á því og ég hygg, að það sé ekkert launungarmál, að ef svo færi, að Bandalag háskólamanna yrði viðurkenndur samningsaðili eftir lögum, þá væru mjög litlar líkur á því, að Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja tækist að halda innan sinna vébanda öllum öðrum starfshópum í þjónustu ríkisins, heldur mundu fleiri koma á eftir og heimta sjálfstæða samninga. Af þessum sökum er hér um mikið vandamál að ræða.

Það hefur verið skoðun mín og ég hef látið hana í ljós við Bandalag háskólamanna, að ég tel, að það mundi skapa margvísleg vandræði að hafa fleiri en einn samningsaðila og hættan vera mjög rík á því, eftir þeim upplýsingum, sem ég gat um, að þá yrði skammt þangað til þeir samningsaðilar yrðu enn þá fleiri og þá væri hætta á því, að þetta kerfi mundi brotna niður.

Þetta er ástæðan fyrir því, að ég hef viljað leggja á það alla áherzlu að reyna að finna einhvern samstarfsgrundvöll milli þessara heilda. Ég finn það engu að síður, að möguleikinn á þessu fer síminnkandi. Fyrir rúmu ári var lokið endurskoðun l. um samningsrétt opinberra starfsmanna. Í þeirri endurskoðun var ekki gert ráð fyrir því, að Bandalag háskólamanna fengi neina aðild og ég hef tjáð Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, að meðan ekki sé fundinn grundvöllur í því máli, þá treysti ég mér ekki til að flytja þessa endurskoðuðu löggjöf í því formi, sem hún er nú.

Ég hef reynt að beita mér fyrir ýmsum úrræðum til þess að kanna það til hlítar, hvort ekki væri nein hugsanleg leið til þess að sætta þessi andstæðu sjónarmið og finna einhvern sameiginlegan grundvöll til þess að standa á, t.d. sameiginlega aðild BSRB og Bandalags háskólamanna að þeim nefndum og ráðum, sem gert er ráð fyrir í lögunum um samningsréttinn. Ég hef oft átt viðræður við þessa aðila, hvort hugsanlegt væri, að formlega væri hægt þarna að veita háskólamönnum sérstaka aðild og sérstakan rétt í framhaldi af því.

Þá hefur komið til starfsmat og var gert samkomulag um það milli rn. og BSRB. Slíkt kerfisbundið starfsmat er hin mesta nauðsyn til þess að fá einhvern frið um kjaramál opinberra starfsmanna. Það varðar ekki eingöngu frið milli Bandalags háskólamanna og BSRB, heldur einnig milli hinna mörgu starfshópa opinberra starfsmanna, en allir eru sammála um, að nauðsyn beri til þess að fá enda bundinn á þessi deilumál. Vitanlega er slíkt starfsmat geysilega mikið áhugamál háskólamanna, vegna þess að við það hlýtur mjög að koma til athugunar og vera afgerandi, hvaða reynslu menn hafa og hvaða menntunar þeir hafa aflað sér. Ég hef lagt áherzlu á það í viðræðum mínum við forráðamenn Bandalags háskólamanna, að reynt yrði að fresta því að láta skerast í odda, þar til þetta starfsmat lægi fyrir. Ég bauð Bandalagi háskólamanna að fylgjast vandlega með þessu starfsmati, en af hálfu ríkisins hefur þess verið vandlega gætt að hafa fulltrúa þeirra með í ráðum.

Þessu starfsmati er ekki lokið, en ég hygg, að það sé ekki ágreiningur um það við Bandalag háskólamanna, að niðurstaða þess geti orðið mjög afgerandi um afstöðu Bandalagsins varðandi samningamálin. Ég hef til viðbótar þessu efnt til sérstakrar nefndarskipunar milli ráðuneytisins, Bandalags háskólamanna og BSRB, til þess að kanna það nú til hlítar, hvort ekki væri hugsanleg einhver leið, sem gæti gert það mögulegt að efna til samstarfs þessara aðila í því formi, að ekki þyrfti að umturna þeim samningsréttarlögum, sem við búum við. Það verður lögð áherzla á það, að þessi nefnd starfi af fullum krafti og niðurstaða fáist í þessu máli nú innan skamms, þannig að í haust, þegar til samninga kemur, þá liggi fyrir bæði niðurstaða varðandi starfsmatið og eins niðurstöður þessarar samninganefndar eða viðræðunefndar, þannig að full kannað verði, hvort hægt sé að leysa málið innan ramma núverandi löggjafar eða ekki.

Þetta er það, sem þegar hefur gerzt. Ég tel mikilvægt, að hægt sé að leysa þetta mál innan núverandi löggjafar á þann veg, að Bandalag háskólamanna og BSRB gætu sem tveir jafnréttháir aðilar að þessum samningum átt þá sína fulltrúa báðir í þeim nefndum og ráðum, sem samningsréttarlögin gera ráð fyrir. Verði ekki um neina slíka samvinnu að ræða, hlýtur að verða að taka málið upp af fullri alvöru.

Ég er ekki reiðubúinn í dag að segja, með hvaða hætti ég mundi, ef ég hefði einhver afskipti af því máli, vilja beita mér fyrir lausn þess, en mér er það ljóst ; að Bandalag háskólamanna hefur orðið innan sinna vébanda allan þorra háskólamenntaðra manna í þjónustu ríkisins, hefur vaxið ár frá ári og staða þess hefur styrkzt, og það verður þess vegna ekki gengið fram hjá þessu bandalagi lengur semmjög mikilvægum og sterkum aðila í þessu máli og fulltrúa fyrir einmitt þann hóp ríkisstarfsmanna, sem ríkið má sízt af öllu án vera. Hvort hér kemur til átaka um kjaramálin, launamálin út af fyrir sig, það skal ég ekkert um segja, þeir hafa sjálfir sagt, að þeir hafi alla hófsemd í kröfum um það og vona ég, að svo verði og þeir geti þá haft góð áhrif á vissa hópa, sem hafa brotizt undan launakerfinu og sérstöðu hafa haft og við þekkjum, en út í þá sálma skal ég ekki fara.

Ég veit ekki, hvort fsp. hv. þm. er svarað fullnægjandi, en ég get sem sagt aðeins endurtekið það, að ég held, að þær aðgerðir, sem ég hef haft uppi til þess að efna til viðræðna bæði við Bandalag háskólamanna út af fyrir sig, efna til sameiginlegra viðræðna milli þeirra, ríkisins og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og veita þeim aðild að starfsmatinu, sem mér er full alvara að verði meira en nafnið tómt, það sýni fullkomlega, að ég hef vilja til þess og rn. að mæta öllum sanngjörnum óskum Bandalags háskólamanna, sem þeir hafa fram borið. Ég vil taka það fram og það sé þeim til lofs, að þó að þetta hafi verið þreytandi barátta áreiðanlega fyrir þeirra forráðamenn, þá hafa þeir unnið á þann hátt að málum sínum, að það hefur vakið samúð. Þeir hafa ekki borið fram neinar óhæfilegar kröfur, en þeir hafa lagt fram rök, sem ekki hefur verið hægt að ganga fram hjá, heldur hefur orðið að taka til alvarlegrar íhugunar.