20.12.1968
Sameinað þing: 25. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 543 í B-deild Alþingistíðinda. (406)

1. mál, fjárlög 1969

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð út af ummælum hæstv. fjmrh. um fjárlagafrv., form þess, sem hann taldi vera mjög gott og ekki ástæðu til þess að kvarta undan. Ég gerði það svona að gamni mínu áðan, að ég lét einn þm. prófa það, hvað hann væri fljótur að finna í bókinni ákveðið atriði, sem ég benti honum á. Hann gerði þrjár vitleysur fyrst, áður en hann fann það. Þetta var þm. og ekki af lakara taginu. (Fjmrh.: Gerði hann þá ekki prufu á því líka, hvað þm. væri fljótur að finna það í eldri fjárl.) Ég skal koma að því. Þetta er alveg rétt hjá hæstv. ráðh. Eldri fjárl. voru hvergi nærri fullkomin hvað þetta snertir. En það, sem vantar í þetta, er að hafa blaðsíðutalið við yfirlitið, en það er ekkert. Þá væri það miklu betra, þetta sem er með fjárlagafrv., og auk þess það, sem ég lagði aðaláherzluna á, að það væri líka með fjárl. Ef það hefði verið blaðsíðutal með þessu efnisyfirliti, sem er með fjárlagafrv., og sama látið gildá um fjárl., þá hefði ég ekki undan neinu að kvarta. En þetta hvort tveggja vantar. Hæstv. ráðh. sagði, að þetta yrði tekið til athugunar, og það er gott, það sem það nær. Ég vona, að hann komi þessu í framkvæmd.

Um hitt atriðið, að þetta frv. sé betur úr garði gert en fyrri fjárlög, er ég honum alveg sammála. Það eru miklu fullkomnari upplýsingar í fjárl. nú en áður var, og ég var alls ekki að finna að fjárlagagerðinni hvað það snertir. Það eina, sem ég hafði út á að setja, var það, að þetta væri óaðgengilegt fyrir allan almenning, og það dugar ekki, þó að þm. og það kannske ekki nema sumir þeirra geti lært þetta á nokkrum árum. Þetta verður að vera svo auðvelt, að allur almenningur geti notað bókina svona tafarlítið, og ég treysti því, að hæstv. ráðh. komi þessu í verk að láta fylgja efnisyfirlit og það nákvæmt með fjárl., líka fjárlagafrv. og með blaðsíðutali, svo að hver og einn geti flett upp í þessari ágætu bók. En ég endurtek það, að ég tel að öðru leyti frv. miklu fullkomnara en fyrri fjárlög, miklu fullkomnara hvað formið snertir en áður hefur verið.