20.12.1968
Sameinað þing: 25. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 544 í B-deild Alþingistíðinda. (408)

1. mál, fjárlög 1969

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð út af ræðu hæstv. fjmrh. áðan. Ég kann vel að meta það, að hæstv. ráðh. geri málefnalegar aths. við till. okkar þm., eins og hann gerði hér áðan. Hann gerði þar skýra grein fyrir sjónarmiðum sínum og lagði þau fram á mjög glöggan hátt. Þó að ég sé ekki sammála þeim, kann ég vel að meta slíkan málflutning.

Í tilefni af því, sem hann sagði um Heyrnarhjálp, og að ekki væri ástæða til þess að gleðja þau samtök eitthvað sérstaklega, vakti ekki sérstaklega fyrir mér að gleðja þessi samtök. Það, sem fyrir mér vakir, er það, að ég tel, að þetta félag hafi unnið mjög gagnlegt starf fyrir fólk, sem á við þennan heilsufarslega vanda að etja. Og hugmynd mín var sú að aðstoða þetta fólk, en ekki þessi samtök. Ég hygg, að hæstv. ráðh. geti fengið um það vitneskju hjá landlækni, að hann telur þessa starfsemi vera mjög gagnlega. Deilur, sem uppi kunna að vera í þessu sambandi, koma þessu máli í sjálfu sér ekki við. Ef þessi samtök vinna það verk, sem þau ætla sér að vinna, þannig, að að gagni komi, þá er full ástæða til þess að styðja þau með þessari litlu upphæð, sem ég nefndi hér áðan.

En ástæðan til þess, að ég kvaddi mér hljóðs, var fyrst og fremst það, sem hæstv. ráðh. sagði um aðstöðu nemenda, sem stunda nám erlendis. Það er eflaust rétt, sem hæstv. ráðh. segir, að það eru talsverð brögð að því, að menn séu erlendis við nám, sem e.t.v. er ekki hægt að telja þjóðfélagslega mikilvægt, og í sumum greinum sé fleira fólk en ætti að vera o.s.frv. En ég held, að það væri ákaflega háskalegt, ef ætti að fara að takmarka þennan hóp með fjárhagslegum ráðstöfunum, að gera þeim það erfitt fyrir kostnaðarlega að stunda námið, að einhver hluti þessa fólks verði að gefast upp af þeim ástæðum. Það er engin trygging fyrir því, að það bitni sérstaklega á þeim, sem eru í óþörfu námi. Það getur bitnað allt eins á þeim, sem eru í mikilvægasta náminu. Og ef það verða teknar upp nýjar reglur um starfsemi Lánasjóðsins, sem vafalaust væri skynsamlegt, held ég, að þær reglur eigi ekki að bitna á því fólki, sem þegar hefur hafið nám og er e.t.v. búið að eyða allmörgum árum í nám erlendis. Það á ekki að gera ráðstafanir til að knýja þetta fólk til að hætta slíku námi í miðjum klíðum. Þegar menn hefja nám, verða þeir að fá að vita það frá Lánasjóðnum, hvers þar má vænta. Og hafi maður hafið nám erlendis og fengið til þess aðstoð úr Lánasjóðnum, fylgir því siðferðileg skuldbinding um, að þessi aðstoð verði látin í té meðan maðurinn stundar námið. Þetta er ekki nein lagaleg skuldbinding, hún er siðferðileg alveg tvímælalaust, þannig að ég held, að það væri mjög háskalegt, ef það á að fara að gera skortinn að skömmtunarstjóra hvað þetta snertir, því að fyrir því er engin trygging, að það bitni á þeim, sem við megum helzt án vera. Þetta vildi ég benda hæstv. ráðh. á Þetta eru mál, sem þarf að fjalla um af mikilli gát og vandvirkni, tel ég.